Af undarlegri uppblossun ástsýki minnar

Einn rólegur dagur og ég verð heltekin af draumórum um loðnara kynið. Búin að máta 10 eða 12 menn inn í fantasíuna um sunnudagsmorgun í eldhúsinu, með bökunarlykt og sunnudagskrossgátu og öllu, en enginn þeirra fellur almennilega að ímyndinni. Ég sakna manns sem ég þekki ekki (ef hann er þá til). Þetta er ekki lagi, ég meina það.

Samt, ef ég væri gipt, þætti engum skrýtið að ég saknaði mannsins míns. En þar sem ég er ekki gipt en sakna samt mannsins míns, hlýt ég að stjórnast af;

a) naivisma -orð sem menntasnobbarar nota þegar þeir meina „heimska“ en vilja ekki að aðrir átti sig á því hvað þeir eru dónalegir.
b) örvæntingu -orð sem er einatt notað um einhleypar konur, í þeim tilgangi að gera lítið úr mannlegum þörfum þeirra.
c) vergirni -sem giptar konur þjást víst sjaldana af, svo sem vinsældir súlustaða bera glöggt vitni.
d) geðveiki -sem allar konur þjást af, einkum fyrrverandi kærustur og eiginkonur.

Ég held að ég sé að verða ástfangin af Stefáni Mána. Ég man að vísu ekkert hvernig hann lítur út en bókin sem kom út síðasta haust, og ég er fyrst núna að lesa, er til þess fallin að leggja mig í bælið af ástsýki.

Lögmál 6
Manneskjan er í eðli sínu ástsjúk. Ef hún hefur engan til að elska, klínir hún ást sinni á guði, fræði, listir og ímyndir.

Best er að deila með því að afrita slóðina