Ekkert til

Þegar fólk segir „það er ekkert til í ísskápnum“ á það venjulega við „ekkert sem mig langar sérstaklega í, í augnablikinu.“ Í mínu eldhúsi er þetta hinsvegar nokkuð nálægt því að vera bókstaflegt.

Ég veit fátt leiðinlegra en innkaup. Bónus á föstudegi veldur mér sértækri kvíðaröskun og ég á það til að bresta í grát ef cantonese sósan er ekki til eða ef eitthvað sem mig vantar er svo hátt uppi að ég næ því ekki hjálparlaust. Í mörg ár, eða allt frá því að Vörður laganna var unglingur, hef ég haft fyrir venju að taka a.m.k. einn stóran strák með mér í verslunarleiðangra.

Þegar strákarnir eru að heiman leysi ég málin með því að fara bara ekkert í búð fyrr en ég sé fram á varanlegt heilsutjón. Það er með ólíkindum hve lengi er hægt að fresta innkaupum. Í síðustu viku fór ég á Nings. Á laugardaginn fékk ég Sigrúnu til að elda ofan í mig. Í gær át ég tvö egg og eina karamellu á kostnað fyrirtækisins.

Í dag lauk ég við það sem til var í ísskápnum, í orðsins bókstaflegustu merkingu. Ég komst að raun um að útrunnið rauðvín, sardínur og bananar fara ekki vel saman.

Best er að deila með því að afrita slóðina