Hvað borða nornir?

Telpurnar fikruðu sig varfærnislega að búðarborðinu, horfðu með lotningu á rúnahálsmen, jurtasmyrsl og galdratól og hvísluðust á um möguleika sína á að safna fyrir ástagaldri sem reyndar er ekki seldur fólki undir 18 ára aldri.

Eftir dágóða stund áræddi önnur þeirra að ávarpa mig.
-Hvernig veit maður hvort einhver sé í alvörunni norn? spurði hún.
-Maður veit það sennilega ekki enda geta allir lært að verða nornir, svaraði ég.
-En eru ekki sumir samt fæddir þannig?

-Þannig hvernig?
-Eins og þú til dæmis.
-Ég býst við að sumir séu fæddir „eins og“ ég, t.d. ljóshærðir.
-Ég veit hvernig maður sér það, sagði vinkona hennar sem virtist skyndilega hafa fengið málið. Það sést á höndunum.

Ég, með mínar gamalmennishendur samþykkti að hugsanlega væru þær til marks um fordæðuskap minn og breiddi úr krumlunum svo þær gætu séð þessi undur betur.

Þær góndu með andakt á lúkurnar á mér en loks spurði sú sem hafði orð fyrir þeim:
-Hvað borða nornir?
-Aðallega barnaket, svaraði ég.
Þær flissuðu en þó eins og þær væru eilítið óöruggar.
-Nei, svona í alvöru, borða nornir það sem er til sölu hérna eða eitthvað annað?
-Maðurinn lifir nú ekki á kanelsnúðum og karamellum einum saman þótt hann sé göldróttur. Ég borða bara venjulegan mat. Fisk, jógúrt og kjötsúpu, bara eins og annað fólk, laug ég, enda gat ég ómögulega sagt barninu að í 3 mánuði hafi uppistaðan í fæðinu mínu verið kaffi, súkkulaði, magic og mæjonessamlokur — „sem sannar að þú ert fordæða því venjulegt fólk deyr af slíkri meðferð“ — segir Endorfínstrákurinn, og ekki á það hættandi að ungur aðdáandi taki sér annað eins líferni til fyrirmyndar.

Þær boruðu tánum í gólfið og virtust ósáttar við svarið. Að lokum kom í ljós að þetta snerist ekki um kanelsnúðana heldur höfðu þær heyrt tröllasögur af ástarelexír spúsu minnar hinnar seyðríku. Elexír þessi var á boðstólnum á Menningarnótt en þó ekki fyrir börn — enda ekki til þess ætlast að börn kveiki losta eða séu yfirhöfuð í makaleit. Þær vildu sumsé fá staðfestingu á því að hið dularfulla seiðmagn mitt helgaðist af jurtaseyði, berjadrykkjum og Húsatúnshunangi, auk þess sem ég hlyti að neyta einhverrar fastrar fæðu og þá væntanlega göldróttrar mjög.

Ég verð að játa að ég hafði dálítið gaman af þessu. Hef aldrei talið mig sérstaklega dularfulla útlits en taldi upplagt að nota þetta gullna tækfæri til að hafa uppeldisleg áhrif.
-Jújú, ég drekk stundum svona elexír, sagði ég, það er náttúrulega fullt af hollustu í honum. Annars borða ég aðallega grænmeti og fisk og drekk náttúrulega mikið vatn.

Ég tók ekki fram að fiskát mitt undanfarið hefði aðallega verið í formi rækjusamloku og að vatnið síað í gegnum kaffiduft. Mér leið ekkert illa yfir þessari hvítu lygi og bætti því við að ég reykti náttúrulega ekki heldur.
-Allt eitur truflar nefnilega einbeitingu og orkuflæði, útskýrði ég. Var samt ekki viss um þetta með orkuflæðið, fannst það hljóma svolítið eins og kjaftæði og ákvað að fara ekki nánar út í þá sálma. Held samt að þær taki meira mark á þeirri skýringu en þeirri að eitur sé vont, dýrt og mannskemmandi.

Best er að deila með því að afrita slóðina