Fyrr má nú selja en selja upp

Tímamögnunargaldurinn virkar! Ég var farin að halda að hann væri eitthvað gallaður en nú er komið í ljós að hann er ekki bara í lagi heldur mun öflugri en ég þorði að vona. Hvert tímasparnaðarhappið hefur rekið annað. Ég hef fengið bílastæði án þess að leita, fólk hefur boðið mér af mestu vinsemd að vera á undan sér í biðröðinni og í gær kom Skari og málaði eldhúsið mitt og er langt kominn með að flísaleggja það líka. Til að kóróna allt saman kom svo Spúnkhildur svífandi inn í dag með þær fréttir að æðsti postuli Mammons hjá útibúi hennar hafi miskunnað sig yfir okkur og samþykkt náðunarbeiðni hennar. Hún losnar því úr haldi mun fyrr en við áttum von á.

Mér veitir samt ekkert af því að halda áfram að beita galdrinum því staðan er þannig að skuldafælan er uppseld, rúnaborðin eru uppseld (ég þurfti að stoppa Spúnkhildi af svo hún seldi ekki prómótýpu af einu þeirra og mitt eigið persónulega borð, þá var hún þegar búin að selja sýniseintakið úr glugganum), atvinnugaldurinn er uppseldur, áhyggjubrúðan er uppseld, kjarkbrúðan er uppseld, 2 eintök eftir af ferðagaldrinum og 1 af heimilisfriðnum og eitt af ástagaldrinum. Við eigum ennþá 2 umhyggjubrúður fyrir ungbörn.

Vöðvaolían er uppseld. Slökunarolían er uppseld og eitthvað lítið eftir af öðrum olíum og smyrslum. Við eigum eftir einn pakka af tarotspilum, örfáar hunangskrukkur, nokkra tepakka og eina krukku af karamellum. Reykelsa og kertalagerinn sem við fengum í dag mun sennilega ekki duga út vikuna.

Semsagt. Annaðhvort verðum við á fótum fram undir morgun eða þá að þeir sem koma á morgun geta keypt reykelsi, hálsfesti, spábolla og lyklakippur. Þ.e.a.s. ef færri en 10 versla.

Ég hef aldrei haft jafn ánægjulegar áhyggjur.

Best er að deila með því að afrita slóðina