Af Píplaugi hinum kvenþreifna

Píplaugur hinn kvenþreifni er að eigin sögn mjög sérstakur maður. Ég tók í spaðann á honum og sýndi honum aðstæður og innan 2ja mínútna var hann búinn að koma því að hann væri skilinn við konuna sína og búinn að ganga óvart utan í mig þrisvar sinnum í þessu 40 fermetra herbergi. Ég fékk strax á tilfinninguna að hann hefði megnið af hugmyndum sínum um starfssvið pípulagningarmanna úr klámmyndum því hann virtist ekki sjá neinn mun á niðurfalli og vatnsinntaki og sagðist ekki geta byrjað fyrr en Pípmundur hinn góði væri mættur. Ég bauð honum kaffi af kurteisi minni á meðan við biðum eftir meistaranum. Kannski hefur hann skilið það sem merki um að ég væri haldin bráðabrókarsótt. Allavega sagði hann mér alveg í óspurðum fréttum að hann hefði ekki kennt kvenmanns í 14 mánuði.

-Jahérna, sagði ég í fremur áhugalausum tón, sótti g-mjólk í kaffið og sneri talinu aftur að pípulögnunum.

En Píplaugur var aldeilis ekki af baki dottinn.
-Það er eitt sem mig langar að segja þér Eva, sagði hann í trúnaðartón og rétti fram báða lófana. Andartak hélt ég að hann ætlaði að biðja mig að lesa í lófana sína en hann hélt áfram:
-Sjáðu hendurnar á mér, ég hef rosalega góðar hendur. Ég er sko mjög góður nuddari og ég hef hugsað mér að bjóða upp á nudd í hjáverkum, svona ef þú hefur áhuga.

Ég sá í hendi mér að slíkan happafeng mætti ég ekki láta mér úr greipum ganga. Eftir aðeins 5 mínútna kynni var hann búinn að segja mér allt það mikilvægasta um sjálfan sig, svosem eins og að hann hefði verið kvenmannslaus í 14 mánuði og væri góður nuddari. Það mátti ekki miklu muna að ég félli á kné og bæði hans á staðnum en ég ákvað að bíða aðeins með það.

-Alveg er þetta merkilegt, sagði ég. Við Spúnkhildur höfum einmitt verið að hugleiða möguleikana á því að nota kjallaraherbergið fyrir fleira en nornafundi og daginn eftir birtist hér nuddari og býður fram þjónustu sína. Svona virkar galdur sjáðu til, þetta getur bara ekki verið tilviljun. Líklega er þetta merki frá Mammóni um að hann ætli okkur að ráða þig til starfa og setja upp nuddstofu í kjallaranum.

Píplaugur varð ofboðlítið skrýtinn á svipinn.
-Ja, ég átti nú kannski ekki alveg við það. Ég er náttúrulega í fullri vinnu, sagði hann og neri hinar góðu hendur sínar.
-Þetta yrði auðvitað aldrei full vinna en það væri frábært að mega hóa í þig ef við fáum kúnna sem óska eftir því, svaraði ég.
-Ég veit það nú ekki, ég er ekki með nein réttindi en ég hef þetta alveg í mér, svona ef þér er illt í bakinu eða eitthvað…
Ég horfði djúpt í augu Píplaugs og sagði:
-Ég held að þú þurfir ekki réttindi til að bjóða upp á slökunarnudd. Ég fæ þig bara til að nudda hana móður mína. Ég fæ aldrei í bakið sjálf en hún er náttúrulega offitusjúklingur og alltaf með einhverja verki. Hún finnur eins og skot hvort þú ert virkilega góður og þá getum við bara ráðið þig.

Í þessu kom Pípmundur hinn góði aðvífandi og þótt undarlegt megi virðast hafa nuddarahæfileikar Píplaugs hins kvenþreifna bara ekkert borist í tal síðan.

Best er að deila með því að afrita slóðina