Um dularfulla rökvísi tegundarinnar

-Ég botna ekki almennilega í tegundinni, sagði hún. Því hefur verið haldið fram að karlar hafi sterkari tilhneigingu til að beita röklegum lausnum en konur treysti meira á tilfinningalegt innsæi en ég sé satt að segja ekki hvernig það kemur heim og saman.

Hann spurði mig t.d. margsinnis hvað ég vildi fá í afmælisgjöf og ég svaraði alltaf því sama; það eina sem mig langaði var að þegar ég kæmi heim ur vinunni yrði hann búinn að taka almennilega til. Bara í eitt skipti að koma heim og geta sest niður með kaffibolla og Moggann án þess að hugsa um þvott eða horfa á kámuga spegla. Ég fékk dýra gjöf og var svosem ósköp ánægð með hana þannig séð, en heimilið leit út eins og venjulega og ég bara skil ekki hvers vegna ég gat ekki fengið þetta eina litla sem ég bað um. Ég meina, á þetta að vera rökrétt? Hvernig hugsa þeir eiginlega? Það er náttúrulega órökrétt að svekkja sig á þessu, því hann var lengur að vinna fyrir gjöfinni en ég að þrífa íbúðina, en ég er bara samt svekkt.

Málið er mín kæra að þetta er ekki eins flókið og þú heldur. Það er hvorki rökfesta né tilfinningalegt innsæi sem stjórnar athöfnum hans í tilviki sem þessu, heldur bara ósköp venjuleg sjálflægni. Þarfir makans skipta hinn dæmigerða karlmann ekki sérlega miklu máli. Hann var ekki að hugsa um hvað myndi gleðja þig, heldur hvað hann þyrfti að gera til að styrkja sjálfsmynd sína. Hann hafði ekki þörf fyrir að gera þér til hæfis heldur langaði hann að líða eins og hann væri rosalega grand. Kannski líka fannst honum auðveldara að vinna nokkra yfirvinnutíma og renna korti í gegnum posann en að brjóta saman þvott til að þóknast þér.

Það sem angrar mig mest er grunurinn um að við séum ekkert skárri. Að kannski komi okkar sjálhverfa bara pínulitið öðruvisi fram og að við fáum aldrei að vita það af því að þegar það er svona fjandi órökrétt að vera svekktur þá gæti þeir þess bara að verða ekki svekktir eða allavega að láta það ekki sjást. Það er skelfileg tilhugsun að kannski hegði maður sér eins og karlmaður og geri sér ekki einu sinni grein fyrir því.

Best er að deila með því að afrita slóðina