Þetta reddast

-Ég er ekki að biðja þig að nefna tölu sem þú heldur að gleðji mig. Ég vil bara fá upplýsingar um hversu mikið er raunhæft að þið greiðið svo ég viti hversu hátt lán ég þarf að taka til að gera þetta upp.

-Láttu ekki svona, þú þarft ekkert að taka neitt lán, þetta reddast. I alvöru þú þarft ekki að borga krónu.
-Það var gott að heyra. Og hvernig reddast þetta ef ekki með peningum?
-Ég var búin að senda pening svo þið getið keypt ykkur undan ábyrgðinni.

-Það er ekkert hægt að kaupa sig undan ábyrgð, það er stundum hægt fá bankann til að hætta að reyna að innheimta en skuldin hverfur ekkert við það heldur bara greiðslukrafan. Það sem þú sendir dekkar ekki nema lítið brot af þessu og ég ætlaði bara að spyrja hvort þú gætir borgað meira eða ekki.
-Sko, ég var búin að semja um að fá hluta af þessu afskrifaðan.
-Já en þú stóðst ekki við þann samning. Þessvegna eru þeir að biðja mig að borga þetta.
-Sko ef við getum samið um það sama aftur þá er þetta ekkert svona mikið.
-Ég veit það en það heitir afskrift og afskrift kemur fram i upplýsingum bankans og merkir ekkert annað en að hér sé á ferð viðskiptavinur sem svíkur loforð sin við fjármálastofnanir. Ef þú getur samið um eina afskriftina enn i eigin nafni þá er það fínt en ég geri það ekki.
-Það er alveg hægt að redda þessu. Ég lenti einu sinni í því að það féll á mig lán manstu, og ég gat borgað bara hluta af því og keypt mig þannig undan ábyrgðinni. Ég hef aldrei lent í neinu veseni út af því síðan.
-Ég veit að þetta er hægt en þetta merkir bara að bankinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að þú sért of mikill rugluhali til að vert sé að eyða tíma og peningum í að reyna að innheimta það sem þú lofaðir að borga og þótt það hafi minni fjárútlát í för með sér er það stimpill sem ég kæri mig bara ekkert um. Þessvegna ætla ég að borga það sem þið getið ekki greitt eða samið um sjálf, eins og ég lofaði.

-En geturðu ekki bara sagt að ég sé algjör aumingi og sé á kafi í dópi og allt? Mér er alveg sama þótt einhverjir bankastarfsmenn haldi það. Það er ekki eins og ég ætli í kaffi til þeirra eða eitthvað.
-Af hverju ætti ég að ljúga upp á þig, finnst þér þú ekki vera í nægum vandræðum fyrir þótt svona bulli sé ekki bætt ofan á?
-Jú en bankinn veit að dópistar eru ólíklegri til að borga heldur en venjulegt fólk sem lendir í fjárhagserfiðleikum og þá gefast þeir frekar upp á að reyna að innheimta þetta.
-Þú virðist bara ekki átta þig a þvi um hvað þetta snýst. Sjáðu til: Ég gekkst í ábyrgð fyrir þig. Það merkir að ég lofaði bankanum að ég sæi til þess að hann fengi peningana sina aftur, jafnvel þótt þú veiktist, lentir í erfiðleikum eða gerðist dópisti. Bankanum er skítsama hvort þú ert dópisti eða bara með allt niður um þig i fjármálum, hann vill bara fá peningana sem hann lánaði þér og það er satt að segja ekkert ósanngjörn krafa.
-Ég vil ekkert að þú þurfir að borga þetta.
-Nei, ég vil það ekki heldur. Þessvegna er ég að spyrja hvort þið getið borgað eitthvað sjálf og þá hversu mikið. Af því að ég lofaði að borga ef þú klikkaðir og ég stend við það sem ég segi þótt mig langi ekki til þess.

-Geturðu ekki beðið aðeins með að borga þetta á meðan við sjáum til hvort er ekki bara hægt að redda þessu?
-Jújú en ef maður bíður með að borga þá hækkar skuldin bara, það heita vanskilavextir og ég hef satt að segja ekki áhuga á þvi að hækka hana mikið meira.
-Ooooooooo af hverju eru fjármálin min alltaf í svona rugli?

Já, hversvegna skyldi það nú vera? Sumar ráðgátur eru flóknari en aðrar.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina