Í fréttum er þetta helst

Í fréttum er þetta helst:

Tölvan mín er veik. Með einhvern ógeðsvírus og þar sem tölvulæknirinn minn hefur, sökum félagslegara aðstæðna, takmarkað leyfi til fjarveru frá heimili sínu hef ég setið uppi með sjúklinginn alls ónothæfan síðan á mánudagskvöld.

Síðustu helgi smíðaði ég 40 vatnsnema og setti í eina þvottavél. Afleiðingarnar eru ástand. Næstu helgi verð ég á Nesjavöllum. Spurning hvort ég eigi ekki bara að panta Heiðar og co strax?

Ég er ekki ennþá búin að festa kaup á fyrirtæki. Ætlaði að bjóða í ákveðið dæmi í dag en gaurinn virðist ekki hafa brennandi áhuga á að selja, allavega virðist útilokað að fá að sjá ársreikning. Held ótrauð áfram að leita að einhverju sem hentar mér.

Móðir mín er í taugadrullukasti yfir því að ég ætli út í meiri rekstur. Spáir mér endalausri eymd og vinnuþrælkun og botnar ekkert í því að ég vilji frekar verja þessum 50-100 tímum á viku í að að vinna fyrir sjálfa mig en aðra. Heldur því fram að það sé einhverskonar lögmál lífsins að þeir sem fæðast með plastskeið í trantinum geti í skársta falli eytt ellinni róandi í velmegunarspiki fyrir framan sjónvarpið og matað barnabörnin með plastskeið. Ég er auðvitað af hjarta þakklát fyrir að geta loksins útvegað henni eitthvað til að dramast yfir.

Hef ekki grænan grun um hvað er að gerast á veiðilendum örvæntingarfullra piparmeyja. Áreiðanlega eitthvað ostkennt þar sem annarsstaðar.

Best er að deila með því að afrita slóðina