Búrið

Elskan mín og Ljúflingur

Allt sem þú vilt geturðu fengið, spurningin er bara þessi eilífa; hvað má það kosta? Líklega verður þetta lögmál rauði þráðurinn í ævisögu minni þegar upp er staðið.

Það er fyrst núna sem hugmyndin um að eitthvað kunni að breytast, (aðstæðurnar eða viðhorf hans eða að ég sjálf sjái skyndilega hlutina í allt öðru ljósi) vekur mér engar væntingar. Ég er komin yfir sorgina og tilbúin til að halda áfram. Kannski veit maður aldrei almennilega hversu háu verði maður er reiðubúinn að greiða hamingju sína en ég veit allavega hvað ég vil ekki.

Ég vil ekki sofa hjá einhverjum sem kemur mér ekkert við að öðru leyti. Það er skárra en ekkert og ég sé ekkert rangt við það en það hentar mér ekki til lengdar. Til að slíkt gangi upp verður maður að finna einhvern sem er ekki minnsta hætta á að maður verði ástfanginn af og það hlýtur þá að vera einhver sem manni finnst ekki sérlega heillandi. Ég er farin að reikna með því fyrirfram að þeir karlmenn sem ég kynnist séu tilfinningalega þroskaheftir og satt að segja líkar mér ekki sérlega vel við sjálfa mig þegar ég stend mig að fordómum. Mannfyrirlitning er fremur ógeðfellt viðhorf og bita munur en ekki fjár hvort það beinist að öðru kyninu, ákveðnum minnihlutahópum eða bara öllu og öllum.

En ég vil heldur ekki elska einhvern sem kemur og fer eftir eigin hentugleikum. Veit allt um hvernig það endar og ef eitthvað er 10 sinnum verra en almenn mannfyrirlitning þá er það sjálfsfyrirlitningin sem sprettur af einstefnusambandi.

Það sem ég hafði hugsað mér var að finna einhvern sem heillar mig hæfilega. Nógu mikið til að ég geti hugsað mér að verða tilfinningalega háð honum. Nógu mikið til að vakna hjá honum af og til en ekki svo mikið að ég geti ekki án hans verið. Því sambúð er ekkert á dagskránni fyrr en drengirnir mínir eru fluttir úr móðurhúsum; menn geta troðið sínum gæludýrum, fjármálaóreiðu og safnhaugum af gömlu drasli upp á einhverja aðra en mig. „Búrið“ er hvort sem er ekki heimilið heldur þetta tilfinningalega svæði sem maður ver með kjaft og klóm ef einhver ætlar inn á það óboðinn.

Þú gætir elskað mig eins og á að elska, svo langt sem það nær. Ég veit það. ‘Eg fann það. Málið er bara að þótt ég ætli ekki í sambúð vil ég heldur ekki lifa í eilífri bið. Mér er sama hvort það er önnur kona, starf sem krefst langra ferðalaga, háskóli í útlöndum, áhugamál sem taka 6 kvöld í viku og alla laugardaga eða hver fjandinn sem er annar; annaðhvort ertu til staðar fyrir mig eða ekki. Það eina í veröldinni sem ég hef minnsta skilning á að geti verið mikilvægara er barnið þitt.

Ef maður segir karlmanni þetta hreint út má reikna með að fuglíbúri-heilkennið geri vart við sig og áður en maður veit af er hann floginn. Þessvegna reyna flestar konur að ginna fuglinn inn í búrið þegar hann er hungraður og það er líklega skynsamlegt. En það á ekki við um mig. Ég tek heiðarleika fram yfir skynsemi.

Elskan. Þú getur haldið áfram áfram þessu stjákli þínu fyrir utan búrið mitt, hallað undir flatt, þanið brjóstið og stigið í vænginn við mig eins og þú vilt. Ég get brosað að tilburðum þínum og fundið dálítið til mín svo framarlega sem þú heldur þig fyrir utan mitt einkabúr. Þú mátt líka koma inn ef þú vilt en gerðu þér grein fyrir að það er kallað skuldbinding og ku víst krefjast óskaplega mikils hugrekkis. Það sem ekki kemur til greina er að þú verðir á stöðugu flögri inn og út. Mér leiðist drasúgur og vil ekki að standa í því að kynda upp alheiminn. Þetta búr á að vera lokað svo ef þú vilt vera inni, komdu þá af sjálfsdáðum.
-Já, og lokaðu á eftir þér, ekki ætla ég að hjálpa þér til þess.

Best er að deila með því að afrita slóðina