Daylight come and we wan’ go home

Úlnliðirnir á mér eru svo aumir að ég get ekki einu sinni pikkað á lyklaborðið án þess að verkja upp í olnboga, auk þess kvefuð og hef gengið á íbúfeni og norskum brjóstdropum síðustu daga. -Þetta var sjálfsvorkunn vikunnar, þá er það afgreitt.

Plastið er rafmagnað. Fyrstu dagana vorum við líkust stjörnuljósum en svo lagðist Sigrún í eðlisfræðirannsóknir og síðan hefur hún vökvað smiðjugólfið reglulega. Neistaflugið er minna, en þegar sjúkraliðinn mætir með slegið hár, rís það líkt og strákústur upp í loftið þegar hún lyftir böggunum.

Herra Níels bröltandi ofan á stæðunum, er að vísu með kíwí klippingu en heldur því fram að með öllu þessu stöðurafmagni rísi eitthvað meira en bara hárin. Horfi á hann stökkvandi milli baggastæðanna, telja, stafla, telja stafla, allir orðnir þreyttari en þeir viðurkenna. Heyrum ekki júróvisjoneymdina í útvarpinu fyrir hávaða enda virðist betur viðeigandi að syngja;

Come, Mister tally man, tally me banana
Daylight come and me wan’ go home

En það kann náttúrulega enginn textann nema ég og takturinn er ekki nógu hraður fyrir vestrænt verksmiðjusamfélag, meira svona frumskógur í dögun;

Work all night on a drink of rum
Daylight come and me wan’ go home
Stack banana till de morning come
Daylight come and me wan’ go home

Kannski bara ágætt að hafa þennan hávaða, efast um að nefmælt og rám söngrödd mín félli í kramið.

Bráðum er þetta verkefni búið og maður segir alltaf að í þetta sinn ætli maður að halda sambandi við fólkið þótt maður viti að það sé ólíklegt. Hef ekkert staðið mig í því að halda sambandi við þau sem ég kynntist á hótelinu og það er svosem hér eins og þar -engu líkara en að púsla hafi lent í röngum kassa. Kannski er maður í réttum lit, gæti verið hluti af himininum eða gróðri en þegar allt kemur til alls falla formin ekki saman. Ég reikna alveg eins með að lenda í verkefnahraki í maí, ekki mikið sem liggur fyrir í smíðavinnu fyrir uppfinningamanninn en ég reikna með að eitthvað mun áhugaverðara en færibandavnna sé á næsta leiti. Bara helst eitthvað sem reynir ekki mikið á úlnliðina. Má líka gjarnan vera ögn meira gefandi og miklu betur borgað. Skilst reyndar að mér standi til boða vinna við berja rör að utan en veit ekki aaaaallllveeg… Sigrún segir að vísu að þá fái ég að sjá stráka en það eru nú takmörk fyrir því hversu mikinn aulagang er hægt að leggja á sig bara til þess að fá tækifæri til að góna á þessar frumstæðu verur sem eru hvort sem er allsstaðar til sýnis.

Best er að deila með því að afrita slóðina