Hvað má það kosta?

Minn kæri

Ég geri mér ekki alveg ljóst hvort þú spyrð í einlægni eða aðeins til að gera lítið úr mér. Það skiptir ekki öllu máli, ég skal svara þér. Ég skal reyna að útskýra hvers vegna ég er „alltaf að púkka upp á einhverja lúsera“.

Sjáðu til. Langflest fólk leitar í stöðnun. Það er eðlilegt, við þörfnumst ákveðins stöðugleika. Spúnkhildur heldur því fram að engin alsæla sé til, að hamingjan sé fólgin í því að vera í fastri vinnu sem maður lifir kannski ekki fyrir en er allavega ekki óbærilega leiðinleg, koma heim og laga kaffi og setja í þvottavél, hjálpa börnunum með heimanámið og horfa á sjónvarpið. Fara í sund með fjölskyldunni á laugardegi, fara út í bakaríi á sunnudagsmorgni. Mæta á þorrablótið, árshátíðina og jólahlaðborðið, halda upp á stórafmæli og eiga kannski nokkur góð djömm, fara í leikhús eða hitta vinkonurnar á kaffihúsi til að brjóta upp grámygluna og upplifa smá bliss. Sápuóperan sem mest í útjaðri tilverunnar; vinnufélagi missir bróður sinn, öldruð frænka deyr úr krabbameini, sonur vinkonu mömmunnar handtekinn fyrir fíkniefnasmygl. Ég er reyndar ekki alveg sammála henni, ég trúi á alsælu, en það er heilmikið til í þessu samt.

Málið er að þegar þessu marki er náð fer flestum að leiðast óskaplega mikið. Hvað varð eiginlega um stóru draumana? Þetta er þægilegt líf en er ekki líka til regnbogaland? Þangað vil ég fljúga. Og fólkið sem þú kallar eðlilegt bregst skynsamlega við þessari ófullnægju. Það veit að stóru draumarnir eru óraunhæfir svo það býr sér til dálítið viðráðanlegri drauma. Draum um jeppa, eða stærri jeppa, ævintýraferð í sumarfríinu, stærri brjóst eða flottari prófgráðu. Það sækir kannski um skemmtilegri vinnu eða kemur sér upp viðhaldi. Stundum fer allt til fjandans. Blessað fólkið hafði í raun ekki efni á jeppanum eða framhjáhaldið kemst upp. Þá verður sápa. En hún verður samt bara lágfreyðandi og á endanum kemst fólk aftur á réttan kjöl og heldur áfram að kaupa jeppa og sækja endurmenntunarnámskeið.

Ekki misskilja mig. Ég er ekki að gera lítið úr þessum viðbrögðum. Ég gæti klínt á þau neikvæðum stimplum, kallað það efnishyggju, lífsgæðakapphlaup eða framapot. Ég gæti kallað þetta ráðagóða fólk neysluþræla og þóst vera eitthvað skárri þegar eini munurinn á mér og þeim er sá að ég á ekki krónu með gati, því síður jeppa og er samt ekki rassgat hamingjusöm. Nei, nei, ég er löngu vaxin upp úr því að líta niður á fólk sem hefur raunhæfa drauma. Mér gengur hinsvegar illa að elska það.

Fólkið mitt, fólkið sem ég elska er ekkert merkilegra eða betra. Það er ekki einu sinni neitt sérlega skrýtið. En það bregst öðruvísi við þessari yfirþyrmandi stöðnunartilfinningu. Það fær skyndilega á tilfinninguna að það hafi lokast inni í búri og gerir eitthvað hvatvíslegt til að reyna að brjótast út. Þetta er fólkið sem framkvæmir fyrstu heimskulegu hugmyndina sem kemur því í koll, jafnvel þótt hún sé algerlega úr karakter.

Þetta er fólk sem sýnir stundum svo hrikalegt ábyrgðarleysi að manni er ekki siðferðilega stætt á öðru en að segja skamm. Fólk eins og konan sem æðir fyrirfaralítið til útlanda til að kaupa bleikan kastala. Ekki loftkastala á bleiku skýi, heldur bleikan kastala í bókstaflegri merkingu. Svo táknrænar eru athafnir mannanna á stundum. Fólk eins og maðurinn sem vildi skilja við konuna sína en fann enga góða ástæðu, sængaði hjá þremur öðrum sömu nóttina, kom heim undir morgun og sagði henni frá því. Maðurinn sem fór á vegum fyrirtækisins tilað sækja skiptimynt og rankaði við sér inni í spilavíti 6 klst. síðar. Pilturinn sem kom lyklinum að handjárnunum sínum fyrir í miðjunni á 10 lítra fötu, frysti vatnið, læsti svo járnunum utan um úlnliðina á sér og vonaði að ísinn bráðnaði áður en móðir hans kæmi heim.

Þótt gáfað fólk geri stundum heimskulega hluti þarf það ekki endilega að vera lúserar. Það hefur vissulega svipuð einkenni og stundum er erfitt að greina hafrana frá sauðunum en munurinn er sá að þótt það eigi sín ábyrgðarlausu augnablik og hegði sér ungæðislega á köflum, lítur það ekki á sig sem fórnarlömb. Það sekkur sér ekki í þunglyndi eða drykkjuskap og það semur um skuldirnar sínar áður en það verður gjaldþrota. Það tekur þrátt fyrir allt ábyrgð á lífi sínu, hamingju sinni, jafnvel þótt það trúi ekki einu sinni á hana.

Málið er, minn kæri, að fólkið sem ég elska gerir sér grein fyrir því að sumarhús, ný hárgreiðsla eða ný vinna gerir mann ekki hamingjusaman. Það hefur kannski ekki neina betri hugmynd. Það hefur ekki endilega skýrari markmið og á sér kannski ekki einu sinni stórkostlega drauma. Munurinn á þeim og þér er ekki annar en sá að það veit allavega hvað virkar EKKI.

Það er rangt hjá þér að ég púkki upp á lúsera. Ég nenni ekki að umgangast aumingja en mér finnst fólk alveg vera þess virði að „púkka upp á það“ þótt það viti ekki alveg hvað það vill. Flestir vita það nefnilega ekki, jafnvel þótt þeir telji sig hafa markmið. Ég er hinsvegar stundum of lengi að átta mig á því hvort þeir sem heilla mig eru bara með þetta ófullnægju syndrom eða hreinræktaðir lúserar.

Ég veit ekki hvort er til lækning við þeim kvilla að vilja eitthvað sem maður getur ekki fengið. Maður getur bankað upp á hjá Birni Hafberg og fengið aðstoð til að gengisfella drauma sína eða finna einhvern farveg fyrir þessa undarlegu ólgu í sálinni en mig rennir samt alltaf í grun að það sé eðilsfræðilega útilokað að nálgast regnbogalandið.

Það hræðilegasta er samt að eiga engan draum. Sætta sig við það að lifa í stöðnun. Þegar ég sé fólk sem ég veit að er eitthvað spunnið í, fara þannig með líf sitt, þora ekki að næra drauma sína af ótta við að þeir verði óraunhæfir þá finn ég mig knúna til að hafa afskipti af því. Kannski er ekkert regnbogaland til en systir mín í meinum er allavega komin þangað sem hún ætlaði sér og ég sé að það er harla gott. Þegar allt kemur til alls hlýtur makmiðið að vera það að finna sjálfan sig og ég þreytist ekki á þessari línu úr Passion Play (Jethro Tull)

I´d give up my halo for the horn
and the horn for the hat I once had

Spurningin er bara hvað má það kosta? Systir mín í meinum greiddi hamingju sína háu verði, held ég. Mig langar að heimsækja hana og spyrja hvað eitt stykki hamingja kostar.

Best er að deila með því að afrita slóðina