Bréf frá systur minni hinni æðrulausu

Halló stóra systir!!

Það er ótrúlegt hvað allir eru önnum kafnir í vinnu þegar ég er í fríi og í stuði til að spjalla. Ég er búin að læra og læra og er að fíla þetta í tætlur. Núna er minn æðsti draumur að verða svo rík að ég geti leyft mér að vera eingöngu í skóla. Það er þvílíkur munur að vera bara í vaktarvinnu á Kumbaravogi. Ég hef tíma til svo margs annars. T.d að þvo þvott … ekki það að ég hafi saknað þess neitt sérstaklega, en það er voða gott þegar taukarfan er tóm. Og svo náði ég að skipta um á öllum rúmum og þvo það OG hengja það upp OG afþýða ísskápinn ásamt þessu venjulega + lærdóm allt fyrir hádegi.

Svo þegar ég settist niður og ætlaði að hringja í eitthvað af mínum vanræktu vinum (sem ég er næstum búin að slíta allt samband við) áttaði ég mig á því að allir eru í 8-5 vinnu. Líka þú og Bogga, svo ég fór bara út með kisurnar mínar og kenndi þeim að leika sér við hænuungana. Það gekk alveg ótrúlega vel og núna eru öll dýrin á heimilinu vinir. :o) Ég vona bara að hann herra Klói hætti að veiða smáfugla svo ég þurfi ekki að eyða öðrum 2 klst í að kenna honum að það sé ljótt að drepa þá.

Jæja ég ætla bara að læra meira. Hringi kannski í kvöld ef ég man.

Þín ástkæra litla systir.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina