Triggeraðar dólgafemmur á Facebook

Síðasta þriðjudagskvöld fékk ég ábendingu um að í lokuðum fb hóp væri gagnrýni mín á feminiskar rannsóknir til umræðu. Ég hafði verið skráð í þennan hóp (ekki að eigin frumkvæði) svo ég fór inn á þennan þráð og auglýsti eftir íslenskri, feminiskri rannsókn, sem sniðgengi ekki vísindalegar aðferðir. Ekki gat neinn bent á slíka rannsókn en mér var hinsvegar sagt að þar sem ég hefði ekki prófgráðu í vísindalegri aðferðafræði, væri ég vanhæf til að meta kynjafræðrannsóknir.

Í framhaldinu var ég svo ásökuð um „þolendaskömm“ þótt ég hefði ekki minnst á ofbeldi eða þolendur, heldur, að gefnu tilefni, bent á að það þarf ekki prófgráðu til að átta sig á því að „rannsókn“ þar sem 6 manna úrtak er valið með það í huga að ná fram fyrirframgefinni niðurstöðu, er ekki til þess fallin að draga víðtækar ályktanir.

Allt að einu var mér sagt að hópurinn ætti að vera „þolendavænn vettvangur“ og þóttu hugmyndir mínar vera svo hræðileg reynsla fyrir þolendur að mér var hent út úr hópnum. Ekki græt ég það, mér finnst yfirdrifið nóg framboð af nauðgunarsögum á netinu. Mér finnst lélegt að gefa fólki sem er til umræðu ekki kost á að svara fyrir sig en það er tilgangslítið að reyna að halda uppi samræðu við þessa nauðgunarmenningarpredikara hvort sem er.

En þessi uppákoma sannfærði mig um að sú hugmynd að fólk sem hefur orðið fyrir kynferðislegum áföllum eigi helst að liggja vafið inn í bómull og sjúga þumalinn það sem eftir er ævinnar, er ekkert bara amerísk klikkun, heldur hafa íslenskir feministar tekið hana upp á arma sína. Ef bara það að vita að einhver sem sér í gegnum ruglið geti fylgst með fb hóp, þykir traumatiserandi upplifun, þá hlýtur næsta skref að vera það að háskólar bjóði upp á „öryggisrými“ með litabókum og slökunartónlist, fyrir þá sem „triggerast“ þegar einhver leyfir sér að benda á falska tölfræði og gallaðar rannsóknir.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook