Silkirein, skvísa og skinka

miss-piggy-wallpaper

Áður fyrr var unga konan blómarós, auðnarhlín, silkirein, yngismær. Nema hún væri gála eða skass auðvitað en prúða stúlkan sem var föður sínum hlýðin og þægilegt kvon’fang’ væntanlegs maka síns, var þó ávörpuð fremur ástúðlega, allavega í skáldskap.

Svo hættu konur að vera svona óskaplega hlýðnar. Þær heimtuðu mannréttindi og tóku upp á þeim óskunda að afla sér þekkingar og mynda sér skoðanir. Ungir menn þráðu ennþá návist ungra kvenna og þeir enskumælandi kalla sínar þráðu og dáðu sugar, honey, babe og pie. Hin íslenska silkirein varð líka að pæju (sætri neysluvöru), en þó oftar að gellu (gella er slímugur fiskvöðvi sem dúar ef ýtt er við honum, athyglisverð líking) eða skvísu (eitthvað til að kreista) og orð sem áður höfðu þótt fremur óvirðuleg, svosem stelpa og drós urðu að hversdagsheitum yfir ósköp prúðar stúlkur.

Orð sem enn í dag eru hlutlæg heiti, notuð um stúlkur og ungar konur í öðrum Norðurlandamálum, svosem pige og tös í dönsku, verða í íslensku heiti á kynfærum kvenna; píka og tussa, og oftar en ekki notuð í fremur niðrandi merkingu. Þau eru svo yfirfærð á stúlkuna sjálfa og þótt píkur séu almennt álitnar nokkuð indæl líffæri, þykir samt ekki par fínt að vera píka eða tussa.

Áfram hélt kvenfrelsisbaráttan. Konur fengu völd og þar með tækifæri til að taka þátt í þeim glæp að viðhalda samfélagi þar sem 2% íbúanna ‘eiga’ 90% allra gæða og vilja meira og unglingar eru heilaþvegnir til þess að drepa meðbræður sína í nafni förðulandsástar. Mikill er hagur Strympu orðinn nú þegar glæpastarfsemi er orðin að kvenréttindum. Frelsið er þó að flestu leyti gott. Á Vesturlöndum megum við jafnvel sofa hjá þeim sem okkur sýnist án þess að það varði refsingu. (Við megum að vísu ekki hagnast á því það er svo dónalegt.)

Um tíma voru yngismeyjarnar íslensku kallaðar ‘guggur’. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki uppruna eða merkingu þess orðs. Mér dettur helst í hug að það sé hreinlega sérnafnið Gugga sem þyki fara ungri, skemmtanaglaðri og kannski lauslátri stúlku vel og hafi verið tekið upp sem samheiti, á svipaðan hátt og ég nota guðjónar yfir meðalmennskudrjóla. Ég veit það þó ekki svo ef einhver getur upplýst mig er það vel þegið. Guggan er þó á undanhaldi eftir upplýsingum frá ungdómnum að dæma og í dag er unga stúlkan ekki lengur pæja eða skvísa, ekki einu sinni gugga heldur skinka. Mér skilst að hugmyndin sé sú að píkur séu svipaðar skinku á litinn. Ung kona er þannig fyrst og fremst píka.

Eftir því sem konur verða sjálfstæðari og fjölhæfari, einkennist orðræðan af stöðugt meiri áherslu á kynfæri þeirra og hugsanlega kynhegðun sem þykir ekki virðuleg. Skvísa er þannig stúlka sem gegnir því hlutverki að vera kreist (og þá væntanlega kjössuð og hugsanlega eitthvað meira í leiðinni) og er nokkuð sátt við það. Einnotastúlkan sem Ólafur Ragnar þráir að draga heim með sér er ein svona gugga úr hjörðinni. Ég sló orðið guggur inn í google leitarvélina og fékk upp ‘sjóðandi heitar guggur’ og ‘útriðnar, grútþunnar guggur’. Skinkan er kannski enn meira niðrandi, svínakjöt þykir svosem ágætt til átu en hefur aldrei talist sérlega virðulegt.

Hvað veldur þessu? Stafar körlum slík ógn af sjálfstæði kvenna að þeir finni sig knúna til að leggja stöðugt meiri áherslu á að þeir geti þó allavega riðið okkur ennþá? Af hverju finnst karlmanni hann bera einhverskonar sigur úr býtum ef kona vill stunda skuldbingarlaust kynlíf með honum og afhverju er það henni til minnkunar en ekki honum?

Og af hverju sætta konur, einkum ungar konur sig við þessa orðræðu? Af hverju sætta þær sig við að kynfrelsi þeirra sé álitið ómerkilegt og þeim sjálfum til vansa og afhverju sætta þær sig við að nánast allt sem þær gera og segja sé skoðað í ljósi þess að þær eru konur, þ.e.a.s. manneskjur með píku?

Það er ekkert erfitt að breyta orðræðunni. Ég hef að vísu aldrei orðið fyrir því að karlmaður kalli mig skinku, allavega ekki svo ég heyri en ef karlmaður ávarpar mig skvísu, dúllu eða eitthvað annað sem fer í taugarnar á mér, þá kalla ég bæði typpið á honum og hann sjálfan dindil, sprella eða kjánaprik. Þeim finnst bara frábært að vera með gaur eða nagla (enda eru þeir notaðir til að reka eitthvað í gegn og festa það) en dindill er ekki sérlega virðulegur. Það er þannig vel hægt að sussa á þá ef þeir eru dónalegir. Það er líka hægt að fara þá leið að gildisfella orðin með því að nota þau á jákvæðan hátt. Þetta hefur svosem gerst smátt og smátt, það er ekki lengur móðgandi að vera skvísa eða gella (nema þú sért að tala við mig, dindillinn þinn!) en þegar þetta gerist hægt og rólega þá virkar það ekki sem andóf, heldur þvert á móti sem samþykki. Þegar ung kona í dag talar um sig og vinkonur sínar sem skvísur er það merkingarlaust. Ef hún hinsvegar segði ‘við skinkurnar’ þá gæti það kannski falið í sér yfirlýsingu; ‘kallaðu mig það sem þér sýnist, þú getur ekki notað orð til að stjórna mér.’

Tungumálið afhjúpar viðhorf samfélagsins. Enn í dag eru konur sem finnst gaman að ríða fyrst og fremst séðar sem konur sem aðrir ríða, þolendur, jafnvel fórnarlömb. Og konur sem tjá sig eru fyrst og fremst konur, mannverur með píku, eitthvað sem karlar neyðast kannski stöku sinnum til að hlusta á en geta þó allavega riðið.

Er ekki að verða tímabært að við losum okkur undan þeirri hugmynd að það sé nánast óeðlilegt ástand að hafa píku, allavega ef maður hefur eitthvað að segja? Yrði það ekki bara ágætur heimur þar sem silkireinin getur talað á safnaðarsamkundum og riðið svo -eins og henni bara sýnist, án þess að sé neitt niðrandi við það?

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Silkirein, skvísa og skinka

  1. —————————————–

    Takk – þetta er eins og talað út úr mínu hjarta … bara betur orðað.

    Ég bendi á að form fiskmetisins gellu vísar mjög greinilega til blessaðrar píkunnar.

    Posted by: Líba | 14.04.2010 | 14:47:39

    —————————————–

    Takk fyrir þetta innlegg Líba. Kunningi minn einn heldur því líka fram að píkur lykti og bragðist eins og ferskur fiskur svo það er margt sem bendir til þess að gelluheitið eigi að vísa beint til píkunnar.

    Annars hef ég verið að hugsa um eitt. Nú er ekki sterk hefð fyrir því að nota sama heiti yfir karlmann og kynfæri hans í niðrandi merkingu en hinsvegar getur sama heiti verið notað á jákvæðan hátt, ýmist orð sem fela í sér töffarahugmynd eða vinsemd. T.d. foli, nagli, félagi. Af hverju eru typpi svona miklu betri en píkur?

    Annað sem mér finnst athyglisvert, það er algengt að karlar tali um kynfæri sín í þriðju persónu eins og þeir séu með sjálfstæðan persónuleika á milli fótanna. Hvernig stendur á því að karlar hugsa á þennan hátt en konur ekki?

    Posted by: Eva | 15.04.2010 | 6:56:16

    —————————————–

    Í mínum vinkonuhópi töluðum við um sæta stráka sem „pulsur“. Við vorum enn hreinar meyjar og afskaplega saklausar, en það er ljóst að við vorum ekki að hugsa um eina með öllu frá Bæjarins bestu. Kannski hefði þetta náð útbreiðslu ef feisbúkk og blogg hefðu verið komin til. Ég hafði ekki hugmynd um hvaðan skinku-hugtakið væri upprunnið, datt ekki í hug píkuliturinn, held ég hafi frekar tengt þetta skinkulærum hangandi í röðum eða eitthvað slíkt og taldi þetta kvenkynið af hnakkanum ógurlega.

    Posted by: Kristín í París | 15.04.2010 | 10:30:30

    —————————————–

    „Nú er ekki sterk hefð fyrir að nota sama heiti yfir karlmann og kynfæri hans í niðrandi merkingu…“

    Tja… „pungur.“

    Posted by: Sigurjón | 16.04.2010 | 14:11:22

    —————————————–

    Jú það er rétt, ég steingleymdi pungnum.

    Posted by: Eva | 16.04.2010 | 22:13:14

    —————————————–
    Pungur er samt enganveginn nógu gott. Pungur tengdist aðallega verðmætum, sem peningapungar, og í dag veita 3G pungar þráðlausa nettengingu hvar sem er. Ekki er hægt að labba inn í vódafón og fá sér 3G tussu.

    Þar að auki er orðið pungur notað í mjög jákvæðri merkingu innan metalsenunnar á Íslandi. Metall sem er pungaður er góður og þéttur, og hressir piltar eru kallaðir pungar. Það er kannski bara afkimaslangur eins og er, en ég er alltaf að heyra þetta meira og meira.

    Allar þessar jákvæðu tengingar við orðið pung gera það að veiklulegu níðyrði um karlmenn. Að kalla karlmann pung eða karlpung kemst ekki í hálfkvisti við að kalla konu píku, tussu eða kuntu.

    Ég held ekki að ‘skinkur’ tengist píkum beint, sérstaklega þar sem orðið er bara notað yfir kvenkynsafbrigðið af (svíns)hnökkum. Held að Kristín sé með þetta á hreinu, þar sem orðið gerir þessar konur fyrst og fremst að kjötstykkjum. Um tíma gegndi ‘gugga’ sama tilgangi, en ég skil ekki alveg pælinguna á bak við það.

    Posted by: Alexander | 16.04.2010 | 22:55:04

    —————————————–

    Ég held að strákar Séu bara miklu uppteknari af kynfærum en við stelpurnar, þeir er með eigin kynfæri og annarra á heilanum.

    Posted by: Dögg Árnadóttir | 16.04.2010 | 23:09:28

    —————————————–
    Einhver sagði mér að skinka væri töku-hljóðbreyting frá enska orðinu skank. Sel það ekki dýrara en …

    Posted by: Einsi | 16.04.2010 | 23:59:27

    —————————————–
    Fyrir minn part tel í þessi nýrði og tengingu kvenna við kynfæri þeirra bara vera leyfar af því misrétti kynjana sem hefur verið ríkjandi í samfélögum manna síðustu hundruð ára.

    Vissulega er margt sem þarf að laga en þó finnst mér eins og ég sem karlmaður sé málaður út í horn í þessari greiningu þinni á orðræðunni. Jafnréttissjónarmið eru ekki kynbundin og að lýta á karlkynið sem óvin og undirokara kvenna er ekki rétta leiðin til að breyta hugarástandi almennings.

    Þetta er nefnilega ennþá allt í undirmeðvitundinni, við erum folar ef við ríðum út um allt og „gellur“ eru „hórur“ og „tussur“ ef þær eru „lausar í brókinni“. Að halda því fram að karlmenn hafi einir haldið þessari örðræðu við er fásinna.

    Ég er feministi og vil taka fullann þátt í því að snúa þessari orðræðu við en þá þurfum við líka öll að sitja undir sama hatti. Þær á móti þeim er leikur sem enginn vinnur.

    Kær kveðja, Gunni sponnalingur og framapotari.

    Posted by: Gunni sponnalingur | 17.04.2010 | 18:04:45

    —————————————–

    Neinei Gunni, það eru auðvitað alls ekkert bara karlar sem eru ábyrgir fyrir þessari orðræðu og nei, það þjónar engum tilgangi að líta á hitt kynið sem óvin. Sagði ég það kannski?

    Ég held að rótin að þeirri tilhneigingu að tala um konur og kynfæri sem eitt og hið sama sé ótti karla um að missa völd. Spurningin er bara hvort við ætlum að sætta okkur við það eða spyrna á móti.

    Posted by: Eva | 17.04.2010 | 20:25:46

    —————————————–
    Sagðir það enganvegin beint en það er svona tilfinningin sem ég fékk þegar ég las yfir póstinn, góður póstur samt.

    En nú er ég ekki viss um að þetta sé beint ótti heldur meira leyfar af misrétti kynjana. Jafnréttisbaráttan er komin á það stig að samfélagið getur ekki lengur staðið á móti henni opinberlega líkt og áður. Það sem situr eftir í undirmeðvitun samfélagsins er þó ekki jafnrétti.

    Jafnrétti hefur verið náð á mörgum stigum samfélagsins, að mínu mati, en við höfum samt ekki náð að henda þessum ranghugmyndum um æðra kyn út í hafsauga.

    Orðræðan sem þú nefnir hérna er hluti af þessum leyfum misréttis, eitt af síðustu vígum þessa kynbundnu fordóma(vona ég).

    Ég ósammála þegar þú segir að það sé auðvelt að breyta þessari orðræðu, það verður ekki hlaupið að því. Þetta er langtíma breyting á hugarfari sem við erum að tala um og það gerist ekki á vikum, mánuðum, frekar árum eða áratugum.

    Verður kynjabylting sem verður til þess að við hreinsum þessa fordóma alveg burt úr okkar samfélagi eða sýjast þessar hugmyndir hægt á brott með aukinni jafnréttisfræðslu og lagabreytingum ef til vill? Ég veit ekki svarið en þetta er vissulega eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við og okkur ber skylda til þess að spyrna á móti.

    Posted by: Gunni sponnalingur | 17.04.2010 | 22:16:59

    —————————————–

    Eftir því sem ég best veit er skinka samlíking við áleggið skinku.

    Íslenska gerðin af skinkuáleggi er nefnilega svo langt frá hinu upprunalega svínakjöti að skömm er að.

    Eins eru stelpur sem kallaðar eru skinkur, ljósabrúnar, sílikonfylltar gervikonur með hárlengingar og plastneglur.

    Ég væri t.d. aldrei kölluð skinka og mynd aldrei leyfa neinum að komast upp með það, ekki einu sinni til að gildisfella orðið!

    Posted by: Andrea | 18.04.2010 | 0:05:29

    —————————————–

    All walking vaginas msg/me

    Tók Röngu Árna í bakaríð í beinni á rás 2 sunnudagsmorgun fyrir viku.

    Afhverju börn íslenskra karla sbr lög nr. 100/1952 fengju aðeins íslenskan ríkisborgararétt ef maðurinn væri kvæntur erlendri móður – en öll börn íslenskra kvenna fengju sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt – sama hverrar þjóðar faðirinn væri og hvort hún væri gift eða ógift.

    Ragna sagði þetta allt í lagi… börn ókvæntra íslenskra feðra og erlendra mæðra gætu sótt um íslenskan ríkisborgararétt.

    Ég vitnaði í 65. gr stjskr um jafnrétti og að hún væri mannréttindaráðherra – hún hélt áfram að tuða – svo ég minnti hana á þegar henni var hent út af Evrópuráðstefnu í Öskju sl haust vegna mannréttindabrota – hún þóttist nú ekkert muna – ég benti henni á að ég hefði verið á staðnum.

    (Þátturinn „Sirrý á sunnudagsmorgun“ frá kl 8 – 12. Ragna var á milli kl 11 – 12 og JG spurði hana ca 8 á lengdar-skalanum 1 – 10 cm)

    „Getnaðarleg“ var smíðað af ísl námsmönnum í München upp úr ’70…sömuleiðis „belgur“ í merkingunni kvenmenn

    „pussified“ = moi

    (Terrified of pussy)

    Posted by: Jóhann Gunnarsson | 18.04.2010 | 23:26:48

    —————————————–

    http://dagskra.ruv.is/ras2/4521048/2010/04/11/

    Sirrý á sunnudagsmorgunn 11. apríl 2010

    Posted by: Jóhann Gunnarsson | 18.04.2010 | 23:30:22

Lokað er á athugasemdir.