Og ef við skoðum önnur netskrif en pólitísk …

Screenshot from 2014-09-02 23:52:24

Þátttaka kvenna í skrifum og umræðum á pólitískum netmiðlum segir líklega eitthvað um áhuga kvenna á pólitík. Þeir gefa hinsvegar ekki góða mynd af skrifum kvenna almennt. Ég velti því fyrir mér hvort skrifandi konur væru kannski þrátt fyrir allt jafn margar körkunum, svona ef maður skoðaði aðra miðla en þá pólitísku. Kannski ættu útgefendur og fjölmiðlar eftir allt saman sök á því að útgefin verk karla eru í meirihluta.

Ég leit á Pressuna. Taldi 66 konur á móti 89 körlum. Sumsé 42% konur. Reyndar hefur meirihluti Pressupenna verið óvirkur eða lítt virkur allt þetta ár og ég fann ekki yfirlit yfir virka penna. Það hefði orðið dagsverk að flokka alla penna eftir virkni og nýjustu bloggin sem vísað er í á forsíðunni segja kannski ekki nógu mikið en þar eru 2 eftir konur, 6 eftir karla.

Eyjan: Arg, það er nú ekki alveg að marka. Það voru svo margar konur sem fóru þaðan við eigendaskiptin. En ef maður skoðar virka penna síðustu 6 mánuði sést að konur hafa verið um 37% virkra penna á þessum tíma.

Blogggáttin: Kannski segir vinsældalistinn ekki mikið um fjölda kvenna svo ef maður skoðar bara birtar færslur, þá lítur dagurinn í dag þannig út (ef ég tek eingöngu þau blogg þar sem nafn höfundar kemur fram á gáttinni) að karlar eru 35 á móti 7 konum. 8 ef við sláum því föstu að konur skrifi fyrir Pjattrófurnar. Þetta er bara einn dagur og gefur ekki góða mynd en þó vísbendingu um að konur séu í greinilegum minnihluta. Ef við skoðum fjölda færslna (sumir birta margar á dag) koma konur enn verr út.

Hlutfall þeirra kvenna sem blogga á miðlum sem ekki kenna sig sérstaklega við pólitík eða grasrótarstarf, virðist því í fljótu bragði vera svipað, ef ekki lægra en hlutfall þeirra kvenna sem gefa út bækur. Ég leyfi mér því að setja fram þá tilgátu að konur annaðhvort skrifi minna en karlar eða séu ólíklegri til að birta skrif sín opinberlega.

Skýringanna á lágu hlutfalli kvenna í samfélagsumræðu er ekki að leita í aðgengi að fjölmiðlum. Skýringanna á lágu hlutfalli útgefinna verka eftir konur er heldur ekki að leita í aðgengi að fjölmiðlum og ólíklega í karlrembu bókaútgefenda. Varla eru konur hæfileikalausari en karlar.

Mín kenning er sú að konur hafi einfaldlega minni áhuga á að birta verk sín, jafnvel minni áhuga á að skrifa en karlar. Ég er ekkert sannfærð um að það sé vandamál en athyglisvert er það og mig langar að vita hversvegna.

Deildu færslunni

Share to Facebook