Leitið og þér munuð finna – allsstaðar

SexWorkerOrganizingIndia

Mér finnst það gott mál og virðingarvert að leita uppi kúgað fólk og hjálpa því. Og já, ég er alveg viss um að þrælahald viðgengst hér á landi sem annarsstaðar. Ég hef m.a.s. séð það sjálf. Að vísu ekki í vændisgeiranum heldur á veitingahúsi. Ég gerði tilraun til að klaga það en var sagt að þrælarnir yrðu að kvarta sjálfir til að hægt væri að gera eitthvað.

Mannréttindabrot viðgangast nú sennilega í öllum geirum atvinnulífsins, og það er frábært að einhver skuli sýna dug til þess að reyna að uppræta óréttlæti og kúgun. Ég kemst þó ekki hjá því að velta fyrir mér hvað kæmi út úr því ef útlendingar sem vinna á veitingahúsum, í byggingarvinnu og við virkjanir og álver, fengju 6 mánaða umþóttunartíma í góðu yfirlæti til að gera upp við sig hvort þeir hafi verið beittir grófum misrétti, hvað þá ef skilgreiningin á mansali er höfð mjög frjálsleg, eins og reyndin virðist vera þarna. Ég velti einnig fyrir mér hvort það hefði áhrif á niðurstöðuna ef þeir tækju afstöðu til þess, með andlegum stuðningi þeirra sem vilja uppræta, ekki bara fyrirtæki vinnuveitenda þeirra, heldur heila atvinnugrein.

—–

Þessa færslu birti ég fyrst þann 10. júní 2008. Í dag er ég ekki jafn viss um að þau samtök sem leita uppi fórnarlömb mansals séu alltaf sérstaklega virðingarverð. Oft hefur konum sem sjálfviljugar ferðast á milli landa í þeim tilgangi að hafa tekjur af kynlífsþjónustu verið „bjargað“ gegn vilja sínum. Þeim er heldur aldrei boðið til umræðunnar um það sem kallast „human trafficking“ á ensku og hefur ranglega verið þýtt sem mansal, bæði á íslensku og öðrum Norðurlandamálum.

Deildu færslunni

Share to Facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *