Hildarleikur

Hildur L

Orðið Hildarleikur á einkar vel við þá umræðu sem fer fram á netinu einmitt núna. Kona sem hefur staðið í langvinnu stríði við hvern þann karl sem kemur illa fram við konur eða tiltekna konu, er komin í sjálfheldu. Kona sem hefur krafist fortakslausrar iðrunar af hálfu þeirra sem hafa brotið eitthvað af sér og dæmt allar sjálfsréttlætingar harkalega, gefur skýringar sem sumir efast um að hún tæki gildar sjálf.  Þetta er áhugavert. Átakanlegt líka.

Húmor og menningarsamhengi

Upp úr 1995 breyttist heimsmynd okkar. Við höfðum vitað af þessu interneti áður en aðeins fáir þekktu það vel. En allt í einu opnaðist veröldin og á næstu árum gerðist eitthvað rosalegt. Allt í einu áttu allir netfang. Við lærðum á Alta Vista og spjallforrit. Við uppgötvuðum irkið og íslenskir samskiptavefir urðu til. Samfélög bloggara spruttu upp eins og fíflar að vori. Allt í einu var hægt að segja öllum heiminum hvað maður var að hugsa og það án þess að gefa upp nafn eða sýna andlit sitt.

Á árunum 1995-2008  einkenndist dægurmenningin jafnframt af ruddalegum húmor. Það kom ekki bara fram í hvatvíslegum kommentum á netinu heldur einnig í tónlist, teiknimyndum og gamanþáttum. Á árunum 1995-2006 var allt leyfilegt, bókstaflega allt. Oft var engan veginn á hreinu hvort verið var að gera grín að þeim veika eða kvalara hans og fram til 2010 voru þolmörkin býsna há. Hér eru nokkur íslensk dæmi um húmorinn sem var í gangi 1995-2008. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir ruddaskap ættu ekki að smella á tenglana.  Ég fann reyndar ekki fóstbræðramyndbandið þar sem áhugamenn um heimilisofbeldi voru að gefa hver öðrum góð ráð en af þessum brotum sést amk að það var EKKERT heilagt og auðvitað hægt að finna helling af klámfengnum og ruddalegum húmor til viðbótar.

Munið þið hvaða teiknimyndir voru vinsælar á þessum tíma? Jú, auðvitað muna allir eftir samfélagsádeilu eins og Simpsons og South Park en ég er ekki viss um að allir sem komnir eru yfir fertugt muni eftir Happy Tree Friends  eða Lenore, the Cute Little Dead Girl.

Subbulegur húmor var gjaldgengur fram til 2010. Húmor sem er ekki umborinn í meinstrím-fjölmiðlum í dag og sætir óvæginni gagnrýni, jafnvel kröfu um ritskoðun. Þetta skýrist ekki af því að manneskjur hafi verið verr innrættar eða verr upplýstar árið 1999 en árið 2014, þetta er eitthvað flóknara en það. Og það vitum við, enda hefur svosem enginn verið fleginn lifandi fyrir þær gömlu syndir. Nema náttúrulega Gillz. Hann réðist á eina vígið sem er alheilagt; skoðanir feminista og talsmenn þeirra.

Internetið og hliðarsjálfin

Á þessum tíma skildum við internetið ekki almennilega. Við gáfum vinum og vandamönnum upp vefslóðina á bloggið okkar og fórum gjörsamlega í hnút þegar við fréttum að Gunna frænka læsi það líka. Eða vissi yfirhöfuð að við hefðum einhverntíma skrifað eitthvað á netið. Við göptum af undrun og hrifningu þegar við sáum skjáskot í fyrsta sinn. Við vissum ekki að það að eyða færslu væri engin trygging fyrir því að hún hyrfi endanlega. Sum okkar þekktu ekki einu sinni hugtakið ip-tala.

Bernskuskeið internetsins var einnig „role-play“ tímabil á netinu. Vinsælir samskiptavefir buðu ekki upp á möguleikann á prófílmynd og það var venja fremur en undantekning, bæði á samskiptavefjum og í bloggheimum að velja notendanöfn sem minntu lítið á þau nöfn sem tengdust kennitölum okkar í þjóðskrá. Um og uppúr 2005 var nánast jafn sjálfsagt að eiga bloggsvæði og stílabók og skipti þá litlu hvort menn voru skrifandi og hvort þeir höfðu eitthvað að segja.

Sóðahúmor, internet og „role-play“. Hvílíkt kombó. Það var ekki bara partý á netinu heldur rallandi fyllerí. Auðvitað fór eitthvað úrskeiðis. Auðvitað varð niðurlægjandi húmor gjaldgengur á netinu eins og annarsstaðar. Bloggarar skrifuðu oft undir dulnefni og „alteregóið“ á netinu var ekki endilega trúverðug persóna heldur oft ýkt útgáfa eða skrumskæling á manneskjunni sem stóð á bak við það. Ruddalegir karakterar með ruddalegan húmor þóttu kúl og urðu smástirni á samskiptavefjum.

Kannski var Meinhornið Mengella vinsælasti karakterinn í hópi netstirna. Hildur Lilliendahl átti einmitt einhvern þátt er sögð hafa átt einhvern þátt í þeim karakter en hefur ekki staðfest það sjálf.

(Uppfært 1. mars:  Í færslunni sem ég tengdi á hér að ofan segist Mengella vera tiltekinn hópur fólks. Síðar sagði hún að það hefði verið hin mesta lygi, sprottin af leik þar sem meint ritstjórn Mengellu var að reyna að stela ímynd Mengellu. Mér skilst að í dag hafi menn það fyrir satt að Ólafur Sindri sé höfundur og ábyrgðarmaður Mengellu. Fyrri færslan stendur þó enn. Ef til vill telur Mengella að fólk lesi blogg á sama hátt og skáldsögur. Mér er reyndar alveg sama hver höfundurinn er enda átti þessi færsla ekki að snúast um Mengellu og höfund hennar heldur um poppkúltúr þessa tímabils en það er út af fyrir sig áhugaverður vinkill á þessa netmenningu að ungir netverjar hafi ýmist stolið hliðarsjálfum annarra eða logið sínum eigin hliðarsjálfum upp á aðra.)

Annar vinsæll karakter úr dægurmenningu áranna 2000-2009 var hinn alræmdi Gillz. Þau tvö áttu ekki margt sameiginlegt. Mengella var samfélagsrýnir, Gillz var líkamsræktar- og partýgaur. Bæði lögðu sig þó fram um að ögra og hneyksla, hvort á sinn hátt.

Ég hef aldrei fylgst með umræðum á Barnalandi en mér skilst á umræðu síðustu daga að þar hafi samskonar húmor verið gjaldgengur og sá sem fram til 2010 tíðkaðist annarsstaðar í samfélaginu. Ég trúi Hildi Lilliendahl þegar hún segir enga alvöru hafa verið á bak við strigakjaftinn Nöttz og að hún hefi bara verið að grínast með því að kalla nafngreinda konu réttdræpa mellu. Rétt eins og ég trúi Agli Einarssyni þegar hann skýrir ósmekklegar bloggfærslur sem þess tíma húmor.  Húmorinn sem var í tísku var steiktur og ruddalegur og hinn margumræddi netdólgur „Nöttz“ verður ekki með neinni sanngirni dæmdur án þess samhengis. Ekki frekar en Gillz. Munurinn á þeim Hildi Lilliendahl og Agli Einassyni er þó sá að Egill hefur aldrei tekið að sér hlutverk siðapostulans. Það hefur Hildur gert og það er þessvegna sem öll spjót beinast að henni nú. Ekki beinlínis vegna ógætilegra orða sem hún hefur látið falla á netinu eða látið hjá líða að fjarlægja þegar einhver annar hefur póstað í hennar nafni, heldur vegna skinhelginnar sem felst í því að dæma annað fólk fyrir kvenhatur, án þess að taka til greina neinar skýringar eða afsakanir á þeim orðum sem það hefur látið falla.

Hættan við að gera fólk að hetjum

Manneskjum verður ýmislegt á í lífinu. Ég sé eftir sumu af því sem ég hef sagt á netinu.  Það er áreiðanlega líka hægt að finna eitthvað sem ég hef sagt á netinu í hálfkæringi sem ég hef gleymt og aldrei áttað mig á að kunni að hafa komið illa við einhvern. Og stundum er mér bara sama. Vanhæft fólk í valdastöðum má til dæmis alveg engjast þar til það segir af sér mín vegna. Ég held að Hildur sé bara ósköp svipuð mér og mörgum öðrum hvað þetta varðar. Hún lítur til baka núna og sér eitthvað sem hefði mátt betur fara, eitthvað sem hún upplifði allt öðruvísi en viðmælendur hennar. Hún er sannarlega ekki ein um það.

Hildur verður kannski ekki sæmd neinum hetjutitli alveg á næstunni. En hún hefur ákveðið mannátsfylgi (þ.e. fólk sem mun ekki einu sinni snúa baki við sínum leiðtogum þótt komist upp að þeir stundi mannátsveislur) og heldur bara sínu striki. Og kannski ættum við sem ekki erum í klappliðinu, í stað þess að ráðast á Hildi sem persónu, að láta hana bara í friði og velta frekar fyrir okkur hvaða ábyrgð við, sem samfélag, berum með því að setja manneskjur á stall.

Samfélag okkar setti Egil Einarsson á stall sem útlits og töffheitafyrirmynd. Annar armur sama samfélags jarðaði Gillz. Samfélag okkar setti Hildi Lilliendahl á stall sem siðferðilegan leiðtoga og nú er annar armur sama samfélags að jarða Nöttzenegger. Kannski ættum við að láta þá einstaklinga sem hafa eitthvað upp á þetta fólk að klaga um að gera upp málin við þau í stað þess að skipa okkur í lið. Og kannski ættum við bara að læra það af þessu öllu saman að hætta að gera fólk að hetjum og leiðtogum þótt það segi eitthvað sem fellur okkur í geð. Hætta að hegða okkur eins og hjörð sem jarmar upp í leiðtoga sinn og gerir orð hans að trúarsetningum.

Það er meiri hætta á meiðslum ef maður hefur af háum stalli að falla. Það er bara þannig. Svo ef okkur þykir vænt um fólk, þá ættum við að hlífa því við þeirri hættu.

Deildu færslunni

Share to Facebook