Fórnarlambsfemínisminn viðheldur ofbeldinu

móðir

 

Og hvenær kemur mamman fyrir dóm vegna vanrækslu og yfirhylmingar? Eða er hún kannski fórnarlamb en ekki samsek? Er hún kannski fórnarlamb af því að hún er ekki með dindil framan á sér?

Man einhver eftir dæmi um að faðir eða stjúpfaðir hafi skýrt frá því hjá lögreglu eða fyrir dómi að hann hafi horft aðgerðalaus upp á einhvern káfa á barninu sínu eða hlustað á kvartanir barna yfir slíku án þess að gera neitt í málinu? Hvað þætti okkur um slíka hegðun ef karlmaður ætti í hlut? Getur verið að ef hann ætti hagsmuna að gæta, t.d. ef sá sem framdi brotið sæi fyrir honum, að einhverjir myndu líta svo á að hann hefði óbeint selt aðgang að barninu sínu?

Ég aðhyllist rétt hverrar manneskju til að fá að lifa því lífi sem henni sýnist (með þeim takmörkunum að ekki sé gengið á rétt annarra að sjálfsögðu.) Að því leyti hefur hallað á konur og gerir enn. Við eigum þeim konum mikið að þakka sem hafa barist fyrir rétti kvenna til menntunar, starfa, jafnra launa, skoðana, tjáningar o.s.frv. Mér býður hinsvegar við þeirri kvenfrelsisbaráttu sem snýst fyrst og fremst um það að koma konum í valdastöður enda skiptir engu andskotans máli hvort sá sem ráðskast með umhverfi manns og samfélag heitir Jóhanna eða Geir. Enn meiri andstyggð hef ég þó á þeirri grein feminismans sem lítur á konur sem ábyrgðarlaus fórnarlömb í öllum málum. Ég held reyndar að þetta tvennt sé til lengri tíma dragbítur á sjálfstæði og frelsi kvenna. Klofhárafeminisminn, þ.e. tilhneigingin til að sjá kvenfyrirlitningu í ómerkilegustu fyrirbærum menningarinnar, er svo bara hlægilegur.

Konur náðu fram kosningarétti með því að brenna kirkjur, ekki með því að væla yfir yfirgangi karlanna. Konur hafa náð fram viðurkenningu á því að launajafnrétti ætti að ríkja (þótt það markmið hafi ekki náðst enn) með því að tileinka sér þekkingu, gera sig ómissandi á vinnumarkaðnum og halda kröfum sínum fram af hörku en ekki með því að sitja og tuða. Kvenfrelsisbaráttan ætti að snúast um rétt kvenna til að stjórna lífi sínu sjálfar, vera ábyrgar, hafa áhrif á umhverfi sitt og samfélag. Það eru auðvitað aðrar aðstæður í löndum þar sem heimilisofbeldi er viðurkennt og konur hafa lítinn lagalegan rétt til að verja sig, en á Íslandi hafa kúgaðar konur ágætan aðgang að aðstoð og ráðgjöf og það er gróf mógðun við þær konur sem lögðu alla sína krafta í kvenfrelsisbaráttuna að láta sem konur sem beita ofbeldi eða láta ofbeldi afskiptalaust, séu fórnarlömb.

Það er alveg hugsanlegt að í þessu einstaka dæmi hafi móðirin einhverja afsökun. Hún kemur frá menningarsamfélagi þar sem allt önnur gildi ríkja gagnvart slíkum málum og ekki talið jafn sjálfsagt og hér að konur rífi kjaft (og ef út í það er farið er svosem líka hugsanlegt að pabbinn sé ´einhverjum skilningi fórnarlamb líka) Það er hinsvegar regla fremur en undantekning að þegar börn verða fyrir ofbeldi eða misnotkun, komi fram í dómnum að móðirin hafi vitað hvað var að ske, stutt gerandann og hylmt yfir með honum. Það er ótrúlegt að allar þessar konur séu hreinræktuð fórnarlömb, svo hverju er afskiptaleysi mæðra talið ásættanlegt?

 

Deildu færslunni

Share to Facebook