Bílar, klám og önnur áhugamál iðnaðarmanna

il_fullxfull.94484761

Hver eru áhugamál kvenna ef ekki karlmenn og naglalakk? Um hvern fjárann ætti kvennaþáttur að fjalla ef ekki þetta tvennt, skreytt með barnauppeldi, blómarækt og innanhússhönnun?Hmmm… hvað með leiklist, sálarfræði, mannsheilann, menningu Grikkja til forna, heilbrigðiskerfið, þverflautur, verðbréfamarkaðinn, tígrisdýr, afríska matargerð og hellaskoðun?

Ja, sko jújú, konur hafa áhuga á þessu öllu saman en málið er að þetta eru allt saman efni sem höfða líka til karla og eiga þ.a.l. ekki heima í þætti sem á að markaðssetja fyrir konur.

Gott og vel konur hafa frekar áhuga á naglalakki en karlar. Þessvegna er ekki hægt að búa til sjónvarpsefni sem höfðar til kvenna nema gera naglalakk að þungamiðju. Á sama hátt einskorðast það sjónvarpsefni sem höfðar til karla við hraðskreiða bíla, vindla, fótbolta og lausgyrtar fegurðardísir.

Eða hvað?

Af einhverjum ástæðum virðist ríkja meiri tilhneiging til að tala um konur sem markhóp en karla. Karlar eru allskonar og hafa allskonar áhugamál. Konur aftur á móti, þær eru konur fremur en persónur. Maður heyrir t.d. sjaldan talað um karlaráðstefnur enda þótt fjöldinn allur sé haldinn af ráðstefnum þar sem stór meirihluti bæði frummælenda og gesta eru karlar og viðfangsefnið sé viðskipti, hátækniiðnaður eða önnur svið þar sem karlar eru í meirihluta. Við notum frekar heiti sem tengjast viðfangsefninu, t.d. iðntæknisýning eða viðskiptaþing þar sem karlar eru ríkjandi.

Ég held að fáir karlar létu það fara í taugarar á sér að heyra talað um fá og þröng svið sem áhugamál karla. Ég er efast að margir myndu kippa sér upp við það þótt auglýstur yrði sjónvarpsþáttur um allt sem karlar hafa áhuga á, svo sem billjard, bíla og skverlegar skvísur. Já reyndar yrði ég ekki hissa þótt meiri viðbrögð kæmu frá konum. Af hverju fer það þá svona fyrir brjóstið á mér að heyra talað um naglalakk sem áhugamál kvenna?

Kannski er það að einhverju leyti vegna þess að við tölum miklu frekar um konur sem einhverskonar heild. Karlar eru skilgreindir eftir störfum sínum. Þeir eru vísindamenn, verkamenn eða tónskáld áður en þeir eru karlar. Konur eru hinsvegar fyrst og fremst konur en svo getur konan kannski líka verið vísindamaður, verkamaður eða tónskáld, svona þegar naglalakkið er þornað.

Karlar eru norm. Að tala um áhugamál karla er nánast eins og tala um áhugamál fólks. En ætli það myndi samt ekki vekja viðbrögð ef kynntur yrði sjónvarpsþáttur sem fjallar um „allt sem iðnaðarmenn hafa áhuga á, svosem fótbolta, bíla og klám“?

Nei, þetta er kannski ekki alveg sambærilegt en kemst samt nálægt því. Kona er ekki norm á sama hátt og karl. Við erum ennþá „the second sex“ og sumar okkar eru að verða dálítið pirraðar á því.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Bílar, klám og önnur áhugamál iðnaðarmanna

  1. ——————————————

    Ég hélt að öll þessi áhersla á kvenna þetta og hitt væri frá konum komin í framhaldi af kvenréttindabaráttunni og væri tilraun til að lýsa yfir ánægju og stolti með eigið kyn, öðrum konum til hvatningar.

    Ég heyri í útvarpinu á morgnanna að það verði konuþáttur seinnipartinn um jazz og síðan viðtal við fjórar konur sem ferðast hafa um Suður-Ameríku. Þá held ég að það séu þættir sem konur eru að gera fyrir konur til að sporna við áhrifum karla á alla hluti.

    Ef þessi kvennaáhersla er verkfæri í kvenréttindabráttunni, eins og ég er að giska á, ertu þá ekki að segja að framfara-verkfærið sé orðið að einkenni vandans, eða sé vandinn?

    Áður var skortur á kvennatengdu efni vandinn, en nú er óþarfa-áhersla á kvennatengninguna vandinn – því það skapar „the second sex“ tilfinninguna?

    Posted by: Kristinn | 18.08.2011 | 17:44:39
    ——————————————

    Já, ég held að það sé rétt hjá þér Kristinn að áherslan á konur sem hóp hafi snúist dálítið í höndunum á okkur. Það er t.d. ein af ástæðunum fyrir því að ég er algerlega á móti kynjakvótum

    Posted by: Eva | 18.08.2011 | 18:05:13

    ——————————————

    Ekki bara sumar okkar, heldur sum okkar, því það er fullt af körlum sem elska og virða konurnar í lífi sínu nógu mikið til að pirra sig á þessari staðalímynd konunnar. Lifi baráttan!

    Posted by: Kristín Jónsdóttir | 18.08.2011 | 19:07:47

    ——————————————
    Og ég er ekki að svara tjásunum sem komnar voru, heldur bein viðbrögð við pistlinum. Varðandi kynjakvótann er ég enn frekar hlynnt honum þó ég geri mér fulla grein fyrir óréttinu sem fylgir honum og allt það og allt það. Bara vegna þess að ég held að með smá ofhleðslu af plúsum (eða mínusum ef það hentar betur) sé hægt að koma þessum heimi í fullkomið ástand:)

    Posted by: Kristín Jónsdóttir | 18.08.2011 | 19:10:29

    ——————————————
    Ég ætti kannski að taka fram að mér finnst ekkert athugavert við að konur hafi áhuga á útliti sínu. Ég bara þekki ENGA konu sem hefur ekki líka áhuga á ýmsu öðru og ég gæti trúað að áhugaleysi kvenna á t.d. efnahagsmálum og utanríkismálum, stafi kannski að einhverju leyti af því hvernig þessir málaflokkar birtast í fjölmiðlum. Ef ég fæ þátt sem kennir mér eitthvað um efnahagsmál án þess að drepa mig úr leiðindum, þá skal ég í staðinn halda út heilan þátt af Ellý og Tobbu og það á háum hælum og í þröngum buxum.

    Posted by: Eva | 18.08.2011 | 20:37:48

    ——————————————
    Í Noregi er kapalsjónvarpsstöð sem heitir FEM og á víst að höfða til kvenna. Þar eru sýndir þættir með þrenns konar efni: yfirnáttúrulegt, innanhúsarkitektúr og Gilmore Girls í ýmsum útgáfum. Konunni minni finnst þetta hálfgerð móðgun og allt vera frat á þessari stöð.

    Konurnar fengu ekki að vera í friði með sinn heiladauða. Opnuð var stöð sem heitir MAX og þú mátt giska einu sinni hver var markhópurinn. Efnið er bílar, ofbeldi og Walker Texas Ranger.

    Ég held þú sért kannski að flækja málin aðeins. Vandamálið er að mjög margir sem vinna við sjónvarp eru þroskaheftir.

    Posted by: Örn | 18.08.2011 | 21:31:47

    ——————————————

    Jahá? Einfaldar kenningar eru að vísu oftast rangar en á hinn bóginn þá eru hlutirnir venjulega nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera. Ég er ekki frá því að megi yfirfæra vangebblingskenninguna yfir á prentmiðla líka. (Með vangebblingi er ekki átt við þroskahömlun í venjulegum skilningi, heldur sjálfvalda forheimskun þeirra sem nenna ekki að hugsa.)

    Posted by: Eva | 18.08.2011 | 22:04:26

    ——————————————

    Áhugaleysi kvenna á efnahags- og utanríkismálum? Hvað hefurðu fyrir þér í því að meðal kvenna ríki almennt áhugaleysi um þessi mál?

    Posted by: Hildur E | 25.08.2011 | 13:28:43

    ——————————————

    Meðan ég sé ekkert sem bendir til almenns áhuga, hvorki skrif kvenna um þessa málaflokka, virka þátttöku í umræðum, tengla á fb eða neitt annað, þá reikna ég með að áhuginn sé mjög lítill og/eða bundinn við fáar konur. Reyndar sýnist mér sem konur hafi alveg jafn mikinn áhuga og karlar á fjármálahneysklum og spillingu en ég verð lítið vör við áhuga kvenna á efnahagsstjórn og eru mínar vinkonur þó ekki fastagestir á bleikt.is

    Ef mér skjátlast þá þætti mér vænt um að fá staðfestingu á því. Mér þætti líka gaman ef konur sem hafa ekki áhuga á þessum málum kæmu með einhverjar hugmyndir um það hvernig væri hægt að höfða meira til kvenna. Sjálf hef ég sorglega lítinn áhuga á efnahagsmálum og ég er ekki frá því að það skýrist að einhverju leyti af hugrenningartenglum við stóra hópa af miðaldra jakkafötum sem ég á fátt sameiginlegt með. Ég held að ég hefði meiri áhuga á efnahagsmálum ef það væru lopapeysuhippar eða friðarömmur sem stjórnuðu þeim og fjölluðu um þau.

    Posted by: Eva | 25.08.2011 | 13:44:55

    ——————————————

    Svona í ljósi þess að efnahagsmál og utanríkismál eru meðal minna helstu hugðarefna þá rekur mig í rogastans þegar þú nefnir þetta sem eitthvað sem konur sýna áhugaleysi. Það er voða erfitt að sýna fram á hreinar og beinar tölur um áhuga kynjanna á þessum efnum og þess vegna er erfitt annað en að benda á eigin reynslu eða annarra. Ég hef í fullri einlægni ekki orðið vör við að konur væru síður áhugasamar um að ræða þessi mál en karlar og ég ætti að vita það enda fljót að spotta þá sem geta og vilja ræða sömu áhugamál og ég.

    Það væri kannski áhugavert að gera könnun á þessu. En á meðan það er ekki gert þá er kannski hægt að velta fyrir sér umræðum í fjölmiðlum og á þingi. Ég veit að karlar eru í meirihluta bæði í fjölmiðlum á þingi, en er hlutfallið eitthvað meira en það þeim í hag þegar verið er að fjalla um málaflokka á borð við Evrópusamvinnu, þróunarsamvinnu, loftslagsmál og ríkisfjármál?

    Posted by: Hildur E | 25.08.2011 | 14:06:48

    ——————————————

    Við það er reyndar að bæta að mig grunar að umræðu um varnarmál sé að mestu stýrt af karlmönnum, en að á móti sé umræðu um td þróunarmál meira stýrt af konum.
    Mig grunar að hér sé á ferðinni ákveðin tilhneiging til að líta á hugðarefni karla sem „meiri“ pólitík heldur en hugðarefni kvenna.

    Posted by: Hildur E | 25.08.2011 | 14:09:48

    ——————————————

    Tek undir með Hildi að mig rak í rogastans varðandi fullyrðingar um áhugaleysi kvenna á efnahagsstjórn, þar sem það er eitt af mínum aðaláhugamálum. Ég verð þó að viðurkenna að ég tjái mig ekki mikið um hagfræði/efnahagsstjórn opinberlega. Né heldur pósta ég tenglum um það. En flest það sem við tökum okkur fyrir hendur hefur eitthvað með efnahag að gera. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er samfélag okkar svo gríðarlega mótað af efnahagskerfinu að það er nánast ekkert sem tengist því ekki. „Efnahagsstjórn“ hljómar hins vegar gríðarlega leiðinlega, en það er bara vegna þess að maður sér það alltaf fyrir sér sem smámunasamt rifrildi milli Steingríms J og Bjarna Ben í kastljósinu. Þegar froðusnakkið og jakkafötin eru fjarlægð snýst „efnahagsstjórn“ um grundvallar hugmyndafræði sem ég reikna með að flestar konur hafi áhuga.

    Hugmynd að því hvernig efnahagsmál geta höfðað til kvenna: Lesið Naomi Klein.

    Posted by: Helga | 25.08.2011 | 23:41:09

    ——————————————

    Segið mér, hvar skrifa allar þessar konur sem hafa áhuga á efnahagsmálum?

    Posted by: Eva | 26.08.2011 | 17:06:51

    ——————————————

    Í fjölmiðla, á blogg, bara almennt þar sem maður má búast við skrifum um efnahagsmál.

    Mig grunar hins vegar að fólk átti sig oft ekki á hvað hugtakið efnahagsmál eru víðtæk. Efnahagsmál eru ekki bara stýrivextir og verg landsframleiðsla heldur líka skattbyrði, útdeiling skattfjár, niðurskurður og svo framvegis. Það getur vel verið að það sé kynjamunur eftir því hvaða fleti efnahagsmála sé skrifað um, en það breytir því ekki að ég get ekki séð að konur hafi minni áhuga á efnahagsmálum.

    Þetta minnir mig reyndar á þegar ég sat í tímum í BA náminu í stjórnmálafræði þegar umræður spruttu um það að konur hefðu miklu minni áhuga á stjórnmálum en karlar. Þeir sem héldu þessu fram fullum fetum bentu á að konur væru lítt áberandi í umræðum um td fiskveiðistjórnunarmál og samgöngumál, þær hefðu miklu meiri áhuga á að tala „bara“ um skólamál og umhverfismál og svona.

    Svona eins og skóla- og umhverfismál væru ekki hápólitísk mál. Þetta er bara þessi tilhneiging, að líta á umræðuefni þar sem karlar eru í meirihluta, sem alvarleg, hápólitíks mál, en umræðuefni þar sem konur eru í meirihluta, sem hálfgert dægurþras eða kjaftaklúbbsumræður.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 12:38:49

    ——————————————

    Ef út í það er farið tengjast allir málaflokkar efnahagsmálum en þegar ég segi að fáar konur hafi áhuga á efnahagsmálum þá á ég náttúrulega ekki við að þær hafi ekki skoðanir á örorkubótum, ESB eða húsnæðismálum heldur er ég að tala um þau mál sem heyra undir fjármálaráðuneytið. Ég kalla það ekki grein um efnahagsmál þótt ég skrifi eitthvað í þá veruna að niðurskurður bitni á sjúklingum eða að þeir sem hafi efni á að mylja undir auðmenn hafi líka efni á að greiða örorkubætur. Ég hef oft skrifað eitthvað slíkt og það útheimtir ekki áhuga á efnahagsstjórn að vilja að öllum líði vel.

    Ég skoðaði til gamans bloggsamfélög nokkurra netmiðla, reyndar bara þær færslur sem eru sýnilegar akkúrat núna. Á eyjubogginu, moggablogginu, pressublogginu, smugublogginu, dv-blogginu og blogggáttinni, fann ég samtals eina grein eftir konu um efnahagsmál.

    Þetta er ekki vísindaleg úttekt en svona er þetta flesta daga og af því dreg ég þá ályktun að fáar konur hafi brennandi áhuga á efnahagsmálum. Ég held að við ættum bara að horfast í augu við það og spyrja hvers vegna efnahagsmál höfði minna til kvenna en t.d. skóla- og umhverfismál, hvort það sé gott eða slæmt og hvort við ættum að reyna að breyta því og þá hvernig.

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 14:45:36

    ——————————————

    Tekurðu það líka með í reikninginn að flest blogg eru yfir höfuð skrifuð af karlmönnum, hvað sem þau annars fjalla um?

    Og ég er ekki að rugla saman óskyldum hugtökum þegar ég tala um útdeilingu skattfjár, en fjárlagafrumvarpið rennur undan rifjum fjármálaráðuneytisins sjáðu til.

    Annars tel ég í fullri einlægni að þínar mælingar gefi litla, ef einhverja, mynd af áhuga kynjanna á efnahagsmálum. Hvernig væri að taka til fræðilegan áhuga kynjanna? Það væri áhugavert að taka hausatalningu á nemendur í hagfræðideildum háskólanna, og reyndar stjórnmálafræðideildum líka. Það eru ýmsir mælikvarðar sem þyrfti að taka inn í reikninginn. Svo ítreka ég að ég hef sjálf brennandi áhuga á efnahagsmálum og kem algerlega af fjöllum þegar þú heldur því fram að fáar konur hafi áhuga á þeim málum. Það að þú hafir ekki áhuga á þeim sjálf veldur því vafalítið að fólk er ekki mikið að tala um þau við þig. Ekki myndi ég nenna að tala um efnahagsmál við einhvern sem hefði ekki áhuga á þeim.

    Allt í allt þá hafna ég því að „horfast í augu við það“ sem ég tel að sé mesti misskilningur í þér. Ég er sjálf á því að sjávarútvegsmál höfði minna til kvenna og karla og það væri áhugavert að fara í pælingar um það. En varðandi efnahagsmálin hefurðu ekki sannfært mig og ég held þú sért líka búin að sjá sjálf að varðandi utanríkismálin varstu að misreikna þig varðandi áhugamál kvenna.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 15:51:58

    ——————————————

    Fræðilegan áhuga já, það væri vissulega fróðlegt.

    62,4% nemenda við HÍ eru konur.
    86% nemenda í kennaranámi og uppeldisfræðum eru konur.
    Í viðskiptafræði er hlutfall kvenna 53-58% og þær eru í minnihluta í hagfræðiskor.

    Ergó: konur hafa miklu minni áhuga á efnahagsmálum en skólamálum. Þær hafa minni áhuga en karlar á að mennta sig á sviði efnahagsmála enda þótt þær séu í góðum meirihluta háskólanema.
    http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=2676

    Og nei, ég sé konur reyndar heldur ekki skrifa mikið um utanríkismál. Það eru helst ESB málin sem ég tek eftir að konur séu að ræða.

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 16:10:39

    ——————————————

    Annað sem ég gleymdi að taka fram;

    Skattamál heyra undir fjármálaráðuneytið. Þú þarft ekki að leita lengi að konu sem hefur skoðanir og áhuga á skattamálum, ekki frekar en þú þurfir að leita lengi að karli sem gerir það.

    Hins vegar er ég með smápælingu fyrir þig;

    Karlmaður talar um að skattar þurfi að lækka til þess að auka á fjárfestingar í atvinnulífinu, en kona bendir á móti á að mikilvægara sé að hækka skatta, eða að minnsta kosti halda þeim óbreyttum, til þess að geta haldið öflugu velferðarkerfi.

    Hvort þeirra er að tala um efnahagsmál? Bara karlinn? Bara konan? Eða bæði?

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 16:12:46

    ——————————————

    Ég held hinsvegar að væri vel hægt að auka áhuga kvenna á þessum sviðum.

    Ég veit ekki nákvæmlega hvernig en ég er allavega nokkuð viss um að áhuginn liggur ekki í hormónastarfseminni heldur félagslegum þáttum sem er hægt að breyta.

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 16:13:59

    ——————————————

    Þau eru bæði að tala um efnahagsmál en aðeins í tengslum við þau svið sem þau hafa mestan áhuga á. Allir sem hafa áhuga á pólitík hafa skoðanir á skattamálum en þeir eru ekkert svo margir sem hafa áhuga á þeim að því leyti að þeim finnist fjármálakerfið sjálft áhugavert og þar eru konur engan veginn áberandi. Fyrir flestum er fjárhagsstjórn aðeins tæki til að þjóna öðrum málaflokkum. Mikill áhugi á hagfræði sem grein og því sem er að gerast á verðbréfamörkuðum er allt annað mál.

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 16:18:40

    ——————————————

    Hvernig er hlutfallið í stjórnmálafræðiskor?

    Og hvernig geturðu engu að síður fengið út að konur almennt séu áhugalausar um efnahags- og utanríkismál? Ég var reyndar aldrei að halda því fram að konur hefðu meiri áhuga á efnahagsmálum en skólamálum, það er þinn samanburður sem kemur til núna.

    Varðandi utanríkismálin þá bið ég þig um að velta fyrir þér öllum þáttum utanríkismála. Til dæmis utanríkisviðskipta (hvað eru margar konur að læra eða lærðar í alþjóðaviðskiptafræði?), þróunarmála (ég get nánast étið hattinn minn upp á að þar hafa konur almennt meiri áhuga en karlar þótt ég skuli svosem ekki fullyrða það að óskoðuðu máli), loftslagsmála, svona má lengi telja. Utanríkismál eru ekki bara varnarmál og ESB á sama hátt og efnahagsmál eru ekki bara útflutningsjöfnuður og stýrivextir.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 16:21:55

    ——————————————

    Og jájá, það hefur ekki farið fram hjá mér að karlar eru afkastameiri bloggarar en konur, allavega eftir persónulegu dagbækurnar fóru yfir á fb. Hef einmitt oft skrifað um það og velt ástæðunum fyrir mér. Því miður sé ég ekki aðrar nærtækari skýringar en þær að færri konur en karlar hafi áhuga á samfélagsmálum. Það er allavega ekki af því að konur hafi minni menntun eða séu síðri pennar, hafi minna aðgengi að netinu eða minni frítíma en karlar.

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 16:24:32

    ——————————————

    Efnahagsmál og þá ekki síst skattamál (sem eru stærstur hluti af þeim) eru ekki málaflokkur sem er öðrum óviðkomandi og hver sá sem hefur áhuga á skattamálum, sama á hvaða forsendum það er, hafa áhuga á efnahagsmálum sem heyra undir fjármálaráðuneytið.

    Skattar eru ekki tilgangur í sjálfum sér, þeim er ætlað að þjóna samfélaginu og hver sá sem talar um breytingar á skattkerfi er að tala um breytingar sem þjóna ákveðnum tilgangi. Hver og einn nálgast skattamál, sem og önnur efnahagsmál, út frá ákveðnum forsendum og markmiðum. Þú hlýtur því að viðurkenna að þetta var ansi frjálslega ályktað hjá þér, að konur almennt væru áhugalausar um efnahagsmál. Ég held þú sért ómeðvitað að flokka efnahagsmál í „alvöru“ og „ekki alvöru“.

    Og nei, áhugi á hagfræði er ekki allt annað mál, heldur gengur hagfræðin ekki bara út á tölur og prósentur heldur miklu frekar út á allt það sem býr að baki þessum tölum og prósentum – það er að segja, áhugasviði karlsins og konunnar í dæminu.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 16:27:40

    ——————————————

    Mér þykir þú svartsýn á konur ef þú telur minni bloggáhuga skýrast af minni áhuga á samfélagsmálum! Reyndar held ég að konur hafi víst minni frítíma en karlar svona í hlutfalli við það hvert hlutfall ólaunaðrar vinnu kvenna er miðað við karla en hvað um það. Maður getur vel haft áhuga á samfélagsmálum án þess að hafa þörf fyrir að blogga um þau, svona fyrir utan að ekki öll blogg fjalla mikið um samfélagsmál. Sjálf hætti ég að blogga á sínum tíma án þess að áhugi á samfélagsmálum minnkaði.

    Ég held þetta hafi bara með mismunandi þörf á að tjá sig opinberlega, og mismikla sjálfsgagnrýni að gera.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 16:34:41

    ——————————————

    Það að ég vilji gjarnan eiga fullt af peningum merkir ekki að ég hafi áhuga á fjármálum.

    Það að ég hafi skoðanir á því í hvað skattarnir eigi að fara, merkir ekki að ég hafi áhuga á efnahagsmálum.

    Þeir sem hafa áhuga á efnahagsmálum sem slíkum, hafa áhuga á því hvernig kerfið er byggt upp en ekki bara því hvort þarf meira eða minni pening til að reka heilbrigðiskerfið. Þetta snýst ekkert um „alvöru“ efnahagsmál, heldur hvort við höfum áhuga á hagkerfinu sem slíku eða bara því hvort það þjónar þörfum okkar.

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 16:40:09

    ——————————————
    Það er ósköp einfaldlega staðreynd að konur eru í minnihluta í hagfræði. Hvort það er vandamál skal ég ekki segja um en mér finnst það forvitnilegt.

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 16:42:34

    ——————————————

    Aftur, þú ert að skilgreina efnahagsmál allt of allt of þröngt, miklu þrengra en hagfræðin gerir sjálf. Hagfræðin snýst um breyturnar sem búa að baki tölunum og það að hagkerfið þjóni þörfum fólks. Ég veit ekki í hvaða fræði þú ert að vísa ef þú vilt skilja þessar breytur algerlega frá, en allavega hefur það ekkert með hagfræði að gera. Og ég veit ekki hvaða hlutverk þú telur fjármálaráðuneytið hafa ef þú vilt meina að stærsti starfsþáttur þess, fjárlögin, séu ekki efnahagsmál. (Ég bara get ekki annað en lesið af orðum þínum).

    Og já, það eru kannski færri konur en karlar í hagfræði. Hvert er hlutfallið? Er hlutfallið svo virkilega skekkt að hægt er að segja að konur almennt séu áhugalausar um efnahagsmál? Rillí?

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 16:47:18

    ——————————————

    Jæja, það er allavega ekki sjálfsgagnrýni sem háir þeim sem skrifa á pjattrófurnar og bleikt.is

    Svo er nú ekki langt síðan ég sá einhverja könnun (þarf endilega að reyna að finna hana) á verkaskiptingu á heimilum og þar kom fram að karlar eyða meiri tíma í heimilisstörf en konur. Gera kannski minna samt, eru hugsanlega lengur með hvert verk en hafa allavegar ekkert meiri frítíma.

    Er annars eitthvað á hreinu að sjálfsgagnrýni hái konum svona mikið? Ég er alltaf að heyra þetta en er það eitthvað á hreinu?

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 16:47:53

    ——————————————

    Endilega finndu þessa könnun um tímann sem fer í heimilisstörf, þetta kemur mér á óvart.

    En já það hafa verið gerðar kannanir á viðhorfi karla og kvenna til sjálfs sín og komið fram að konur krefjast meira af sér og veigra sér oft að tala um hluti nema þær telji sig vita fullkomlega um málið, ólíkt körlum. En ég má ekki vera að því að finna slíka rannsókn núna.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 16:54:28

    ——————————————

    Ég veit ekki nákvæmlega hvert hlutfallið er í hagfræði. Veit bara það sem stendur í greininni að konur eru í minnihluta enda þótt heildarhlutfall kvenna í HÍ sé yfir 60%. Hvernig túlkar þú það ef ekki sem minni áhuga?

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 17:00:18

    ——————————————

    Sko, ég veit að hlutfallið í hagfræði er karlmönnum örlítið í vil en ekki mikið(hef setið tíma í hagfræði sjálf), en svo þegar maður tekur mið af því að yfir 60% háskólanema eru konur þá verður að taka það með inn í reikninginn líka og skekkir hlutföllin meira. Það getur verið að áhuginn sé minni, en ég bara tek ekki undir að konur séu almennt áhugalausar um efnahagsmál, það er aaaaaansi gróft orðalag.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 17:05:24

    ——————————————

    Ég skal líka með ánægju éta það ofan í mig að konur hafi lítinn áhuga á efnahags- og utanríkismálum þegar ég sé eitthvað sem bendir til þess að það sé rangt.

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 17:16:00

    ——————————————

    Ég get grábölvað mér upp á það að það sé ekkert sem bendi til þess að það sé rétt…!!!

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 17:20:52

    ——————————————

    Vil líka bæta því við, með fullri virðingu, að mér sýnist þú ekki tala um efnahagsmál af mikilli þekkingu og þess vegna sé þitt mat hugsanlega rammskekkt.

    Ég meina ekki að það sé skrítið. Sjálf hef ég engan áhuga á golfi og viti menn, ekki minnstu þekkingu á henni heldur. Ég væri því seint dómbær á áhuga annarra á íþróttinni og skilgreiningum þar um.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 17:25:31

    ——————————————

    Nei, ekki nema það nám sem konur eru ólíklegastar kjósa, lesefnið sem þær velja á bókasöfnum, blöðin sem þær kaupa, netsíðurnar sem þær ritstýra, umfjöllunarefnin sem þær skrifa um, störfin sem þær sækjast eftir…

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 17:27:38

    ——————————————

    Þú gætir væntanlega samt giskað á áhuga kynjanna út frá hlutföllunum á golfvellinum.

    Posted by: Eva | 27.08.2011 | 17:30:36

    ——————————————

    Já, ég gæti farið á golfvelli og farið í hausatalningu. Auðvitað myndi ekki duga að gera það í einn dag og draga ályktanir út frá því, ég yrði að gera það alloft til að fá sem raunhæfasta mynd. En þar sem ég hef ekki áhuga á golfi er ég ekki líkleg til að munu nenna því, og mig grunar að það sé svipað með þig og efnahagsmálin. Og það er afskaplega eðlilegt, það er enginn sérstakur tilgangur í því að vera að sækja í eitthvað sem maður hefur ekki áhuga á.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 18:12:11

    ——————————————

    Og í öllu falli þá held ég að mínar ályktanir af golfi yrðu ekkert annað en ónákvæmar ágiskanir, í ljósi þess að ég hef enga innsýn inn í þessa íþrótt.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 18:13:37

    ——————————————

    Og annað (afsakið spammið):
    Ef ég ætti að draga ályktanir út frá netsíðum sem konur ritstýra eða þáttum sem þær stjórna, þá myndi ég sennilega komast að svipaðri niðurstöðu og Ellý Ármanns um ALLT sem konur hafa áhuga á. En ég veit betur, þekkjandi söguna á bakvið rök sjónvarpsstjóra Skjás 1 og svo framvegis.

    Posted by: Hildur E | 27.08.2011 | 18:17:42

    ——————————————

    Ég er gáttuð á fullyrðingum um að konur hafi ekki áhuga á eða láti ekki til sín taka í umræðu um efnahagsmál, ESB, örorkubætur eða álíka efni.

    Á minni Fésbók er allt morandi af konum sem eru stöðugt að tjá sig um þetta efni, setja inn tengla um það og skrifa um þá ummæli. Á hinn bóginn eru bara örfáar sem skrifa nokkuð um snyrtivörur eða útlit og þær vinna flestar við slík skrif.

    Posted by: Svala | 28.08.2011 | 22:47:18

    ——————————————

    Ég sagði ekki að konur hefðu ekki áhuga á örorkubótum eða ESB. Ég sagði að fátt benti til þess að þær hefðu sérstakan áhuga á efnahagsmálum og að það væri ekki áhugi á efnahagsmálum þótt maður vildi meiri pening fyrir sinn málaflokk.

    Hér er færsla sem mótmælir því viðhorfi að konur hafi eingöngu áhuga á yfirborðskenndum hlutum. Ég segi í kommenti að reyndar virðist áhugi kvenna á ákveðnum sviðum vera sorglega lítill og óska eftir umræðu um það hvort megi glæða hann. Í stað þess að legga eitthvað til þeirrar umræðu, kjósa sumar konur að þrátta frekar um það hvort þetta mat sé rétt hjá mér og halda því áfram eftir að ég hef bent á að hlutföll kvenna í deildum H.Í. ásamt skrifum þeirra og umræðum á netinu, bendi til þess að þær skorti áhuga á þessum málum.

    Þessi nálgun á viðfangsefnið heitir á góðri íslensku nöldur.

    Posted by: Eva | 29.08.2011 | 10:04:05

    ——————————————

    Þetta með heimilisstörfin á víst eingöngu við um einhleypa:
    http://www.visir.is/einhleypir-karlmenn-lengur-vid-heimilisstorf-en-konur/article/2011865238912

    Vinnuvika karlar er hinsvegar lengri en vinnuvika kvenna:

    http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=335292

    Það er því eitthvað annað en lítill frítími sem skýrir það hversvegna konur skrifa minna (eða birta allavega minna opinberlega) um samfélagsmál en karlar.

    Posted by: Eva | 29.08.2011 | 10:17:37

    ——————————————

    Ég veit alveg að ég nöldra. Og auðvitað þrátta ég um hvort þetta sé rétt hjá þér því það er augljóst að það er ekki rétt hjá þér.

    En ég laug því nú ekki þegar þegar ég benti þér pent á að þú veist greinilega ekki alveg hvað efnahagsmál eru. Þú hefur nefnt fjármálakerfið sem slíkt (mjög pólitískt álitaefni) og verðbréfamarkað (mjög afmarkað svið efnahagsmála) og virðist hafna öllu öðru í tengslum við efnahagsmál. Það er nánast eins og að segja að maður hafi ekki áhuga á golfi nema maður einblíni á golfbílana. Semsagt rökvilla og stór misskilningur út á hvað þetta hugtak gengur út á.

    Ég efast samt ekkert um að þú hafir engan áhuga á efnahagsmálum. Af einhverjum sökum virðist þú vilja yfirfæra þitt áhugaleysi á efnahagsmálum yfir á allar konur. Sigurbjörn femínisti var með eitthvað gott orð yfir það þegar fólk skrifar greinar á lífsstílssíður um „hvað karlar vilji“ eða „havað konur vilji“ þar sem það lýsir einfaldlega sínum persónulegu skoðunum og yfirfærir þær á allt kynferði sitt. Man bara ekki hvað það orð var.

    Posted by: Hildur E | 29.08.2011 | 21:12:35

    ——————————————

    Ég byggi mína hugmynd um áhuga kvenna á efnahagsmálum reyndar ekki á mínum áhuga, heldur eins og ég hef sagt á kynjahlutföllum í háskóladeildum og framlagi kvenna til pólitískrar umræðu. Og nei, það er ekki hægt að „leiðrétta“ þennan mun á kynjunum með því að tala um að konur hafi áhuga á því hvernig skattfé sé varið, karlar sem annars hafa lítinn áhuga á strúktúr fjármálakerfisins og efnahagssögu, hafa líka áhuga á því hvort þeirra málaflokkur fær nógu stóran bita af kökunni.

    Reyndar er það ekki einu sinni umdeilt meðal fræðimanna að konur sýna að jafnaði minni áhuga á efnahagsmálum en karlar.

    „Previous studies find that, upon entering the college class, women are less likely than men to be interested in economics and more likely to expect it to be difficult, which contributes to their under-representation in the field.“
    http://www.cswep.org/papers/BansakStarr2006.pdf

    „…there is little evidence that the gender-education effect has declined over time. The simplest explanation for these patterns is that men find economics more interesting than women, and therefore learn more economics per year of education.“
    http://econfaculty.gmu.edu/bcaplan/gendereconssq.doc

    En kannski hafa vísindamenn bara ekki vit á því hvað efnahagsmál eru?

    Það er heldur ekki umdeilt að ástæðurnar eru fremur félagslegar en erfðafræðilegar, sem segir okkur aftur að það er vel hægt að breyta þessu. Mér finnst mun áhugaverðara að og spyrja hvað þurfi að gera til að vekja áhuga kvenna en að þrátta um það hvort þessi munur á áhugasviðum kynjanna (sem hvað eftir annað mælist ekki bara marktækur heldur mjög mikill, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu) standi í sambandi við það að áhugasvið kvenna innan hagfræði og viðskiptagreina þyki nógu mikil alvöru pólitík. Munurinn er nefnilega til staðar, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

    Konur leggja minna af mörkum til að móta samfélag sitt en karlar. Þær taka síður þátt í stjórnmálum og leggja almennt minna til bæði pólitískrar umræðu og einnig til upplýsingarsamfélgasins á netinu,http://www.slate.com/id/2284501/pagenum/all/#add-comment svo það er ástæða til þess að skoða þetta í víðara samhengi en í sambandi við efnahagsmál.

    Af hverju hafa fleiri konur áhuga á naglalakki en efnahagsmálum og af hverju í fjandanum er það feimnismál?

    Kannski af því að þetta er óþægileg spurning sem vekur þá tilfinningu að konur séu óvirkari en karlar og líklegri til að láta aðra um ábyrgðina. Ömurleg tilhugsun að margar konur sýni lítinn áhuga og telji sig ekki hafa vit á pólitík og ég fer sjálf í dálitla vörn þegar ég heyri það, en veistu dálítið Hildur, það ER þannig.

    Við getum neitað að horfast í augu við það. Við getum hugsað sem svo sú staðreynd að við erum minna áberandi í umræðunni og líklegri til að deyja úr leiðindum ef við heyrum orðið vísitala, segi ekkert um okkur. Þetta sé allt saman ljóta karlaveldinu að kenna og við getum ekkert í þessu gert nema reyna að breiða yfir það hve margar konur hafa miklu meiri áhuga á naglalakki en pólitík. Mér finnst þó líklegra konur nái meiri áhrifum ef við viðurkennum að kannski þarf nýjar aðferðir til að vekja áhuga kvenna.

    Mér þætti meiri fengur í því að fá þig og aðrar konur sem hafa áhuga á efnahagsmálum til að segja okkur hinum með hvaða augum þið horfið á fjármálakerfið, hvað það er sem heillar ykkur en að heyra ykkur halda því staðfastlega fram að heimurinn sé einhvernveginn allt öðruvísi en hann lítur út fyrir að vera.
    http://ideas.repec.org/p/nbr/nberwo/5299.html
    http://www.princeton.edu/~paw/archive_old/PAW99-00/15-0517/0517notx.html#story9
    http://www.jstor.org/pss/1182881

    Posted by: Eva | 30.08.2011 | 12:56:39

    ——————————————
    Þetta er reyndar alveg rétt sem ég sagði, ummæli þín um efnahagsmál bera þess merki að þú þekkir alveg skilgreininguna. Þú nefnir til dæmis að þú sért bara að tala um málefni sem heyra undir fjármálaráðuneytið, en þar sem skattamál og fjárlög eru tímafrekustu og veigamestu málefni þess ráðuneytis þá skil ég ekki alveg hvernig þú getur skilið þau í burtu. Það að konur hafi minni áhuga en karlar til dæmis á æskilegum skattprósentum er eitthvað sem ég hafna. Þú hefur reynt að malda í móinn með því að benda á undirliggjandi ástæður þess að þær tala um skatta en veistu, það talar enginn um skatta eða hefur áhuga á þeim per se, það eru alltaf einhverjar undirliggjandi breytur að baki – eins og er í efnahagsmálum almennt.

    Kjarni málsins í þessari umræðu er ekki að konur séu almennt áhugalausar um efnahagsmál, hvað þá utanríkismál, heldur miklu frekar að konur almennt eru minna að tjá sig, til dæmis á bloggum og í blaðagreinum. Það væri áhugavert að skoða undirliggjandi rætur þess og ég tel líka að ástæðan sé félagsleg en ekki vegna neinnar eðlishyggju. Það að maður tjái sig ekki mikið um eitthvað opinberlega bendir ekki sjálfkrafa til að maður hafi ekki áhuga á því. Sjálf er ég ekki að blogga eða skrifa blaðagreinar, hef ég þá ekki áhuga á neinu? Þannig að já, konur tjá sig almennt minna en karlar um samfélagsmál, en það er einfeldni að skella því bara á áhugaleysi. Svo einfaldur er heimurinn ekki og hér ert það þú sem ættir að opna augun fyrir því.

    Mér finnst þú svolítið bíta höfuðið af skömminni með því að velta því fyrir þér í fullri alvöru hversu margar konur hafa meiri áhuga á naglalakk en pólitík. Rillí?? Þekkirðu margar konur sem hafa áhuga á naglalakki? Maður getur jú vel notað eitthvað án þess að hafa áhuga á því. Svo bendi ég góðfúslega á að fleiri konur en karlar stunda nám í stjórnmálafræði og ég held alveg örugglega að það sama gildi um alþjóðasamskipti og alþjóðaviðskipti.

    Heimurinn nær út fyrir bloggfærslur. Sem betur fer, kannski.

    Posted by: Hildur E | 30.08.2011 | 15:33:22

    ——————————————

    Ég meinti: „ummæli þín um efnahagsmál bera þess merki að þú þekkir EKKI alveg skilgreininguna“

    Posted by: Hildur E | 30.08.2011 | 15:34:23

    Þegar ég sagðist vera að tala um þau mál sem heyra undir fjármálaráðuneytið, fylgdi sú skýring að ég væri ekki að tala um húsnæðismál, heilbrigðismál eða aðra málaflokka sem vitanlega tengjast efnahagsmálum eins og öll önnur mál þótt þau heyri ekki beint undir fjármálaráðuneytið. Það er ekki mín skilgreining á efnahagsmálum sem er gölluð eða of þröng, allavega ekki þrengri en skilgreining vísindamanna sem komast hvað eftir annað að þeirri niðurstöðu að mun færri konur en karlar séu áhugasamar um efnahagsmál.

    Þú getur alveg barið hausnum við steininn og sagt sem svo að konur hafi bara víst mikinn áhuga á efnahagsmálum þótt þær tali kannski mest um ákveðna fleti þeirra eins og skattamál og niðurskurð. Ekkert sérstakt bendir til þess að konur hafi meiri áhuga en karlar á skattamálum eða niðurskurði, þannig að gapið er samt til staðar. Það að vera umhugað um það hvort manns hjartans mál fái nægileg fjárframlög er ekki áhugi á efnahagspólitík, ekki frekar en það að María Lilja noti varalit og hafi skoðun á því hvaða varalitur hentar henni best, bendir til þess að hún hafi áhuga á snyrtivörum og tísku.

    Ég þekki margar konur sem hafa áhuga á útliti og tísku en hinsvegar enga sem hefur ekki líka áhuga á hundraðþúsund hlutum öðrum. Ég þekki mjög fáar konur sem hafa áhuga á efnahagsmálum. Það skiptir auðvitað ekki nokkru máli því þetta snýst ekkert um það hvort vinkonur mínar séu öðruvísi en vinkonur Hildar, rannsóknum ber saman um að konur hafa almennt minni áhuga á efnahagsmálum en karlar, punktur, ekkert jáen með það og það er ekki einu sinni umdeilt.

    Það er alveg rétt hjá þér að heimurinn nær út fyrir bloggið. Hann nær t.d. til markaðsrannókna sem sýna að konur eru miklu líklegri til að hafa áhuga á tísku og samskiptum kynjanna en efnahagsmálum. Hann nær inn í fjölmiðlana sem taka þessar markaðsrannsóknir alvarlega og gera því litlar tilraunir til að bjóða konum upp á efni sem væri líklegt til að ýta undir pólitískan áhuga hjá þeim. Heimurinn nær líka inn í Wikipedíu þar sem aðeins 13% kvenna leggja eitthvað af mörkum. Hann nær inn í verslun og viðskipti þar sem konur eru mun líklegri til að stofna lítil krúttleg fyrirtæki á borð við glingurbúðir og kaffihús en að bjóða upp þjónustu við fjármálalífið. Heimurinn nær líka til alþjóðastjórnmála þar sem konur sýna mun minni áhuga en karlar, hvort sem við lítum á Evrópu eða Bandaríkin.
    http://www.ucd.ie/dempart/workingpapers/gender.pdf
    http://pewresearch.org/pubs/722/men-women-follow-news

    Ég lagði upp með þá ósk að fjölmiðlar sýndu meira hugrekki og tækju áhættu á að treysta því að konur hafi áhuga á fleiru en naglalakki. Þær hafa það nefnilega alveg. Þær hafa hinsvegar meiri áhuga á naglalakki en vergri landsframleiðslu, -ennþá.

    Kannski væri hægt að breyta því með vönduðu efni sem höfðar sérstaklega til kvenna. Ég trúi því og ég vona að komi að því að einhver reyni það. Það er full þörf á því ef við viljum að konur taki jafnan þátt og karlar í því að móta samfélag sitt. Sannleikurinn er nefnilega sá að eina veröldin þar sem konur hafa meiri áhuga á efnahags- og alþjóðapólitík en varalit og ástarsamböndum er hugarheimur fórnarlambsfeminista; þeirra sem vita vel að konur hafa minni pólitísk áhrif en karlar en vilja ekki fyrir nokkun mun gefa því séns að hluti af ástæðunni fyrir því liggi hjá okkur sjálfum. Það er nefnilega svo miklu auðveldara að tuða um hvað konur séu kúgaðar en að taka ábyrgð á því að breyta áhugasviðum okkar og framgöngu.

    Posted by: Eva | 30.08.2011 | 20:36:43

    ——————————————

    “ Það að maður tjái sig ekki mikið um eitthvað opinberlega bendir ekki sjálfkrafa til að maður hafi ekki áhuga á því. “

    Nei, ekki ef þú ert að tala um einstaklinga. Þegar þú hinsvegar skoðar heildarmyndina þá hlýtur umræðan að gefa einhverja hugmynd. Þegar við bætum við ásókn í nám og stöður, sala lesefnis og áhorfstölur þá er ekkert óvarlegt að segja að konur hafi lítinn áhuga á efnahags- og utanríkismálum.

    Posted by: Eva | 31.08.2011 | 8:51:04

    ——————————————

    Guð minn almáttugur, hlífðu mér við tali um fórnarlambafemínisma. Það sem ég er að tala um varðandi þetta mál hefur í raun ekkert með femínisma að gera yfir höfuð. Ég er bara að hafna fullyrðingum þínum um að konur séu almennt áhugalausar um efnahags- og utanríkismál. Að það sé einhver kynjamismunur? Jú, það má bara alveg vel vera en td í hagfræði -hafandi setið tíma í þeim fræðum sjálf- er munurinn ekki mikill og jafnvel þótt maður leiðrétti hann fyrir þá staðreynd að 60% háskólanema eru konur þá er munurinn samt ekki á þá leið að hægt sé að delera um að konur séu almennt áhugalausar um þessi fræði. Kynjamunur er í mjög mörgum tilfellum einhver án þess að hann sé afgerandi og það er nú bara staðreynd málsins.

    Þetta er eins gáfulegt og að fullyrða að fyrst 60% háskólanema eru konur, séu karlar almennt áhugalausir um akademískt nám.
    Það er bara allt of afgerandi fullyrðing fyrir ekki meiri kynjamun en þetta, nú og svo geta verið ýmsar aðrar undirliggjandi ástæður fyrir því að háskólanám höfðar síður til karla eða eru síður sniðnar að þeim. Ef þú vilt halda áfram ruglinu um fórnalamba- eitthvað þá óska ég eftir því að þú beinir honum í þennan farveg í staðinn, það er meira hressandi.
    Ég get vel skilið að þú sért orðin pirruð á því að ég gleypi ekki fullyrðingar þínar hráar en veistu, kannski hefurðu bara ekkert alltaf rétt fyrir þér. Eg er búin að segja og viðurkenna að konur tjá sig almennt minna opinberlega en karlar, bæði á wikipediu, bloggum og fleira og það væri virkilega áhugavert að skoða undirliggjandi ástæður. Ég er ekki svo einföld að skella þessu öllu á áhugaleysi eitt og sér (ekki frekar en ég myndi geta fullyrt að fyrst engar af mínum vinkonum hafa áhuga á einhverju, séu konur almennt áhugalausar um það) heldur vil ég meina að ýmsar sálfræðilegar og félagsfræðilegar ástæður liggi að baki. Um það snýst málið.

    Posted by: Hildur E | 31.08.2011 | 14:05:54

    ——————————————

    Annar punktur sem ég held reyndar að sé mikilvægur, og það er þessi tendens að stimpla hugðarefni kvenna í pólitík og efnahagsmálum sem „mjúk“ eða minna alvöru heldur en karla.
    Til dæmis þá virðast margir telja að pólitík sjávarútvegsmála sé harðari og meiri alvöru pólitík heldur en pólitík skólamála og dagvistunarmála. Ég hef heyrt bæði konur og karla halda þessu fram og þess vegna stimpla margar konur sjálfar etv sín rammpólitísku áhugasvið sín sem eitthvað annað en pólitík, rétt eins og að þú stimplar áhuga á skattkerfinu og ríkisfjármálum ekki sem efnahagsmál út af því að það eru raunverulegar breytur þar að baki sem skipta máli. Ég er sannfærð um að það skekki niðurstöðuna og ég hef reyndar heyrt töluvert af konum halda því fram í eina röndina að þær hafi ekki áhuga á pólitík, en í hina röndina tala mikið og skarplega um rammpólitísk hugðarefni sín.

    Posted by: Hildur E | 31.08.2011 | 14:11:56

    ——————————————

    Ég satt best að segja skil ekki þetta mikla fjaðrafok í kringum það að fólk hafi ólík áhugamál. Er ekki í lagi að einhverjar konur hafi áhuga á naglalakki? Er það einhver ógn við kvenréttindabaráttuna eða aðrar konur?

    Sumir karlmenn geta ekki talað um neitt annað en bíla, fótboltaleiki, lyftingar, prótein, fótbolta, jeppadekk, skotveiðar, fótbolta, LÍÚ, golf, og meistaradeildina í fótbolta. Var ég búinn að minnast á fótbolta?

    Dagblöðin, netið, sjónvarp og útvarp eru uppfull af þessum áhugamálum. Ég þekki fáa karlmenn (og enn færri konur) sem hafa mikið að segja um mín áhugamál: heimspeki, stjörnufræði, skammteðlisfræði, almenn vísindi, þungarokk, sagnfræði, bókalestur og ljóðlist. Er það ekki allt í lagi?

    Allir gagnkynhneigðir karlmenn eiga það reyndar sameiginlegt að hafa áhuga á „lausgyrtum fegurðardísum“.

    Margir karlmenn hafa áhuga á bílum og fótbolta, aðrir ekki. Ég hugsa ekki með mér: „Pff, það mætti halda að eigendur fjölmiðla héldu að karlmenn hefði ekki áhuga á neinu nema fótbolta. Veit þetta fólk ekki að það eru til karlmenn sem hafa áhuga á vísindum og efnahagsmálum?“

    Er svo eitthvað að því hafa áhuga á naglalakki og lyftingum?

    Posted by: Sigurður Hólm Gunnarsson | 31.08.2011 | 16:16:39

    ——————————————

    Hildur E:
    „Annar punktur sem ég held reyndar að sé mikilvægur, og það er þessi tendens að stimpla hugðarefni kvenna í pólitík og efnahagsmálum sem „mjúk“ eða minna alvöru heldur en karla.“

    Mér finnst reyndar aðallega áhugavert að vita af hverju hugðarefni kvenna eru öðru vísi til að byrja með, óháð því hvort þau séu stimpluð „mjúk“ eða ekki. Hafa konur meiri áhuga á skólamálum en karlmenn meira áhuga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Af hverju?

    ——————————————

    Posted by: Sigurður Hólm Gunnarsson | 31.08.2011 | 16:19:56

    Þær hafa allavega minni áhuga á efnahagsmálum en hvað sem líður bæði hinu augljósa og niðurstöðum rannsókna, má fyrir alla muni ekki viðurkenna það.

    Posted by: Eva | 31.08.2011 | 17:46:03

    ——————————————

    Eva, ég trúi alveg að það geti verið kynjamunur, ég bara hafna fullyrðingunni um að konur almennt séu áhugalausar eða -litlar um efnahagsmál og hvað þá utanríkismál. Mér finnst það eins og að fullyrða að karlmenn almennt séð séu áhugalausir um akademískt nám og barnauppeldi.

    Sigurður, kræst, hver var að tala um að það væri eitthvað að því að hafa áhuga á hinu eða þessu? Ég nenni varla þessari umræðu. Þetta er eins og þegar María Lilja mótmælti því að útlit og kynlíf væri ALLT sem konur hefðu áhuga á, og þá réðust margir á hana fyrir að halda því fram að það væri eitthvað að því að hafa áhuga á þessu. Með öðrum orðum, orðhengisháttur og tímaeyðsla. Ég er bara að hafna því að konur séu almennt áhugalausar um efnahags- og utanríkismál, ekki að setja út á fólk sem hefur áhuga á lyftingum eða naglalakki.

    Og varðandi hugðarefni kvenna vs karla þá er talsverður munur innan pólitíkurinnar og já, það er almennt meira um að konur hafi áhuga á skóla- og dagvistunarmálum og karlar á fiskveiðistjórnunarmálum. Að mínu viti er skýringin augljós og liggur í því að fleiri karlar en konur vinna við fiskveiðar og eru útgerðarmenn, og meginábyrgð á barnauppeldi er, eða hefur allavega í gegnum tíðina verið, á hendi kvenna. En hvort tveggja eru í senn hápólitísk mál, líkt og velferðarmál og samgöngumál, en einhvern veginn virðist tendensinn að líta á að hugðarefni sem konur einbeita sér meira að sé ekki pólitík. Rétt eins og Eva sagði með efnahagsmálin; ef einhver talar um skattkerfið á forsendum velferðarkerfisins er það ekki áhugi á efnahagsmálum heldur áhugi á að fólki líði vel. Það er röng greining.

    Posted by: Hildur E | 31.08.2011 | 22:18:24

Lokað er á athugasemdir.