Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra virðist enn vera til. Það er áhugavert í ljósi þess að lamaðir og fatlaðir eru ekki lengur til. Nú er til fólk með hreyfihömlun og fólk með fötlun. Hugmyndin er sú að mannúðlegt samfélag eigi ekki að skilgreina fólk út frá takmörkunum sínum. Meðbróðir okkar er ekki „þessi fatlaði á þriðju hæð“ heldur Kristján rafvirki, faðir hans Jórunnar, afi hennar Ragnheiðar og eiginmaður háns Garðars, áhugamaður um golf, jarðhræringar og stjórnarfar í Japan – og já – það vill svo til að hann er bundinn hjólastól en það er ekki það eina sem skiptir máli i lífi hans.

Fatlaður snillingur eða snillingur með fötlun?

Ég er alveg sammála þessari hugmynd. Ég er aftur á móti ekki sannfærð um að lýsandi orð sem slík séu uppspretta fordóma fremur en orðasambönd sem lýsa sama ástandi. Ég efast um að það skilgreini Kristján nokkuð síður að tala um að hann sé „með fötlun“. Efasemdir mínar hafa þó litlar undirtektir fengið, það mun vera „mannréttindamál“ að afbaka tungumálið á þennan hátt. Þegar ég spyr hversvegna sé þá í lagi að tala um blinda og heyrnarlausa virðist fólk ýmist ekki skilja spurninguna eða ég fæ það svar að það verði næsta skref í baráttunni að tala um fólk „með blindu“ og „með heyrnarskerðingu“. Mér skilst að sumir tali þegar um fólk með blindu þótt Blindrafélagið hafi enn ekki tekið upp á því. Það hefur hvarflað að mér að það séu ekki meint fórnarlömb sem reka þessa mannréttindabaráttu, heldur kannski fyrst og fremst þeir réttlætisriddarar sem eilíft móðgast fyrir hönd annarra.

Kisi er ekki feitur. Hann er með fitu.

Ég hef ennþá ekki heyrt talað um það á íslensku að fólk sé „með fitu“ en í hinum enskumælandi heimi hefur sumt baráttufólk gegn fitufordómum tekið þetta orðalag upp. „You are not fat, you have fat, just like you have fingernails, you are not fingernails.“ Þetta er viðkvæðið og hugsunin sú sama og gagnvart fötluðum; konan á næsta bás á skrifstofunni er vinkona, meðlimur húsfélags, forritari, ferðalangur og manneskja sem lifir innihaldsríku lífi en ekki „Sigga feita“.

Fleiri stimplar geta verið fólki til ama og tjóns og því hafa komið fram hugmyndir um að uppræta fordóma gagnvart gömlu fólki með því leggja niður orðið aldraðir og tala þess í stað um fólk með öldrun. Unglingar, sem skiljanlega eru þreyttir á því að vera álitnir óalandi, óferjandi og ómarktækir verða þá fólk með æsku. Sömuleiðis verða þunglyndir fólk með þunglyndi og fíklar fólk með fíkn. Fordómar gagnvart því fólki sem í gegnum tíðina hefur verið kallað negrar, svertingjar, blökkumenn, svartir menn, hörundsdökkir og litaðir verða á sama hátt upprættir með því að tala frekar um fólk með húðsvertu. Ég veit ekki hvernig á að tala um homma og lesbíur. Kannski má skilgreina þann hóp út frá kynhneigð sinni fyrst samkynhneigð þykir ekki lengur neikvæð.

Glæpamaður eða maður sem fremur glæpi?

Samfélag okkar er nokkuð meðvitað um fordóma á grundvelli fötlunar, sjúkdóma, útlits, aldurs og kynþáttar. Barátta gegn fordómum í garð glæpamanna hefur þó ekki verið áberandi. Víst er að sá sem brýtur af sér er ekki sú háttsemi. Þeir sem stela, lemja, nauðga og myrða ganga í skóm og eiga fjölskyldur eins og aðrir. Við finnum til með Dexter þótt við samþykkjum ekki hegðun hans. Reyndar er „fólk með fötlun“ í því ástandi alla daga ársins, sá sem er „með offitu“ er með offitu svo lengi sem hann grennist ekki og maður „með öldrun“ mun ekki yngjast. Maður með morð á sakaskránni hefur aftur á móti venjulega aðeins framið eitt morð. Er einhver sanngirni í því að það eina atvik skilgreini hann? Er eðlilegt að hann sé kallaður morðingi þegar hann hefur alla sina daga, að einum undanskildum, fengist við eitthvað allt annað en manndráp?

Ætla má að það að vera stimplaður afbrotamaður skaði möguleika afturbatabófa á því að öðlast á ný félagslega viðurkenningu með öllum þeim gæðum sem þeirri viðurkenningu fylgja og því full ástæða til endurskoða einnig málnotkun okkar gagnvart þeim sem komast í kast við lögin. Möguleikar manna (af öllum kynjum) á endurreisn yrðu vafalaust mun betri ef við færum að tala um „mann með glæpaferil“ fremur en glæpamann. Einkum og sér í lagi er þörf á að endurskoða málnotkun opinberra stofnana í þessum efnum, þ.m.t. Alþingis, ákæruvaldsins, dómstóla og Fangelsismálastofnunar. Því legg ég til eftirfarandi umbætur:

  • Í stað þess að tala um „ákærða“ verði notað orðalagið „sá er ákæru sætir“.
  • „Sakborningur“ verði „sá sem borinn er sökum“.
  • „Sakfelldi“ verði „sá sem sakfelldur hefur verið“ eða „sá sem sektardóm hefur hlotið“.
  • „Refsifangi“ verði „sá sem fangavist sætir“.

Vafalaust munu þvílíkar málfarsumbætur stórbæta sjálfsmynd þessa umkomulitla jaðarhóps og milda afstöðu almennings og hins opinbera í garð þeirra sem villast á glapstigu. Ég er reyndar ekki viss um hvort það telst lengur viðeigandi að nota orð eins og glapstígur en móðgist þá þeir sem móðgast vilja. Já og líka þeir sem réttlæta uppgerðarviðkvæmni sína með þeim útúrsnúningi að ég sé að líkja fötluðum við glæpamenn.