Eftir allan þann hroða af snyrtivörubæklingum sem ég hef prófarkarlesið undanfarið, á ég erfitt með að bera á mig krem án þess að efast um gáfur mínar. Ég hef alltaf haldið að tilgangurinn með kremi væri sá að mýkja húðina og styrkja. Nú veit ég að tilgangur krema er raunverulega sá að „veita aðstoð fyrir þreytta húð“ og koma á jafnvægi milli sálar og líkama.

Mér skilst að ýmsir orkusteinar  jafni orkuna sem er líklega eitthvað svipað. Ég hef líka öðlast nýjan skilning á notagildi upphrópunarmerkja. Hef alls ekki verið meðvituð um það fyrr hvað er í raun hægt að koma mörgum upphrópunarmerkjum fyrir í stuttum texta, hve skemmtileg áhrif það skapar að setja þau niður tilviljanakennt þannig að lesandinn nánast hnjóti um þau og hversu mikinn áhersluauka það gefur að hafa þau þrjú saman. Ég þarf endilega að gera eitthvað í því að nota þetta skemmtilega merki meira.

Ég er að reyna að rifja upp hvernig mér hefur liðið þegar ég hef hvorki notað krem né haft steina í kringum mig í dálítinn tíma! Ég á nefnilega svo erfitt með að átta mig á þessu með jöfnu orkuna og jafnvægið milli sálar og líkama!!! Dettur helst í hug að sé átt við að ef manni líði vel líkamlega! hjálpi það manni að líða vel andlega! Það er allavega röklega nálgunin. Sennilega koma kremin þannig jafnvægi á líkamann ef maður hefur raskað einhverju með því að borða óhollan mat eða drekka áfengi! Eða ef maður hefur lent í slysi. Og þar sem þau koma á jafnvægi hlýtur það sama að gilda ef maður verður fyrir andlegu áfalli! Ef maður verður lystarlaus! eða á erfitt með svefn í kjölfar áfalls, koma krem þannig að góðum notum! Hlýtur að vera!!! Samkvæmt orkusteinaspekinni er mjög jöfn orka í kringum mig, því ég á marga steina en undarlegt nokk kemst ég samt stundum í uppnám þótt ekkert sé að mér líkamlega. Það er líklega af því að ég nota ekki nógu mikið krem!!!

Ég hef aldrei verið dugleg við að lesa snyrtivörubæklinga! en nú er ég svo heppin að neyðast til þess ef ég ætla að fá greiðsluna fyrir það. Það er nú aldeilis gott því annars hefði ég líklega aldrei komist að því hvað er auðvelt að koma á jafnvægi milli líkama og sálar. Hingað til hef ég glímt við geðshræringu með því að rökræða við sjálfa mig, sýna sjálfri mér fram á að það sé ekkert á því að græða að láta hluti sem maður ræður ekki við eyðileggja fyrir sér daginn! Nú get ég sleppt því hundleiðinlega ferli og komið á instant jafnvægi milli sálar og líkama!!! Ég á nefnilega nóg krem!!!

Þessu tengt: