Móðirin var í öngum sínum. Stöðug valdabarátta við fimm ára dóttur hennar var gjörsamlega að fara með geðheilsu hennar og félagslíf til fjandans, að maður tali nú ekki um sjálfsmynd þess sem býr við ógnarstjórn smábarns.
– Þú verður náttúrulega að aga barnið ef vilt ekki vera örugg um að koma þér upp unglingavandamáli, sagði ég og hún kipraðist saman af kvíða, rétt eins og ég hefði stungið upp á stofufangelsi og barsmíðum.
Agi er eitthvað svo hræðilegt orð. Hræðilegt og agalegt merkir m.a.s. nokkurnveginn það sama. Hjá mörgum vekur orðið sjálft hugrenningartengsl við verulega ógeðfellda hluti eins og refsingar, meinlætalifnað og herþjónustu. Stundum er engu líkara en að við álítum að agi útheimti mannvonsku og sjálfsagi feli í sér nánast ofumannlegan vilja. Ég heyri fólk reglulega nota afsökunina, ég hef bara svo lílinn sjálfsaga, rétt eins og sjálfsagi sé náðargáfa sem aðeins fáum er gefin.
Það er mjög skiljanlegt að maður verði neikvæður gagnvart aga ef hann er neyddur til að taka 200 armbeygjur með snarvitlausan mann yfir sér gargandi ókvæðisorð en fæst okkar lenda nokkurntíma í þeirri aðstöðu. Orðið agi merkir ekki skelfileg kúgun sem brýtur niður allt sjálfstæði og lífsgleði, heldur einfaldlega það að framfylgja reglum. Sjálfsagi er ekkert annað en að framfylgja því sem maður sjálfur hefur ákveðið; t.d. að gera eitthvað sem mann langar ekki sérstaklega eða sleppa einhverju sem mann langar (oftast ekki einu sinni að sleppa því heldur frekar að fresta því aðeins eða njóta þess í dálítið minna magni) í þeim tilgangi að fá eitthvað annað og eftirsóknarverðara. Agi hljómar ekkert svo voðalega ef maður sleppir tökum á undirokaða hermanninum og hugsar frekar um dæmi eins og að ganga stigann í stað þess að taka lyftuna, ganga frá ostinum strax eftir notkun eða borða bara eina köku en ekki þrjár.
Að hafa aga á barninu sínu þýðir heldur ekki að maður setji fram stranga reglugerð sem fylgt er eftir með hörðum refsingum, heldur kannski frekar það að nenna að standa upp frá sjónvarpinu til að taka kexið af barni sem tók ekki mark á nei-inu og láta barnið ekki komast upp með að misbjóða öðrum.
Viljastyrkur er ekki dularfullur hæfileiki sem aðeins fáum er gefinn, heldur eiginleiki sem eflist í hvert sinn sem maður notar hann. Þú getur víst sleppt því að kaupa þér drasl sem þú hefur ekki efni á og þú getur víst tekið til heima hjá þér, skilað skattaskýrslunni og borðað soðin hrísgrjón í staðinn fyrir franskar kartöflur. Þú kýst kannski lifnaðarhætti sem gera þér lífið erfiðara til lengdar en það er ekki af því að náttúran hafi svikist um að úhluta þér eðlilegum skammti af viljastyrk. Þú getur líka hætt að reykja, lokið háskólanámi og gert nánast hvað sem er. Ekkert af þessu er nokkuð skylt því að leggja á sig 40 daga föstu í eyðimörkinni eða gangast undir hýðingu með þrælasvipu.
Þú getur líka sagt nei við barnið þitt og það skaðar þig ekki neitt að missa af einum sex and the city þætti til að taka kexpakkann af króganum og standa af þér frekjukastið í kjölfarið. Barnið mun ekki bíða tjón á sálu sinni þótt það fái ekki að stjórna heimilinu. Þú gætir hinsvegar staðið frammi fyrir því að hafa að vísu aldrei misst af sex and the city en ráða hinsvegar ekki við að taka vodkaflöskuna af sama barni þegar það er orðið 14 ára. Hversu agalegt yrði það?