Á sunnudag svaraði ég athugasemdum ritstjóra Stundarinnar vegna birtinga Kvennablaðsins á skrifum Dofra Hermannssonar. Stundin hefur ekki hikað við að birta einhliða frásagnir af viðkvæmum málum og ánægja Jóns Trausta með rannsóknarblaðamennsku Stundarinnar vakti hjá mér áhuga á að skoða hvernig staðið var að umfjöllun um forsjármál Maariu Päi­vin­en og Hugins Þórs Grétarssonar. Rétt er að fram komi að ég tek enga afstöðu í því máli um það hvar barninu sé best komið eða til ósannaðra fullyrðinga hvors um sig um það hvað hitt hafi sagt eða gert. Ætlun mín er eingöngu að skoða rannsóknarblaðamennsku Stundarinnar.

Forsagan

Þann 23. desember 2017 birti Stundin einhliða frásögn Maariu Päi­vin­en af stormasömu sambandi hennar við barnsföður sinn, Hugin Þór Grétarsson.

Forsaga málsins er sú að Huginn og Ma­aria deildu um forsjá sonar síns. Maaria fór með barnið til Finnlands í óþökk föðurins og tilkynnti honum skriflega að hún hefði ekki í hyggju að koma með barnið til Íslands aftur. Í ágúst 2017 fékk Huginn viðurkennt með dómi að brottnám barnsins hefði verið ólögmætt. Barnið var í framhaldinu sent til Íslands á grundvelli samkomulags milli ríkja um afhendingu brottnuminna barna.

Viðtal Stundarinnar við Maariu vakti mikið umtal og þá ekki síst um innræti Hugins Þór, en í því er dregin upp mynd af örvæntingarfullri konu á flótta undan illmenni sem fæst ekki til samstarfs, beitir andlegu ofbeldi og hrellir sáttamiðlara með hótunum um lögsókn.

Hugin boðið að tjá sig

Áður en viðtalið var birt hafði blaðamaður Stundarinnar samband við Hugin og bauð honum að koma sjónarmiðum sínum að. Kvennablaðið hefur undir höndum ýmis gögn sem Huginn sendi Stundinni og bað um að yrði tekið mið af við umfjöllun um málið. Þau gögn voru einfaldlega hunsuð.

Rannsóknarblaðamennska Stundarinnar í þessu tilviki felst þannig í því að hafa eftir, sem staðreyndir, einhliða frásögn konu sem nam barn sitt ólöglega á brott, bjóða manninum sem til stendur að svipta ærunni að tjá sig, en gera svo ekkert með það sem hann leggur fram sjálfum sér til varnar.

Við höfum einnig undir höndum mikinn fjölda gagna sem Huginn sendi blaðamanni Stundarinnar og ritstjóranum Jóni Trausta eftir að viðtalið við Maariu var birt, ásamt tölupóstum þar sem sjá má ítrekaðar óskir hans og áskoranir um leiðréttingar rangfærslna. Engar leiðréttingar hafa enn verið birtar og ekki hefur verið óskað eftir að hann útvegi frekari gögn máli sínu til stuðnings.

Einnig bað Huginn um að fá birtan pistil þar sem hann rekur sína hlið á málinu eftir að Stundin birti pistil eftir Maariu Päi­vin­en þar sem hún sakar Hugin og lögmann hans um að tefja fyrir úrlausn forræðismálsins. Pistill Hugins, sendur Jóni Trausta 14. september 2018 hefur enn ekki birst þrátt fyrir ítrekanir.

Af skriflegum gögnum má ráða að rangfærslur Stundarinnar um málið eru bæði stórar og margar. Að þessu sinni ætla ég aðeins að taka eitt dæmi um tilraunir Hugins til að fá ranga og ærumeiðandi frásögn leiðrétta.

Dæmi um vinnubrögð Stundarinnar í málinu

Í umfjöllun Stundarinnar er frá því sagt að sonur þeirra Hugins og Maariu hafi verið fluttur í barnaathvarf þar sem hann var vistaður í fimm daga áður en honum var komið til Íslands. Maaria fékk að dvelja þar með barninu. Síðan segir Stundin:

Barnsfaðir Maariu var þá sjálfur kominn til Finnlands og ætlaði að taka barnið úr athvarfinu og fara með það til Íslands, en ráða þurfti vörð við athvarfið svo honum tækist ekki ætlunarverk sitt.

Þetta er ekki haft eftir Maariu heldur fyrirvaralaus fullyrðing sem ætla mætti að byggi á gögnum frá athvarfinu eða framburði trúverðugra vitna.

Maðurinn fær semsagt staðfest með dómi að barnið skuli flutt til Íslands. Finnsk yfirvöld hafa þegar hafist handa við að framfylgja dómnum með því að flytja barnið í athvarfið. Faðirinn, sem á von á því að fá barnið löglega sent til Íslands eftir örfáa daga ákveður þá að nema það á brott ólöglega. – Þetta er sú saga sem Stundin segir okkur. – „Þetta er eiginlega of ótrúlegt til að vera satt“ var það sem ég hugsaði þegar ég las viðtalið. Enda er þetta ekki satt.

Sara Pálsdóttir, lögmaður Hugins, segir alrangt að ráðinn hafi verið vörður til að koma í veg fyrir að Huginn næmi barnið á brott. Hið rétta sé að vörður sé starfandi við athvarfið, m.a. til þess að hindra að foreldrar sem dvelja þar með börnum sínum, eins og Maaria í þessu tilviki, fari með þau burt. Ekkert bendi til þess að finnsk yfirvöld hafi óttast að Huginn myndi nema barnið á brott enda hafi hann fengið upplýsingar um staðsetningu athvarfsins frá yfirvöldum úti til að geta farið og hitt son sinn þar.

Nú veit ég ekki hvaða gögn Stundin hefur um málið umfram þau sem Huginn sendi blaðamanninum og síðar ritstjóra en séu til einhver gögn sem gefa færi á þessari túlkun þá hefur lögmaður Hugins ekki séð þau. Á hinn bóginn eru til gögn sem benda til þess að þetta sé helber þvæla og þau gögn hefur Jón Trausti ritstjóri Stundarinnar séð.

Í tölvupósti til Jóns Trausta Reynissonar dags. 18. mars 2018 bendir Huginn á ýmsar rangfærslur í umfjöllun Stundarinnar og krefst viðbragða. Meðal þess sem hann gerir athugasemd við er þessi saga um að vörður hafi verið ráðinn vegna hættu á að hann næmi barnið á brott. Póstinum fylgja eftirfarandi viðhengi:

  • Skjáskot af textaboðum frá Maariu þann 4. ágúst 2017 þar sem hún talar um að barnaathvarfið sé eins og fangelsi og að hún megi ekki fara þaðan með barnið.
  • Skjáskot af textaboðum til Hugins frá símanúmeri á vegum finnskra félagsmálayfirvalda þann 5. ágúst 2017, þar sem heimilisfang athvarfsins er gefið upp.
  • Skjáskot af tölvupósti frá barnaathvarfinu þar sem staðfest er að þegar foreldrar sem eru ókunnugir starfsfólkinu komi í athvarfið og ágreiningur sé á milli þeirra sé venja að hafa vörð viðstaddan.

Að sögn Hugins hefur Jón Trausti ekki svarað þessum pósti enn.

Málaferli í bígerð

Þann 12. maí sl. vann Huginn meiðyrðamál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur vegna ummæla sem mörg féllu í beinum tengslum við umræður um viðtal Stundarinnar. Tuttugu og sjö ummæli voru dæmd dauð og ómerk og gerandinn dæmdur til greiðslu miskabóta upp á 250 þúsund kr. Aðspurður hvort hann hyggist gera eitthvað meira til þess að hreinsa mannorð sitt segir Huginn að hann sé bara rétt að byrja:

Þessar miskabætur eru fáránlega lágar en ég ætla ekkert að sitja undir því þegjandi að vera kallaður ofbeldismaður og sakaður um allskonar lögbrot.

Það var ráðist á mig út um allt eftir umfjöllun Stundarinnar og ég er með stefnu [á hendur Stundinni] í undirbúningi. Ekki bara vegna meiðyrða heldur líka vegna brota á fjölmiðlalögum. Þeim er samkvæmt lögunum skylt að leyfa mér að svara. Ég sendi Stundinni pistil. Jón Trausti bað um höfundarmynd svo mér datt ekki annað í hug en að hann yrði birtur og sendi mynd strax en hann hefur enn ekki verið birtur og engar rangfærslur leiðréttar.

Með tölvupósti dagsettum 2. október 2018 svarar Jón Trausti ítrekun á ósk Hugins um að pistillinn verði birtur:

Sæll Huginn,

ég er í fríi núna, en við förum betur yfir málið í kjölfarið.

Er eitthvað nýtt í málinu í millitíðinni?

Við myndum taka sjálfstæða ákvörðun um hvernig og hvort vísað er til efnisins á forsíðu og þess háttar.

Bestu kveðjur,
Jón Trausti

Pistill Hugins Þórs hefur enn ekki verið birtur.