Fórum á safn í dag og sáum urmul af hrikalega ófríðum englum, heilögum meyjum og öðru fólki sem hefði þurft á fótósjoppu að halda. Það eftirminnilegasta er þessi mynd. Ég minnist þess ekki að hafa áður séð mynd af Jésúbarninu toga í tillann á sér. Þótt hann hljóti að hafa gert það eins og önnur sveinbörn.
Sá sköllótti sem gónir upp í klofið á barninu er Jósep, strákurinn sem er að þefa af tánum á Jésússi litla er Jóhannes skírari (væntanlega 6 mánaða) ljóshærða konan er heilög Barbara (sem fæddist 300 árum síðar) og dökkhærða stelpan er jómfrú María.
Ég er að fatta það fyrst núna að María er eitthvað að eiga við brjóstið á sér. Þetta er sennilega klámvæðing en ekki helgimynd.
Uppfært: Þessi mynd var fjarlægð af FB þar sem hún þótti of klámfengin. Þegar ég benti á að þetta væri klassískt listaverk var færslan birt aftur. Mig langar rosalega að vita hver klagaði þetta. Þetta er ekkert í fyrsta eða annað sinn sem álíka efni sem ég birti hefur verið tilkynnt.
Höfuðmynd: Fjölskyldan helga, eftir Paolo Veronese (1528–1588)