Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun til að svara spurningum nefndarinnar um afskipti fjármálaráðuneytisins af máli Þorvaldar Gylfasonar.
Sem kunnugt er bauð Norræna ráðherranefndin Þorvaldi stöðu ritstjóra við fræðititið Nordic Economic Policy Review en fjármálaráðuneytið stöðvaði ráðningu Þorvaldar eftir að staðfest hafði verið við Þorvald að hann yrði ráðinn. Bjarni hefur opinberlega talað um áherslur Þorvaldar í efnahagsmálum sem ástæðuna og neitað því að pólitískar skoðanir Þorvaldar ráði úrslitum um afstöðu hans, þrátt fyrir að hann hafi áður gefið slíkt sterklega í skyn.
RÚV hafði það eftir Bjarna í dag að hann hefði ekki hvikað frá þeirri afstöðu sinni að Þorvaldur sé ekki rétti maðurinn til að sinna ritstjórn NEPR. Jafnframt sakar hann fráfarandi ritstjóra Lars Calmfors um vinhygli. Talaði Bjarni á þeim nótum að kunningsskapur Calmfors og Þorvaldar væri ástæða þess að Þorvaldi var boðið starfið og að nefndin hefði farið út fyrir valdsvið sitt með því að bjóða Þorvaldi starfið.
Lars Calmfors segir það vera nýlundu fyrir sig að vera sakaður um kunningjaspillingu, það hafi ekki áður gerst á 50 ára starfsferli hans sem hagfræðings.
Ég mælti með Þorvaldi í starfið vegna þess að ég taldi hann hæfan. Hann er þekktur á alþjóðavettvangi sem fjölhæfur hagfræðingur með mikla reynslu af því að gera fræðiefni aðgenglegt bæði fyrir þá sem koma að pólitískri stefnumótun og einnig breiðari hóp lesenda, auk þess að hafa góða þekkingu á hagfræðilegum stefnumálum á Norðurlöndum. Eftir því sem ég best veit eru þau andmæli sem íslenska fjármálaráðuneytið bar fram í stýrihópnum faglegri hæfni Þorvaldar óviðkomandi; þar var eingöngu vísað til pólitískra sjónarmiða.
Calmfors segir það rétt að þeir Þorvaldur hafi báðir starfað við Alþjóðlegu hagfræðirannsóknastofnuna við Stokkhólmsháskóla á árunum 1978-1996. Þeir hafi þó aldrei unnið saman. Þeir hafi nákvæmlega engin samskipti haft á árunum 1996 til 2016. Árin 2017 og 2018 hafi Þorvaldi verið boðið að skrifa umsagnir um tvær greinar sem stóð til að birta í NEPR. Umsagnirnar hafi hvor um sig verið þrjár blaðsíður á lengd.
Það fellur varla undir það sem ég myndi kalla að hafa „staðið fyrir útgáfu ýmissa annarra rita sem Þorvaldur hafi átt greinar í.“
Calmfors segir að af orðum ráðherrans mætti ætla að staða ritstjóra NEPR sé valdastaða sem slegist sé um. Sú sé ekki raunin. Starfið feli í sér mikla og erfiða vinnu en sé engin virðingarstaða akademískt séð. Það sé heldur ekki vellaunað. Sannast sagna hafi verið lítil eftirsókn í það. Þar sem fyrri ritstjórar hafi verið frá Danmörku (þ.e. Torben Andersen) og Svíi (Calmfors sjálfur) hafi vilji staðið til að ráða einhvern frá hinum Norðurlöndunum. Haft hafi verið samband við nokkra Norðmenn og Finna, samkvæmt meðmælum frá sér, áður en Þorvaldi var boðin staðan en þeir hafi hafnað henni.
Calmfors segir það venjulega auðveldara að fá fólk í stöður sem þessar undir lok starfsferilsins, þegar það er búið að sanna getu sína á alþjóðavettvangi. Það hafi verið ein ástæða þess að hann sjálfur tók starfinu á sínum tíma og það hafi einnig verið ein af ástæðum þess að hann taldi mögulegt að Þorvaldur hefði áhuga.
Í stuttu máli finnst mér ummæli ráðherrans, eins og þau eru í þeirri þýðingu sem mér var send, stórfurðuleg. Það hendir alla að segja eitthvað í hugsunarleysi undir álagi. Engu að síður þætti mér við hæfi að fá afsökunarbeiðni frá ráðherranum þegar hann er búinn að hugsa málið.
Þess má geta að á árunum 2007-2011 var Lars Calmfors fyrsti formaður í efnahagsráði Svíþjóðar, sem tók til starfa árið 2007, en árin 2006-14 var við völd í Svíþjóð ríkisstjórn „borgaraflokkanna“ svokölluðu, undir forystu Moderatarna, sem eru næst því að vera systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Svíþjóð.