Myndskeið Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn Kvennablaðsins.

Ritstjórn hafði brýnni verkefnum að sinna en þeim að hlusta á fulltrúa ríkisstjórnarinnar (svo sem að leggja sig og horfa á málningu þorna) og mætti því ekki á fundinn. Í ofurtrausti sínu á meginstraumsmiðlum taldi ritstjórn víst að þeir myndu gera rækileg skil öllu sem meðlmir hennar teldu áhugavert. Það reyndist ofmat því þrátt fyrir lúslestur allra frétta af fundinum hefur ritstjórn enn ekki fundið neina heimild fyrir því að samþykkt hafi verið að ráðherrar skuli undanþegnir tveggja metra reglunni.

Af myndinni að dæma hefur banninu þó verið aflétt gagnvart ráðherrum og vakna nú spurningar um það hvort fleiri fínimenn hafi fengið nærveruvottun og hvort ráðherrar þurfi nokkuð að þvo sér.

Kannski reyni ég að afla upplýsinga um það á næstu dögum. Nema ég finni mér eitthvað áhugaverðara að dunda við í kófinu.