Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu á því hvað getur gerst þegar ríki fara að kortleggja upplýsingaóreiðu.
Í Frakklandi, vöggu lýðræðis og frelsis, setti ríkið upp vef sem var ætlað það hlutverk að leiðrétta falsfréttir og villandi upplýsingar um kórónuveiruna. Til allrar hamingju risu samtök blaðamanna strax upp og fengu snarlega lögbann á síðuna. Ríkisvaldið er nefnilega ekki handhafi sannleikans og þegar það beitir valdi sínu til þess að segja almenningi hverju hann eigi að trúa, í stað þess að treysta á upplýsta umræðu, þá er ritskoðun rétt handan við hornið.
Eins og fram hefur komið hefur þjóðaröryggisráð skipað vinnuhóp sem ætlað er að kortleggja upplýsingaóreiðu vegna Covid-19 á Íslandi. Þessi áform hafa ítrekað sætt gagnrýni af hálfu Kvennablaðsins, t.d. hér, hér, hér og hér. Við höfum einnig gagnrýnt daður Covid teymisins við flokkun fjölmiðla eftir áreiðanleika, t.d. hér og hér. Gagnrýni á kortlagningu „upplýsingaóreiðu“ og óljósar ábendingar Covid-teymisins um ótilgreinda, áreiðanlega fjölmiðla hefur lítið, ef nokkuð, gætt á meginstraumsmiðlum.
Til hvers á að kortleggja upplýsingaóreiðu á Íslandi?
Kvennablaðið hefur óskað upplýsinga þjóðaröryggisráðs um þessi kortlagningaráform og fengið svör. Ætlunin er að láta gera spurningakönnun til að afla þekkingar á því hvaðan fólk fær upplýsingar sem varða veiruna. Samkvæmt Þórunni J. Hafstein, sem leiðir starf vinnuhópsins, er litið til kannana sem gerðar hafa verið í sumum nágrannaríkjanna. Þórunn nefnir í þessu sambandi könnun OFCOM í Bretlandi, sem byggir á vikulegum mælingum, spurningakönnun sem gerð var í Noregi í mars sl. og könnun Reuters Institute við Oxford háskóla, þar sem bornar eru saman mælingar milli sex landa.
Niðurstöður þessara kannana koma ekki á óvart. Þátttakendur verða að jafnaði heilmikið varir við óáreiðanlegar upplýsingar og falsfréttir en flestir treysta best opinberum upplýsingaveitum stjórnvalda og meginstraums-fjölmiðlum. Miðað við metáhorf Íslendinga á blaðamannafundi Almannavarna og tíðar deilingar hinnar opinberu Covid-19 síðu á samfélagsmiðlum kæmi verulega á óvart ef niðurstaðan á Íslandi yrði sú að falsfréttir væru stórt vandamál.
Það er auðvitað gott mál að sem flestir þættir mannlegrar tilveru séu rannsakaðir, svo fremi sem vísindaleg vinnubrögð og persónuverndarsjónarmið eru höfð í heiðri og í sjálfu sér ekkert við það að athuga að Íslendingar séu spurðir hvar þeir afli sér upplýsinga og hverjum þeir taki mark á. En hvað á svo að gera við upplýsingarnar? Það virðist enginn vita enn. Með orðum Þórunnar Hafstein:
„Vinnuhópurinn mun gera þjóðaröryggisráði grein fyrir störfum sínum og kynna fyrir viðkomandi ráðuneytum þar sem ábyrgð á einstökum málefnasviðum er hjá viðkomandi ráðuneyti skv. forsetaúrskurði hverju sinni.“
Ríkissíða er þegar komin í loftið
Vandséð er hversvegna þörf er á níu manna starfshópi til þess að kynna niðurstöður spurningakönnunar. En að sjálfsögðu er vinnuhópnum ætlað að gera fleira, t.d. „efla almenna aðgát gagnvart upplýsingum og miðlun upplýsinga um COVID-19“. Einnig á hann að tryggja aðgengi að réttum upplýsingum. Þegar er hafið samstarf vinnuhópsins við vísindavef Háskóla Íslands og er hér að finna umfjöllun vísindamanna.
Það er auðvitað gott mál að pennar Vísindavefsins skuli sinna því mikilvæga hlutverk að upplýsa almenning en stöldrum aðeins við, áður en við göngum út frá því að þetta sé allt saman hafið yfir gagnrýni.
Fyrsti tengill á síðunni ber yfirskriftina: Hvar er að finna áreiðanlegar og traustar upplýsingar um Covid-19? Á þeirri síðu eru tenglar á ýmis gagnasöfn í nokkrum flokkum. Flestir tenglarnir benda á vísindagreinar. Erfitt er að sjá hvaða lýðheilsu- eða upplýsingargildi það á að hafa fyrir almenning. Flestir leikmenn eru illa læsir á rannsóknir á sviði raunvísinda. Það eru helst „nördar“ sem kynna sér slíkt efni og þeir eru yfirleitt ekki í neinum vandræðum með að finna það.
Sumar þeirra síðna sem hlekkjað er á vísa svo aftur í ógrynni af tenglum á allskonar efni. Heimsókn á síðuna leiðir notandann þannig að tenglum á vísindagreinar, skoðanapistla og allt þar á milli. Það verður að teljast áhugavert að þjóðaröryggisráð skuli telja samstarfsfólk sitt þess umkomið að gefa þessum ókjörum af efni gæðastimpil. Ennþá áhugaverðara er að undir liðnum „Ýmis gagna- og greinsöfn [svo] og annað efni um COVID-19“ er tengill á síðu sem tekið er fram að sé „góð uppspretta af greinum sem ekki er búið að birta formlega“. Hér er fólk sem starfar í umboði ríkisvaldsins að gefa það út að vísindagreinar sem ekki hafa verið ritrýndar séu áreiðanlegar.
Sem dæmi um það hversu misráðið það er að ríkisvaldið gefi út lista yfir áreiðanlegar heimildir má nefna að undir liðnum Heimspeki og siðfræði er tengill á ágætan vef Johns Hopkins háskólans. Á þeim vef er svo ýmsa flokka að finna. Þar er t.d. sérflokkur með fréttum, sem er kannski það efni sem er líklegast til að vekja áhuga leikmanna. Í þeim flokki eru svo hlekkir á ýmsa víðlesna fjölmiðla, bæði miðla sem fólk þarf áskrift til að sjá, svosem Washington Post, og miðla sem eru galopnir, eins og t.d. Daily Mail. Það er varla hægt að skilja það tiltæki að vísa á Johns Hopkins vefinn á annan hátt en að ríkisvaldið telji að allt sem þar er að finna sé traust og áreiðanlegt. Miðlar á borð við Daily Mail eru þar með komnir með gæðastimpil frá þjóðaröryggisráði Íslands.
Hver er svo handhafi sannleikans?
Ég hef ekki minnstu áhyggjur af því Covid-19 gagnasafnið á Vísindavefnum muni leiða fólk á villigötur. Þeir sem á annað borð nýta sér það eru almennt nógu vel hugsandi til að gleypa ekkert hrátt og taka meira mark á vísindum en skoðunum. En ég hef áhyggjur af því sem gerist þegar sett verður upp yfirlit yfir það sem þjóðaröryggisráð telur ekki neysluhæft. Því þrátt fyrir að vilji ríkisins standi alls ekki til þess að skerða frelsi fjölmiðla, heldur aðeins að hafa vit fyrir sauðheimskum almúganum, er stóru spurningunni ósvarað:
Hver á að meta hvað telst til upplýsingaóreiðu og hvað ekki?
Væntanlega er hugmyndin sú að vinnuhópurinn leiti til sérfræðinga til að meta það, en hvaða sérfræðingar verða álitnir handhafar sannleikans? Er einhver þess umkominn að skera úr um það hvaða umfjöllun eigi erindi við almenning þegar við erum að fást við nýja ógn þar sem mörgum spurningum er enn ósvarað?
Í sumum tilvikum er augljóst hvað er falsfrétt og hvað ekki. Það er ekki umdeilt meðal vísindamanna að það er afar vond hugmynd að drekka klór og getur dregið fólk til dauða á skömmum tíma. Það er bara staðreynd.
En hvað með upplýsingar sem byggja ekki á sérfræðiþekkingu heldur frekar pólitískri afstöðu? Hvað með „upplýsingaóreiðu“ sem er að mati vinnuhópsins til þess fallin að vekja tortryggni gagnvart stjórnvöldum? Verður Vísindavefurinn líka látinn um að „leiðrétta“ þá skoðun, í nafni þjóðaröryggis, að Evrópusambandið hafi brugðist eða að stjórnvöld séu að gera tóma vitleysu? Er verið að bjóða heim hættunni á því að þjóðaröryggisráð fari að ritstýra Vísindavefnum?
Sérfræðingar eru ekki alltaf sammála og mörg dæmi eru um það í sögu mannkyns að sérfræðingar sem hafa lítinn hljómgrunn í vísindasamfélaginu og hjá stjórnvöldum reynist hafa rétt fyrir sér. Ætlar ríkið að taka að sér að vara almenning við vísindamönnum sem þykja vafasamir?
Fyrsti sérfræðingurinn í þeim flokki sem mér kemur í hug er Judy Mikovits. Hún er veirusérfræðingur sem heldur því fram að bólusetningar geti valdið kórónuveiki og ýmsum öðrum sjúkdómum og að þeirri þekkingu sé haldið frá almenningi af einbeittum ásetningi vegna einkahagsmuna stjórnmálamanna og lyfjafyrirtækja.
Í mínum huga hljómar það eins og klikkuð samsæriskenning að vísindamenn og lyfjarisar vilji fyrir alla muni koma stórhættulegu bóluefni í börn. Mér finnst aftur á móti ekki svo ótrúlegt að einhver fótur sé fyrir því að spilling viðgangist innan vísindasamfélagsins og lyfjabransans. Þessvegna vil ég fá að ráða því sjálf hvort ég hlusta á Judy Mikovits eða ekki. Ég vil gjarnan fá álit þeirra sem álíta hana rugludall en ég vil að sú umræða fari fram án ríkisafskipta.
Ber ríkið þá enga ábyrgð á því að traustar upplýsingar séu til reiðu?
Auðvitað á ríkið að sjá til þess að við höfum aðgang að eins áreiðanlegum upplýsingum og mögulegt er. Til þess höfum við háskóla, rannsóknarstofnanir, Almannavarnir, Landlæknisembættið, og önnur stjórnvöld sem hafa m.a. það hlutverk að vara við hættum og gefa út tilmæli í þágu almannaöryggis. En ríkið á líka að tryggja upplýsinga- og tjáningarfrelsi og virða borgarana sem viti bornar verur. Og til þess höfum við fjölmiðla. Frjálsa fjölmiðla.
Það skiptir máli að ríkið láti ógert að reyna að stjórna því á hverja við hlustum. Ekki aðeins vegna hættunnar á því að þaggað sé niður í fólki sem hefur eitthvað mikilvægt fram að færa, heldur ekki síður vegna þess að ef vafasamir vísindamenn eða fjölmiðlar lenda á svarta listanum vegna kórónuveirunnar, þá getum við reiknað með því að fólk með óæskilegar stjórnmálaskoðanir verði næst.