Hversvegna má ekki spyrja hvað varð um líkin?

Barin Kobani 
Mynd: The Peninsula @PeninsulaQatar Twitter

Þann 1. febrúar sl. birti Twitternotandi óhugnanlegt myndband af líki 23ja ára kúrdískrar konu, Barin Kobani, sem barðist með hersveitum Kúrda í Afrín. Á myndbandinu sjást hermenn spjalla glaðlega saman og hlæja við. Líkið liggur í götunni, það vantar á það handlegg. Buxurnar hafa verið dregnar niður um stúlkuna svo kynfærin blasa við. Treyjan dregin upp. Samt sjáum við ekki brjóst því bæði brjóstin hafa verið skorin af henni og bútur hefur einnig verið skorinn úr kviði hennar. Hermaður sést traðka á líkinu. Það eru væntanlega FSA liðar sem sjást á myndskeiðinu en þeir voru ásamt liðsmönnum islamska ríkisins á svæðinu í umboði Tyrkja, sem bera ábyrgð á innrásinni og þeim stríðsglæpum sem framdir hafa verið í tengslum við hana.

Sama dag og myndbandið birtist kom Haukur sonur minn til Afrín. Hann var þar í einhvern tíma en skilaði sér ekki eftir aðgerð. Það er nokkuð á reiki hvenær það á að hafa gerst en öllum heimildum ber saman um staðinn. Um er að hæðir milli tveggja þorpa, Badina og Demilya. Þar virðist aðeins vera ein bygging og þetta er lítið svæði sem sprengjum var varpað á í febrúar, aðeins 3-4 ferkílómetrar. Frá 24. febrúar hafa Tyrkir farið með yfirráð á þessu svæði. Fyrst FSA og liðsmenn islamska ríkisins í umboði Tyrkja en síðar Tyrkir sjálfir.

Það er aðeins hálftíma gangur milli þorpanna Badina og Demilya. Varla eru lík látin liggja á víðavangi vikum saman í næsta nágrenni við mannabyggð og ekki var þeim skilað til Kúrda. Þarna eru ekki umfangsmiklar rústir sem seinlegt og hættulegt er að leita í. Sennilegast hafa líkin verið hirt og grafin fyrir löngu. Ef er til gröf, þá er hægt að opna hana og sækja lífsýni en hvar er gröfin? Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að spyrja Tyrki hreint út hvað var gert við líkin?

Jú, það er vegna þess að tyekneska lögreglan hefur ráðlagt íslenskum stjórnvöldum að vera ekkert að angra tyrknesk yfirvöld, heldur afla upplýsinga eftir „diplómatískum kanölum“. Kannski finnst tyrknesku lögreglunni líklegt að hermálayfirvöld og utanríkisráðherra hafi lítíinn áhuga á því að fjöldagrafir verði opnaðar. Kannski kæmu þá fram sannanir um fleiri stríðsglæpi á borð við þann sem framinn var gagnvart Barin Kobani.

Nú hafa 400 manns skorað á forsætisráðherra að beita sér í máli Hauks. Fyrir utan þau atriði sem talin eru upp í þessu bréfi væri eðlilegt að spyrja:

Hvar eru lík þeirra sem drepnir voru af hersveitum Tyrkja og bandamanna þeirra í FSA og Daesh á svæðinu milli Badina og Demilya í febrúar 2018?

 

Yfirlýsing Íslands vegna árásanna á Sýrland er fundin!

Vera má að hernaðarbandlög séu nauðsynlegt (en ekki nægjanlegt) skilyrði þess að fyrirbyggja átök og stöðva grimmdarverk. Nú skulum við gefa okkur það í smástund og sömuleiðis að aðild Íslands að NATO eigi rétt á sér. Margt bendir til þess að ógnarstjórn Assads Sýrlandsforseta hafi, með fulltingi Rússa, beitt efnavopnum í Douma nú á dögunum. Slíkt á aldrei að líðast en þar sem Öryggsráð Sameinuðu þjóðanna þjónar ekki heimsfriði heldur hagsmunum fimm stórvelda er ekki hægt að ná samstöðu um refsiaðgerðir eða nokkrar þær aðgerðir sem gætu dregið úr hættunni á eiturefnahernaði. Og þegar alþjóðastofanir bregðast kann að vera réttlætanlegt að fara fram hjá alþjóðalögum. Lög á aldrei að setja ofar mannúðarsjónarmiðum.

Gefum okkur þetta allt en spyrjum samt: til hvers eru hernaðarbandalög ef ekki einmitt til þess að tryggja að staðið sé skynsamlega og réttlátlega að þeim hernaðaraðgerðum sem þykja nauðsynlegar? Hverskonar bandalag er það sem lætur einstaka meðlimi komast upp með einleik án nokkurs samráðs við þjóðþing sín, bandalagið sjálft eða önnur aðildarríki, og samþykkir aðgerðir þeirra eftir á?

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar
Ríkistjórn Katrínar Jakobsdóttur lagði nafn sitt við yfirlýsingu NATO, þar sem lýst var yfir „fullum stuðningi“ við loftárásir á Sýrland. Katrín reyndi síðar að klóra yfir það með þeirri furðulegu þversögn að Ísland hefði ekki stutt aðgerðinar „sérstaklega“. Eins og það dragi eitthvað úr alvarleika sameiginlegrar yfirlýsingar þótt henni sé ekki fylgt eftir með yfirlýsingu einstaka ríkis. Í þessum pistli gerði ég að umræðuefni fullyrðingar Kristrúnar Heimisdóttur um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem að hennar sögn var eða verður lesin upp „í sendiráðum og utanríkisráðuneytum um allan heim“. Mátti af orðum Kristrúnar skilja að með þeirri yfirlýsingu hefði ríkisstjórnin á einhvern hátt komið því til skila að stuðningur hennar við aðgerðirnar væri ekki eins „fullur“ og yfirlýsing NATO ber með sér. Ég undraðist að svo mikilvæg yfirlýsing hefði hvergi birst í fjölmiðlum eða á vef Utanríkisráðuneytisins og sendi því fyrirspurn til Kristrúnar og til aðstoðarmanna utanríkisráðherra og forsætisráðherra.

Í fyrradag barst mér svar frá aðstoðarmanni Katrínar Jakobsdóttur. „Yfirlýsingin“ sem um ræðir mun vera þessi Twitter-færsla Utanríkisráðherra.

„Aðrar yfirlýsingar ráðamanna“ voru að sögn aðstoðarmannsins birtar í fjölmiðlaumfjöllun helgarinnar.

Nú skiptir að sönnu töluverðu máli hvað valdafólk segir á samfélagsmiðlum. Ekki hefði mér þó dottíð í hug að Twitter-síða Guðlaugs Þórs væri vettvangur fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar til NATO eða alþjóðasamfélagsins. Ég hélt satt að segja að Twitter væri persónulegur vettvangur og þótt grannt sé fylgst með Twitter-vegg valdamesta manns veraldar hef ég enn ekki heyrt talað um tíst Donalds Trump sem yfirlýsingu ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Ísland er kannski forystusauður í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum? Ætli þetta tíst flokkist einnig sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar?

Hvorki tíst Guðlaugs Þórs né nokkuð af því sem Katrín Jakobsdóttir sagði í fjölmiðlum um síðustu helgi hefur á sér blæ yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórnar sem líklegt er að stjórnvöld eða sendiráð annarra ríkja sjái ástæðu til að lesa upp eða gefa nokkurt vægi. Eitthvað finnst mér líka ósennilegt við að Twitter-veggur Guðlaugs Þórs sé vaktaður. Hann kann að vera álíka mikill hálfviti og Donald Trump en hann er ekki nógu voldugur eða áhugaverður til þess að líklegt sé að utanríkisráðuneyti annarra ríkja leggi sig eftir orðum hans, hvort heldur það eru skoðanir hans á alþjóðamálum eða dálæti hans á Kúst og fæjó. Því síður er trúlegt að ráðuneyti og sendiráð fylgist með Víglínunni eða lesi fréttir íslenskra fjölmiðla.

Vannýtt tækifæri
Ríkisstjórn Íslands þurfti ekkert að samþykkja þessa yfirlýsingu. Það hefði ekki haft neinar neikvæðar afleiðingar að hafna því en hefði hinsvegar vakið athygli og gefið íslenskum ráðamönnum tækifæri til að tala fyrir friðsamlegum lausnum og ræða eðli hernaðarsamvinnu á alþjóðlegum vettvangi. Jafnvel þótt stjórnvöld telji loftárásir á Sýrland „viðbúnar og skiljanlegar“, hefðu þau getað notað þetta tækifæri til þess að brýna fyrir stórveldunum að hernaðarsamstarf hljóti að byggja á samráði og að „bandalag“ merki ekki að stóru strákarnir séu með litlu krakkana í bandi. Þau hefðu getað lýst yfir skilningi á þeirri afstöðu að hernaðaraðgerðir kunni að vera réttmætar en sagt um leið að slíkar ákvarðanir séu ekki á hendi einstakra ríkja. Þau hefðu meira að segja getað bjargað heiðri sínum með því að samþykkja yfirlýsingu NATO en gefa um leið út formlega yfirlýsingu um að Ísland muni ekki framar styðja hernarðaraðgerðir aðildaríkja NATO nema fá tækifæri til að ræða þær áður en farið er af stað.

Sannleikurinn um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna geðþóttaákvörðunar þriggja stórvelda um loftárásir á Sýrland er sá að Guðlaugur Þór Þórðarson og Katrín Jakobsdóttir lýstu yfir „fullum stuðningi“ við þá ákvörðun og afleiðingar hennar. Það er eina „yfirlýsingin“ sem þau hafa sent frá sér varðandi þetta mál. Það er grátlegt og leitt og ekki síður ömurlegt að þau skuli vera að reyna að klóra yfir það.

Hver verða viðbrögðin næst?
Hversu gagnlegur er utanríkisráðherra sem fylgir stórveldum eins og hlýðinn rakki þegar þau fara á svig við þau prinsipp um samvinnu og samráð sem sjálf hugmyndin um bandalag byggist á? Og hversu trúverðugur er forsætisráðherra sem segist vilja leysa málin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en viðurkennir samt réttmæti árásarstríðs þegar niðurstaða Sameinuðu þjóðanna er ekki í takti við óskir hans? Við hverju má búast af þessu fólki næst þegar svokallaðir bandamenn okkar varpa sprengjum án þess að leita álits þjóðþinga sinna eða samstarfsríkja? Mun þá skipta einhverju máli hvort mannfall verður eða hvort heimstyrjöld brýst út í kjölfarið?

Mun Guðlaugur Þór segja á Twitter að á Íslandi sé alveg stemning fyrir heimsstyrjöld en að það væri samt kúl að skoða „pólitískar lausnir“? Mun Katrín Jakobsdóttir segja að stuðningsyfirlýsing sé í raun eitthvað annað en stuðningsyfirlýsing?

Munu kjósendur Vg taka þá afstöðu að mannfall hafi svosem verið viðbúið en að ríkisstjórnarsamstarfið toppi réttinn til lífs?

Fjórða kort mitt til Erdoğans

Viðbjóðurinn Erdoğan hefur ákveðið að flýta kosningum. Ekki svo að skilja að í Tyrklandi fari fram frjálsar kosningar en hann telur sennilega minni líkur á því að hann mæti andstöðu nú en eftir ár. Bæði af því að efnahagur landsins er á niðurleið og vegna þess að hann er að herða ritskoðun og hann veit að fólki mun líka það æ verr. Með því að boða til kosninga strax sviptir hann andstæðinga sína raunhæfu tækifæri til að kynna stefnu sína. Áhrifin verða þau, ef hann nær kosningu, að hann fær í hendur það alræðisvald sem fallist var á að veita forseta í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir ári.

Ég sendi honum þessa kveðju hér að ofan í morgun.

Ljóð til Erdoğans

Mér finnst nú frekar lélegt hjá sendiráði Tyrklands í Osló að staðfesta ekki einu sinni móttöku á póstinum frá mér. Ég ætla rétt að vona að kortin frá mér komist til skila. Þúsundir hafa sætt lögreglurannsókn og margir þeirra verið sakfelldir fyrir að mógða karlhelvítið, og hann hefur iðulega krafist þess að færslur um hann séu fjarlægðar af samfélagsmiðlum, svo það virðist auðvelt – komist boðin á annað borð til skila.

Það er uppi einhver misskilningur um að ég telji að það að ausa skít yfir Erdoğan komi að gagni við leitina að syni mínum. Ég skil eiginlega ekki hvernig nokkrum getur dottið það í hug. Fyrst Tyrkir eru ekki löngu búnir að gefa einhverjar upplýsingar um afdrif Hauks þá annaðhvort ætla þeir sér ekki að gera það eða þá að þeir vita ekki neitt. Ég tala hreint út um álit mitt á Erdoğan sjálfri mér til skemmtunar og vegna þess að ég vil að Alþingi Íslendinga viðurkenni rétt minn og annarra til að mógða fínimenn til jafns við óbreytta borgara.

Og það mun ég gera áfram. Hvenær sem mér dettur það í hug. Hvort sem ég er á íslensku vefsvæði eða íslenskri grund og hvort sem mektarmennið heitir Erdoğan, Trump eða eitthvað annað. Það er einfaldlega ógeðslegt að árið 2018 skuli vera í gildi lög sem veita helstu drullusokkum veraldarinnar vernd frá áliti annarra á embættisfærslum þeirra og innræti.

 

Hvar er þessi yfirlýsing Íslands vegna árásanna á Sýrland?

Umfjöllun Kristrúnar um yfirlýsinguna frá mínútu 22

Í Silfrinu nú um helgina þar sem ræddar voru árásirnar á Sýrland og viðbrögð Natóríkja við þeim, hélt Kristrún Heimisdóttir því fram að Ísland hefði sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst væri skilningi á þessum aðgerðum en ekki sérstökum stuðningi. Kristrún sagðist hafa tekið eftir því hvernig yfirlýsing Íslands var orðuð, lagði áherslu á að orðalag hennar skipti máli og að slíkar yfirlýsingar væru ekki léttvægar því þær væru lesnar upp í sendiráðum og utanríkisráðuneytum um allan heim (frá og með 22. mínútu). Halda áfram að lesa