Eru þessar dagsetningar tilviljun?

Þann þriðja júlí 2008 hófst barátta fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi fyrir alvöru. Atburði dagsins þekkja flestir. Eldhugarnir Jason Slade og Haukur Hilmarsson hlupu inn á flugbraut og röskuðu með því flugáætlun. Markmiðið var að hindra brottvísun pólitísks flóttamanns Pauls Ramses. Ramses var samt sem áður sendur til Ítalíu en í kjölfarið héldu Birgitta Jónsdóttir og Hörður Torfason hvern mótmælafundinn á fætur öðrum og að lokum var Paul Ramses leyft að koma til Íslands og hér er hann enn. Ekki vegna þess að ríkisvaldið hafi hlustað á Jason og Hauk, heldur vegna þess að hann átti fullan rétt á því og þegar kom í ljós að mikill fjöldi almennra borgara var meðvitaður um það, þá þorðu yfirvöld ekki að halda brotum sínum áfram.

Færri vita að þrátt fyrir að ríkið hafi með því að taka við Ramses viðurkennt mistök sín voru Jason og Haukur dregnir fyrir dóm og sakfelldir á grundvelli ákæruliðar sem ekki var getið í ákæru. Hæstiréttur vísaði málinu heim í hérað aftur og ákæruvaldið fékk nýtt tækifæri til að ofsækja þá fyrir að framfylgja mannréttindum. Þeir voru sakfelldir öðru sinni og Hæstiréttur staðfesti þá ósvinnu en dómnum var aldrei framfylgt.

Flugvallarhlaupið hafði gífurleg áhrif og þeir skipta hundruðum sem lagt hafa hönd á plóginn í þessari baráttu. Önnur aðgerð sem miðaði beinlínis að því að hindra flugtak var gerð þann 26. maí 2016, þegar tveir liðsmanna No Borders, Jórunn Edda Helgadóttir og Ragnheiður Freyja Kristínardóttir reyndu að koma í veg fyrir ólöglega brottvísun flóttamanns frá Nígeríu. Aðferð þeirra var fullkomlega friðsamleg og skapaði enga hættu. Þær stóðu upp, í flugvél sem var að undirbúa flugtak, sögðu farþegum frá því að í vélinni væri maður sem nú ætti að flytja burt enda þótt hann væri á flótta undan Boko Haram. Þær voru handteknar og brottvísun Eze Okafor framfylgt.

Í júlí 2018, rétt rúmum 10 árum eftir flugvallarhlaup Hauks og Jasons, sýndi sænsk baráttukona, Elín Ersson, afgönskum flóttamanni samstöðu með sömu aðferð. Hvort aðgerð Jórunnar og Ragnheiðar varð hinni sænsku Elin Ersson hvatning til þess að beita sömu aðferð skal ósagt látið, það er í sjálfu sér ekkert sem bendir beinlínis til þess. Áhugavert er þó að Jórunni og Ragnheiði var birt ákæra vegna aðgerða þeirra sama dag og Elin Erson var ákærð í Svíþjóð. Aðalmeðferð í máli Jórunnar Eddu og Ragnheiðar Freyju hefst 6. mars. Nákvæmlega ári eftir að við fengum fréttirnar af Hauki. Það fer að nálgast ár síðan við fengum þessar fréttir og það hefur verið á hreinu allan tímann að við efumst mjög um þá dagsetningu sem hersveitir Kúrda segja hann hafa fallið, 6. mars hefur mun meiri þýðingu í huga aðstandenda Hauks en 24. febrúar. Ég hef ekki trú á því að þessar dagsetningar séu helber tilviljun. Ég held að þetta eigi að vera einhverskonar skilaboð til þeirra sem sýna flóttafólki samstöðu enda er það eingöngu fyrir þrýsting frá almennum borgurum sem ástandið hefur þó skánað.

Samúð og hjálpfýsi eru sammannlegir eiginleikar. En það er sjaldgæft að fólk sé tilbúið til þess að taka áhættu til að hjálpa öðrum. Við getum öll lent í þeirri aðstöðu að þurfa á fólki eins og Jórunni og Freyju að halda. Ég verð ekki á landinu þann 6. mars en ætla að minnast Hauks með því að vekja athygli á máli Jórunnar og Freyju daglega fram að því. Þið sem verðið í aksturfjarlægð og viljið minnast Hauks á þessum táknræna degi gætuð ekki fundið betri leið til þess en þá að mæta í Héraðsdóm Reykjavíkur til að sýna Freyju og Jórunni stuðning. Ekki bara þeim heldur líka Hauki og Jason, Elin Ersson og öllum öðrum sem sýna það hugrekki að hætta frelsi sínu til þess verja mannrétti annarra. Það eru nefnilega sjálfsögð mannréttindi að þurfa ekki stöðugt að óttast um líf sitt, frelsi, öryggi og mannlega reisn.

 

Stuðningsfólk Jórunnar og Ragnheiðar hefur nú opnað vefsíðu þar sem hægt er að fylgjast með framgangi málsins og kynna sér efni sem tengist réttinum til að sýna samstöðu.