Íslenska dindilhosan

-Þú ættir að bjóða þig fram sem íslenska batsjellorett, sagði hann. Ég hló.
-Ég er ekki að grínast, sagði hann og hljómaði eins og honum væri virkilega alvara.
Jamm, það færi mér vel. Hvaða lúði sýnir frumlegustu smjaðurtæknina og fær piparkerlingu í verðlaun? Missið ekki af næsta þætti af íslensku dindilhosunni!

-Ég held ekki að þú fyndir þér mann með því móti en það gæti leiðrétt þá villutrú þína að menn verði bara ekki ástfangnir af þér.
-Ég er bara raunsæ,
sagði ég. Þeir fáu karlmenn sem hafa haft nógu mikinn áhuga á mér til að íhuga langtímasamband hafa fundið sér konu mánuði eða tveimur eftir að ég afþakkaði boðið. Það segir mér allt sem ég þarf að vita um það hversu djúpt hrifning þeirra risti og þeir eru mun fleiri sem hafa hafnað mér. Það væri bara heimskulegt af mér að horfast ekki í augu við þetta.
-Það er ekkert skrýtið þótt þú hafir þessa reynslu. Þú umgengst bara einhverja viljalausa lúða sem hafa ekkert keppnisskap. Þarna úti eru tíuþúsund menn sem eru tilbúnir til að berjast fyrir þér.

-Þú ert ágætur.
-Og þú ert að reyna að loka umræðunni.
-Hmprff. Ég er að loka á umræðu um möguleikann á því að verða íslenska dindilhosan. Ertu í alvöru hissa á því?
-Þú ert að loka á umræðu um möguleikann á því að uppræta röng viðhorf. Þú fórst að læra magadans í þeim tilgangi að sleppa takinu á þeirri sannfæringu að allar íþróttir séu upprunnar í helvíti. Því ættirðu ekki að nota sömu aðferð til að leiðrétta þá hugmynd að allir karlmenn séu annaðhvort samviskulausir eða skaplausir?

Ég reikna ekki með að bjóða mig fram sem fyrstu sjónvarpsdindilhosuna á Íslandi. En kjarninn í kenningunni er samt sem áður nokkurrar athygli verður.