Ég svaf ekki í nótt. Las allt sem ég fann á netinu um sjúkdóminn. Fann fyrir hugarhægð þegar ég sá að það er ekkert víst að þetta sé erfasjúkdómur. Það er víst aðeins í 10% tilvika sem þetta er arfgengt en ef það er arfgengt á annað borð eru líkurnar á að maður fái sjúkdóminn 50%. Það er þessvegna sem allir heima hjá Sunnevu verða sem strengdir upp á þráð ef pabbi hennar misstígur sig. Hann er að verða fertugur og helmingslíkur á að hann sé með þetta.
Fyrst fréttirnar koma frá móður minni er von til þess að þetta sé ekki arfgenga afbrigðið. En samt. maður verður að vera raunsær. Ég hnýt. Þegar ég var í Palestínu hafði Chris, vinur minn orð á því að hann þekkti enga aðra manneskju sem tækist jafn oft að misstíga sig á sandölum.
Mig verkjar í skrokkinn. Það er nýtt. Ég fæ stöku sinnum verki í tær og fingur en aðeins í kulda eða ef ég hef verið að gera eitthvað sem reynir á mig. Núna er þetta bara streita. Svenfleysi. Ég veit það en hneygist samt til að trúa því að það sé eitthvað að mér. Merkilegt en það sem mér finnst verst er ekki að lamast, verða ósjálfbjarga. Það sem mér finnst verst er tilhugsunin um að ráða ekki við lyklaborð. Ég hef alltaf sagt að málleysi sé sú fötlun sem ég þyldi síst en nú er ég að átta mig á því að í mörg ár hef ég aðallega tjáð mig í rituðu máli. Málleysi myndi litlu breyta en ég verð að geta skrifað.
Ég þarf að hafa samband við systur mína. Sem ég hef ekki séð síðan við vorum fimmtán ára. Mig langaði lengi að kynnast henni en vildi ekki rugga bátnum. Ég er búin að finna hana á facebook. Hún er víst prestur blessuð konan. Var á fullu í KFUK á sama tíma og ég var að reyna að vera Bahá’í.
Sit og horfi á skjáinn. Mynd af manni í hjólastól. Ég kynntist honum aldrei.
Hann skrifaði, segja þeir.