Það getur verið stórhættulegt að pissa

 

Svona til nánari skýringar fyrir þá sem kann að bregða við að sjá myndina af honum Darra mínum á snjáldrinu:

Þau Dana María fóru ásamt tveimur íslenskum vinkonum Dönu á skemmtistað í Aabenraa föstudagskvöldið 7. maí. Stelpurnar töluðu við einhverja gesti þar inni, bara um daginn og veginn. Allt var í góðu og þau skemmtu sér vel en Darri sem er almennt hlédrægur og óvanur því að tjá sig á dönsku, blandaði sér ekki í samræðurnar.

Þegar staðurinn lokaði um fjögur leytið, ákváðu þau að fara á næturklúbb í nágrenninu. Nokkrir aðrir gengu sömu leið og þau, þeirra á meðal maður sem stelpurnar höfðu spjallað aðeins við inni á staðnum. Darri skaust inn í húsasund til að pissa og á meðan biðu stelpurnar og spjölluðu við umræddan mann. Á meðan Darri var að pissa kemur einhver ókunnugur gaur, veður beint að honum og ýtir við honum. Ekki beinlínis árás, bara svona bögg, segir Darri. Honum bregður eðilega enda átti þessi maður ekkert sökótt við hann en það eina sem honum dettur í huga að segja er ‘hey dude!’ í gremjutón. Gaurinn ýtir aftur við honum og Darri segist hafa tekið því það alvarlega að hann hafi hætt að pissa og ákveðið að koma sér burt. Gaurinn fer svo að kýla svona aðeins í hann og ber sig dólgslega. Darri segist ekki gera sér grein fyrir því hversu alvarlegt það var, eða hvort höggin lentu í andlitinu. Hann man bara að hann bar hendurnar fyrir sig og var mjög ráðvilltur, skildi ekki hvað manninum gekk til og vildi komast burt úr þessum fáránlegu aðstæðum.

Stelpurnar taka eftir því sem er að gerast og ein þeirra sér árásarmanninn taka um kverkarnar á Darra. Þær ganga á milli og segja Darra að hlaupa burt. Á sama tíma ber fleira fólk að. Gaurinn fer út úr portinu og fer að tala við þennan sem hafði gefið sig á tal við stelpunar og þeir rölta burt. Einn vegfarenda segir stelpunum að kalla á sig ef rugludallurinn komi aftur.

Stelpurnar finna Darra og þau halda áfram eftir götunni. Stuttu síðar kemur maðurinn sem hafði spjallað við stelpurnar hlaupandi með portgaurinn á hælunum. Spjallarinn vindur sér að Darra og segir að gaurinn sé litli bróðir sinn. Darri fær svo hnefa í smettið og allt í einu liggur hann í götunni. Hann gerir sér ekki grein fyrir því hversu mörg högg hann fékk í andlitið og þar sem hann hugsaði mest um að hylja á sér andlitið sá hann ekki mikið en hann segist hafa fundið spörk úr tveimur áttum í einu og stelpurnar staðfesta að þeir hafi báðir sparkað í hann m.a. í höfuðið á honum. Fleira fólk var á staðnum og hlýtur að hafa séð hvað gerðist.

Stelpurnar reyna að stöðva mennina en ráða ekkert við ástandið. Þær kallar til vegfarenda og maðurinn sem hafði boðið fram aðstoð sína kemur. Ein stelpnanna biður hann að hringja í lögguna. Fleira fólk drífur að og þá hætta árásarmennirnir. Þeir labba svo bara burt í rólegheitunum. Enginn stöðvar þá, enda almennt viðurkennt að það sé bara í verkahring löggunnar að elta glæpamenn. Bæði Darri og stelpurnar voru í uppnámi og datt ekki í hug á þeirri stundu að taka nöfn og símanúmer vitna. Árásarmennirnir voru horfnir, einnig maðurinn sem ætlaði að hringja í lögguna. Engin lögga var komin svo þau vita ekki enn hvort hann gerði það.

Dana hringdi í lögrugluna og tilkynnti líkamsrárás. Sá sem varð fyrir svörum sagði henni að fyrst mennirnir væru farnir gætu þeir ekkert gert, en þau skyldu fara upp á slysó og koma svo og kæra daginn eftir.

Darri slapp tiltölulega vel frá þessari árás. Hann er allur marinn, með malbiksfar á vinstri hluta andlitsins og bólgnaði mikið. Andlitið á honum var nánast þrefalt hægra megin til að byrja með en hann lítur mun betur út núna. Hann hefur mikla verki, gengur á sterkum verkjalyfjum en það dugar ekki til. Hann hefur líka kastað upp. Hann er með skurð í andlitinu, kinnbeinsbrotinn (sem betur fer lokað brot svo hann losnar vonandi við að gangast undir lýtaaðgerð) og það eru margar grunnar sprungur í beininu kringum hægra augað. Mikil mildi að augað sjálft skuli hafa sloppið. Tennur losnuðu og hann á ennþá erfitt með bíta og tyggja. Önnur framtönnin er orðin grá og það verður hans fyrsta verk þegar hann kemur til Íslands í dag að panta tíma hjá tannlækni. Læknar segja honum að reikna með að verkirnir muni vara í margar vikur og að hann verði með doðabletti í andlitinu í heilt ár.

Á laugardeginum fór ég svo með Darra til að leggja fram ákæru og stelpurnar komu líka með til að gefa skýrslu. Ég fór með Darra inn til að túlka. Hann var ennþá í sjokki og átti svo erfitt með að lýsa upplifun sinni að það tók um 80 mínútur að fá söguna upp úr honum. Mér fannst löggugaurinn leggja fullmikla áherslu á það hvað og hversu mikið Darri hefði drukkið en hann tók því með þolinmæði hvað hann átti erfitt með að koma sögunni frá sér.

Ég átti nú ekki von á því að löggan hefði mikinn áhuga á málinu en þar sem ein stelpnanna hafði náð mynd af öðrum hrottanum var nú kannski smá smuga að fjölskyldan gæti gengið í málið sjálf. En viti menn! Löggufávitinn sem tók skýrslu af stelpunni, eyddi myndinni úr vélinni hennar.

Hvað í fjandanum á fólk að gera til að takmarka tækifæri ójafnaðarmanna til að berja mann og annan þegar löggan eyðir gögnum? Við þyrftum auðvitað ekkert að hugsa um það ef fólk liti almennt svo á að það bæri einhverja ábyrgð gagnvart meðbræðrum sínum og samfélagi. Ef ekki væri búið að telja fólki trú um að því komi ekki við hvað er að gerast fyrir framan nefið á því og gera þessa rotnu, ógeðslegu, yfirvaldsþjónkunarstofnun ómissandi, með einkavæðingu valdbeitingar, þá hefði það fólk sem varð vitni að atburðinum ekki bara látið mennina ganga burt óáreitta.

Ég varð þokkalega brjáluð þegar ég heyrði að myndinni hefði verið eytt. Ég setti mig í samband við lögregluna og bað um leiðbeiningar um það hvert ég ætti að snúa mér til að kæra þá. Ég fékk reyndar ekki upplýsingar um það en var sagt að þetta hefði verið óvart og það væri hægt að ná eyddum myndum aftur en auk þess væri verið að rannasaka málið.

Það kom mér þægilega á óvart að lögreglan rannsakaði þetta raunverulega. Þeir voru búnir að finna mennina á miðvikudagsmorgni. Sá sem sá um rannsóknina var virkilega almennilegur og ég get svarið það að ég fann votta fyrir trausti hjá mér. Hrottarnir játa að slagsmál hafi átt sér stað og málið fer væntanlega fyrir rétt í sumar. Ég er hinsvegar hrædd um að þeir fái sýndardóm, þar sem það er ekki á hreinu hvor þeirra (eða hvort það voru þeir báðir) sparkaði í andlitið á honum. Þessvegna erum við að leita að fleiri vitnum. Ég lét lögguna vita af því að ég ætlaði að auglýsa eftir vitnum á facebook og sá sem ég talaði við áleit það vera góða hugmynd. Ég vona bara að komi eitthvað út úr því.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina