Jákvætt hugarfar

Hugsanir hafa áhrif. Maður dregur til sín það sem maður er uppteknastur af. Þótt síkritið fari út í bull um leið og einhver ætlar að moka inn milljónum á því að spila á trúgirni og óskhyggju fólks, skal ég manna fyrst taka undir það að hugurinn hefur vissulega áhrif og að jákvætt hugarfar ræður úrslitum um hamingju okkar.

Hinsvegar held ég reginmisskilningur ríki um þetta fyrirbæri jákvæðni. Ég þekki fólk sem lætur eins og vandamál séu ekki til af því að þau hljóti að versna ef maður hugsar um þau og ég veit m.a.s. dæmi þess að fólk þori ekki að hlusta á fréttir af því að það óttast svo mikið að slæmar hugsanir dragi að hverskyns ógæfu. Hvílíkt bull.

Að loka augunum fyrir því sem er að gerast í kringum mann á ekkert skylt við jákvætt hugarfar. Að rembast við að brosa eins og auli þegar ekkert er til að brosa að, á ekkert skylt við bjartsýni.

Jákvætt hugarfar merkir:
-að horfast í augu við stöðuna eins og hún er,
-nýta sér reiði, sorg og hneykslun til að gera það sem mögulegt er til að bæta hana,
-fyrirgefa sjálfum sér og öðrum fyrir að mistakast
-leggja vandamálið til hliðar og horfa á alla hina hundraðþúsundskrilljón hlutina sem hægt er að gleðjast yfir
-reyna aftur.

Jákvætt hugarfar merkir ekki að loka augunum fyrir erfiðleikum, heldur að opna þau og horfa á alla möguleikana sem við höfum til að takast á við þá.

Best er að deila með því að afrita slóðina