Ég skil son minn hinn mannfælnari svosem vel að vilja vera út af fyrir sig. Ég vil fá hann út til Danmerkur en ég skil svosem hans rök fyrir að vilja það ekki. Ég skil hinsvegar ekki í öðrum eins ruslasafnara að vera tilbúinn til að greiða morð og milljón fyrir afnot af húsnæði sem er á stærð við fataskáp.
Það hvarflaði að mér að hrista drenginn og sleppa mér við leigusalann en ‘hann litli minn’ á víst að teljast fullorðinn og það eina ekki mjög dónalega sem mér datt í hug að segja þegar ég sá skonsuna var:
-Já en hvar ætlarðu þá að hafa dótið þitt?
Ég er ekkert sérstaklega smámunasöm en mér finnst gróft að leigja út rými sem á pappírunum er ‘tveggja herbergja íbúð, 20 fermetrar’, þegar tommustokkur sýnir rétt rúma 13 fermetra.
-Hann ýkir stærðina um 50% svo mér finnst bara réttlátt að hann lækki leiguna sem því nemur, bara ákveðin upphæð á fermetrann sagði ég en sonur minn leigjandinn setti bara í brýn og urraði.
Mikið ofboðslega langar mig að stjórna lífi sona minna.