Þegar við mætum sitja þær á kaffistofunni og spjalla um daginn og veginn. Drekka morgunkaffið. Engin þeirra gefur til kynna að neitt óvenjulegt hafi gerst. Hulla opnar dagbókina. ‘Nú, er Lisbet dáin’ segir hún hljóðlega, það er staðhæfing frekar en spurning og hvorki undrun né sorg í röddinni.
Mér bregður ekki. Hef átt von á þessu í nokkrar vikur. Og hinar staðfesta, jú einmitt, hún dó í fyrrnótt, verður grafin á laugardag. Nei það kom ekkert fyrir. Hún lifði í 95 ár, og svo bara dó hún. Svo halda þær áfram fyrri samræðum og sér ekki merki um áfall eða sorg á nokkurri þeirra. Heimilisfólkið er heldur ekki í neinu uppnámi. Mætir að morgunverðarborðinu án þess að nefna Lísu einu orði og þegar ég kveð laust eftir hádegi hefur enginn nefnt hana ennþá.
Eru þá samstarfskonur mínar kaldlyndar? Konurnar sem klæddu hana og böðuðu, skiptu um umbúðir á fótsárunum, hlustuðu á ævisöguna hennar, dáðust að handavinnunni hennar, vöktu yfir henni veikri. Eru íbúarnir sem sátu til borðs með henni í hádeginu og sýndu henni samúð þegar hún fékk gallsteinakast kaldlyndir? Varla. Það er ekki af því að hún sé gleymd sem þau standa ekki á orgunum af harmi. Það er ekki af því að öllum hafi verið sama um hana. Og hún var oft þreytt en ekki svo þjáð að dauði hennar hafi létta fargi af neinum. Það er bara af því að á elliheimili er dauðinn hluti af norminu. Fólk deyr og það er ekkert meira um það að segja. Það er ekki áfall, ekki harmrænn atburður, bara örlög sem verða ekki umflúin.
Þegar ættingi eða vinur deyr, sýpur fólk hveljur yfir tilfinningaleysi mínu. Mér hefur verið ráðlagt að leita til geðlæknis vegna þeirrar persónuleikaröskunar að æsa mig ekki yfir dauðanum. Það þykir bera vott um að ég sé verulega ‘skemmd’ þegar ég, sem þó græt þar til ég æli yfir hlutum sem ég hefði kannski getað haft áhrif á, sýni engin sérstök viðbrögð við dauðanum.
Af þessu má ráða:
-Starfsfólk sjúkrastofnana, hermenn og aðrir sem venjast dauðanum er allt saman stórskemmt lið.
Eða
-Það er eitthvað bogið við samfélag sem fellir dóma yfir þeim sem sætta sig við dauðann.