Glæpapakk

Ég hef sofið óvært nokkuð lengi en held svei mér þá að ég sé búin að finna lausn. Ég fékk lánaða sæng sem er ætluð taugaveikluðu og órólegu fólki. Ég sá svona sæng fyrst á elliheimilinu hjá konu sem er mjög ör og óróleg en hefur sofið betur eftir að hún fékk sængina.

Ég hafði ekkert sérstaka trú á að þetta ráð kæmi mér að notum en ákvað samt að prófa það áður en ég færi út í svefnlyfjaát. Ég hef bara notað hana í 3 nætur en þessar nætur hef ég allavega steinsofið.

Áhrifin af því að nota svona sæng eru einna líkust því að einhver haldi laust utan um mann. Sængin leggst ekki svo þétt að manni að hún hefti hreyfingar en fyrirstaðan er samt það mikil að ég hef ekki hrokkið upp við skjálftann og taugakippina í sjálfri mér. Þetta er ekki mjúk og notaleg sæng til að kúra með uppi í sófa og ég mun aldrei skipta henni út fyrir dúnsængina mína en ég er viss um að fullt af lítt biluðu fólki sem þarf svefnlyf eða róandi lyf tímabundið, sem vantar snertingu eða á erfitt með að þola mannlega snertingu, sem gæti haft gang af því að eiga svona sæng til að grípa til þegar það er undir álagi.

Þótt svona sængur gætu vel selst á almennum markaði, eru þær eingöngu í boði hjá hjálpartækjamiðstöðvum fyrir veika, fatlaða og geðsjúka. Sængin er hvorki dýr né flókin í framleiðslu. Þetta er einfaldlega poki með plastyfirborði fylltur af einangrunarplastkúlum, en af því að það er auðvelt að okra á fólki með sérþarfir, kostar svona sæng litlar 6000 danskar krónur! Það er algengt leiguverð fyrir 3ja herbergja íbúð í stærri bæjum á landsbyggðinni.

Svo hér er hugmynd sem ég hvet alla sem sofa órótt til að stela og stæla. Hálffyllið grisjupoka af einangunarplastkúlum og saumið fyrir. Þeir sem svitna mjög mikið og/eða pissa undir þurfa kannski fremur dýrt plastefni en það er samt útilokað að verðið nálgist þá glæpaálagningu sem hjálpartækjaframleiðendur ástunda, eingöngu af því að viðskiptavinir þeirra geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Glæpapakk

 1. ———————-

  Athyglisvert! Hvað eru einangrunarplastkúlurnar stórar? Er kannski bara ein stærð. Og hvar skyldi maður fá grisjupoka í sængurstærð? Og hva – setur maður svo sængurver utanum allt ? Eða dettur þá effektinn út? Ég bara verð að prófa þetta.

  Posted by: Hulda | 6.12.2009 | 0:54:43

  ———————-

  Ég á við svona dúk eins og er notaður í kartöflugarða, bara af því að hann kostar nánast ekkert. Það má alveg eins nota gamalt sængurver eða annað efni. Svo færðu þér eitthvað dýrara þegar þú ert búin að finna út hvort þetta hentar þér. Þú hólfar sængina niður á sama hátt og dúnsæng þannig að kúlurnar lendi ekki allar í einu horninu og það er hæfilegt að fylla pokann til hálfs.

  Ég er með þessar venjulegu einangurnarplastkúlur sem eru notaðar í húsaeinangrun og ‘hrúgöld’ sem eru til á mörgum íslenskum heimilum, fengust einhverntíma í Rúmfatalagernum held ég. Mér skilst samt að það séu líka til svona sængur með mun stærri kúlum en veit ekki hvort þær eiga að virka eitthvað öðruvísi.

  Posted by: Eva | 6.12.2009 | 13:13:30

  ———————-

  Já, bara venjulegt sængurver utan um. Sumir segja að þessar sængur séu ekki nógu hlýjar. Ég myndi þá bara fóðra hana með ódýru flísefni.

  Posted by: Eva | 6.12.2009 | 13:16:28

  ———————-

  Takk!

  Posted by: Hulda | 6.12.2009 | 15:24:00

Lokað er á athugasemdir.