Kjellingar eru konum verstar

Ég vinn á kjellingavinnustað. Við sem vinnum við aðhlynningu erum 12-15 á vakt daglega og á hverjum einasta degi tilkynnir einhver kjellinganna veikindaforföll. Skjólstæðingarnir sem flestir eru á aldrinum 85-95 ára, eru hinsvegar ekkert veikir. Reyndar hefur einn af þessum 26 verið nokkra daga í rúminu síðasta mánuðinn auk þess sem einn beinbotnaði.

Ég vil gjarnan taka aukavinnu. Ég hefði ekki áhuga á því að vinna mikla yfirvinnu árum saman en þau tímabil koma í lífi mínu sem það hentar mér að vinna mikið og eitt slíkra tímabila er einmitt núna. Maður hefði haldið að þar sem stöðug vandræði eru vegna veikindaforfalla, væri fengur í starfkrafti sem sækist eftir aukavinnu og er ekki bundinn af börnum, maka, félagsstarfi eða neinu öðru enda eru yfirmennirnir dauðfegnir að geta hringt í mig. Af einhverjum ástæðum fer það þó ógurlega í taugarnar á nokkrum kjellingum að sjá mig skráða á aukavakt og ég held að það sé ekkert persónulegt því þær fylgjast líka með yfirvinnu annarra sem á annað borð vilja aukavaktir.

Enda þótt þær sem vinna mest með mér hafi lýst yfir sérstakri ánægju með mig, líður varla dagur án þess að einhver gefi til kynna að það sé eitthvað stórkostlega athugavert við það að ég skuli fúslega mæta með litlum fyrirvara. Ég er að verða frekar leið á athugasemdum um að ég líti þreytulega út þótt það sé helbert kjaftæði (ég fæ nógan svefn og lít alltaf þreytulega út ómáluð hvort sem ég er í vinnu eða fríi) og uppgerðar áhyggjusvip kjellinga sem er skítsama um mig en setja innsogið á athugasemdir um að ég verði nú að gæta þess að ganga ekki fram af mér (eftir 46 stunda vinnuviku). Ég hef ég oft búið við meira álag án þess að það hafi verið neitt vandamál og ekki hef ég kvartað, hvað þá að ég hafi orðið veik.

Í gær fékk ég þá skýringu á þessu tuði að ég væri að vinna á móti verkalýðsfélaginu með því að virða ekki hvíldartíma. Það er ekkert í samningum sem bannar yfirvinnu, heldur eru einmitt ákvæði um að fólki sé frjálst að afþakka yfirvinnu en ef það fái ekki lögboðinn hvíldartíma eigi að koma álagsgreiðsla fyrir. Ég svaraði því til að ég sæi ekki hvernig það ætti að vinna gegn verkalýðsfélaginu að nýta ákvæði í samningum þess. Þá var þetta allt í einu farið að snúast um skjólstæðingana. Andlega þreytt fólk gæti ekki sinnt heilabiluðum almennilega. Ég get skilið það sjónarmið en tel mig fullfæra um að meta ástand mitt og fyrir mig er allavega minna álag að taka langar vaktir og fá góð frí á milli en að taka 6 tíma vakt daglega. Auk þess er nákvæmlega ekkert í mínum vinnubrögðum sem bendir til þess að ég sé að sligast af andlegu álagi. Ég hef aldrei færst undan því að sinna einhverjum eða gert það með hangandi hendi eða fýlu. Ég er ekki þessi týpa sem gegnur um stynjandi af armæðu. Samt var þetta allt ómögulegt og ég átti bara að neita að taka aukavaktir.

Þær hinar sömu kerlingar kvarta stöðugt um álag. Þær hafa ekki tíma til að sinna þrifum þótt þær taki stundum tvo tíma af 8 tíma vakt í pásur (meira ef þær reykja) og það virðist alveg útlokað fyrir stjórnendurna að taka ákvörðun sem fellur í kramið. Þær vilja ekki forfallastarfsmenn (þ.e. fólk sem ferðast á milli staða og vinnur þar sem þörf er á hverju sinni). Það er voðalega mikið álag fyrir þær að fá inn afleysingafólk og þær vilja helst ekki sjá ófaglært fólk eða nema. Þær vilja heldur ekki taka aukavaktir og ef maður spyr hvernig þær ætlist eiginlega til að yfirmennirnir bregðist við forföllum, þá er það bara ekki þeirra vandamál.

Ein þeirra sem sá ástæðu til að agnúast út í mig í gær sagði að sumarfrí kæmu náttúrulega ekki í bakið á stjórnendum. Það er út af fyrir sig rétt en engu að síður er óraunhft að fá menntað starfsfólk með góða reynslu sem er tilbúið til að ráða sig eingöngu upp á sumarafleysingar. Ég benti henni á að auk þess væri varla eðlilegt að á svona litlum vinnustað kæmu upp heilsufarsvandamál á hverjum einasta degi og að það væri varla sanngjarnt af fólki sem tilkynnir veikindi oft í hverjum mánuði að krefjast þess bæði að staðurinn sé vel mannaður og einnig að enginn vinni yfirvinnu. Því var svarað með hreint út sagt dásamlegum rökum:

-Af hverju heldurðu eiginlega að sé svona mikið um veikindi? Jú, það er af því að þær sem leggja einhvern metnað í starfið verða stressaðar og niðurdregnar af því að vinna undir svona miklu álagi.
-Ég held að þið séuð alveg jafn stressaðar og ungu stelpurnar sem eru alltaf veikar á mánudögum, sagði ég, og hef væntanlega bakað mér meiri óvinsældir en um getur í sögu heimilisins.

Á elliheimilinu okkar býr fólk á tíræðisaldri. Fólk sem er alveg klárt í kollinum en býr með snældurugluðum einstaklingum án þess að hafa neitt um það að segja. Fólk sem fær aldrei heilan frídag frá geðveiku fólki og heilabiluðu. Ekkert þessara gamalmenna hefur lagst í rúmið af stressi. Einu veikindin sem hrjá þessar kjellingar sem ég vinn með eru leti, sjúkleg nöldurgirni og ánægja af því að velta sér upp úr vömmum og skömmum náungans. Ef möguleiki er að finna eitthvað að einhverju, þá er æsa þær dramatíkina upp hver í annarri að því marki að það hlýtur að teljast einstök hreysti að geta setið undir því daglega án þess að kasta upp af geðbólgu. Forstöðukonan er ekkert fullkomin. Hún gerir mistök eins og aðrir og þyrfti helst að leggja meira upp úr góðu skipulagi en hún er ágætis manneskja sem gerir kannski fyrst og fremst þau mistök að reyna of mikið til að gera þessum geðillskugagghænum til hæfis.

Ef karlar eru ofbeldismenn og klámhundar, þá eru kjellingar sjálfhverfar og ábyrgðarlausar. Það er samt ekki rétt að konur séu konum verstar. Þessi sérstaka tegund kvenna; þær sem hafa allt á hornum sér, vilja öllu stjórna án þess að taka ábyrgð á neinu og gera sér upp veikindi þegar þær eru í fýlu; þessar dæmigerðu kjellingar þær eru hinsvegar konum verstar. Og sjálfum sér.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Kjellingar eru konum verstar

 1. ——————————————-

  Hahah, Eva, þetta er yndisleg færsla. Allir hafa hitt þessar kellingar og flestir hafa unnið með þeim. Sjitturinn.

  Posted by: Hildur | 9.07.2009 | 10:50:46

  ——————————————-

  Hvað ég þekki þetta frá mínum sokkabandsárum. Fæ alveg kaldan hroll niður bakið.

  Posted by: Harpa J | 9.07.2009 | 14:23:41

  ——————————————-

  Sammála. Kellingar (af báðum kynjum) eru fokk boring fólk.

  Fólk verður svona þegar það er óánægt með sjálft sig og meikar ekki að feisa það sem að er.

  Posted by: anna | 9.07.2009 | 15:08:38

  ——————————————-

  Dæmigerður Íslendingur sem vill vinna mikið og meira. Þegar ég vann erlendis vildi ég einmitt yfirvinnu og áttaði mig ekki á því að það var yfir 90% skattur á yfirvinnunni. Ég myndi athuga þetta ef ég væri þú!
  Við erum svo vön þrældómi og kunnum ekki að njóta frístunda. Ég leyfi mér að benda á
  http://workaholics-anonymous.org
  Mér finnst pistlarnir þínir góðir en við Íslendingar hreykjum okkur alltof mikið af vinnuseminni sem er löngu komin útí ánauð.

  Posted by: Rósa | 9.07.2009 | 16:44:49

  ——————————————-

  Ég er enginn vinnualki og finnst vinnurembingur Íslendinga ekkert til fyrirmyndar. Ég hef hinsvegar engar tekjur haft á þessu ári (fæ útborgað í fyrsta sinn á morgun)og vil gjarnan bæta stöðuna hið snarasta. Ég sé ekki að þessum kjellingum komi það neitt við hvort sú sem leysir þær af í öllum þessum veikindum vinnur 28 tíma á viku eða 56 en auk þess er óheiðarlegt að ráða sig í vinnu og finna sér svo afsakanir til að taka sér veikindafrí 6 daga í mánuði. Fólk sem treystir sér ekki í vinnu ef það er stressað á bara að láta skrá sig sem félagslega öryrkja. Í Danmörk fær fólk í þeirri stöðu alveg að vinna en vinnuveitandinn má ekki treysta á það, heldur á hann að líta á það sem sjálfboðaliða. Myndi hæfa nokkrum kjellingum á mínum vinnustað vel.

  Posted by: Eva | 9.07.2009 | 22:03:40

  ——————————————-

  Er alltaf að hugsa um „Litlu stúlkuna með ljúfu augun og ljósu flétturnar tvær“ – hvað er emailið þitt?

  Posted by: G | 10.07.2009 | 1:19:06

  ——————————————-

  Er sammála Önnu hér fyrir ofan, búin að vera búsett í DK síðan 94, og þurfti að venja mig af að vilja þræla mér út. Hitt er svo annað mál að svona vinnustaðir eru óþolandi og ég held að það eru tveir megin þættir sem valda því. Fyrst misskipting kynjanna og svo staðnaður stofnana kúltúr. Fólk verður samdauna stofnuninni og hættir að sjá hlutina frá öðrum hliðum. Há fjarvera vegna veikinda er oft verkfæri sem starfsmenn nota til að „refsa“ yfirmönnum og kollegum fyrir „lélega“ meðferð. Þetta á sérstaklega við í umönnun á eldra fólki, þessi geiri er svo aftarlega í forgangsröðinni hvað varðar fjárveitingar, (enda ekkert að hægt að græða á svona starfsemi)að það er oft á tíðum voða lítið hægt að gera, þótt að viljinn sé fyrir hendi. Þaraðauki hangir mýtan um að konur eru „náttúrlega“ til þess fallnar að sjá um umönnunarstörf eins og blautt ullarteppi yfir þessum geira og gerir það erfiðara að gera eitthvað í þessum málum. Rökin eru að konur eru sögulega séð vanar þessu og þurfa þarfaleiðandi ekkert almennileg laun eða starfsaðstöðu. Og síðan er veðjað á að kellingarnar redda öllu mögulegu án þess að fá laun fyrir, út af samúðarkendinni miklu sem er öllum konum meðfædd… Þetta er svona í öllum umönnunargeiranum, sama hvort um er að ræða börn, aldraða eða fatlaða.

  Posted by: Yasmín | 10.07.2009 | 9:28:47

  ——————————————-

  Aldrei hef ég skilið fólk sem vill þræla sér út. Er ekki markmiðið yfirleitt annað en að vinna vinnunnar vegna? T.d. að ná inn hærri tekjum eða fá stöðuhækkun? Ekki dytti mér allavega í hug að vera í vinnu ef ég yrði skyndilega rík.

  Posted by: Eva | 10.07.2009 | 12:24:12

  ——————————————-

  já, maður kannast við týpurnar í þessum pistli, en veikindaréttur hlýtur að vera öllu ríflegri í Danmörku en hér á landi, miðað við 6 daga í mánuði.

  Posted by: baun | 10.07.2009 | 19:08:04

  ——————————————-

  Það er svona samfélag sem sterk stéttarfélög móta.

  Ekki lengur pláss fyrir sense, sem þal. er ekki lengur common.

  Posted by: O | 11.07.2009 | 7:35:11

  ——————————————-

  Veikindaréttur er reyndar ekki svona ríflegur en mér skilst að sé auðveldara að fá sjúkradagpeninga hér en á Íslandi. Annað sem eflaust spilar inn í er að einn flötur á kjellingaheilkenninu er það viðhorf að það sé allt í lagi fyrir giftar konur að vera aumingjar.

  Ég gleymi seint fundi um kjaramál kennara sem ég sat fyrir nokkrum árum. Þar var mikil stemning fyrir verkfalli og talið líklegt að það gæti staðið í margar vikur. Ég lýsti áhyggjum mínum af því að árangurinn af verkfalli myndi ekki ná því að bæta upp tekjutapið á meðan á verkfallinu stæði (fyrir nú utan aðrar afleiðingar sem bitna á öllum öðrum en vinnuveitandanum) og ein kjellinganna svaraði: Ég skil að það sé kannski erfitt fyrir þig og einhverjar fleiri en flestar okkar eiga nú menn.’ Þar með var semsagt allt í lagi að æða í hálfhugsað verkfall. Einhverjir karlar áttu bara að taka afleiðingunum. Afsakið mig meðan ég æli.

  Posted by: Eva | 11.07.2009 | 14:56:28

  ——————————————-

  O, ég er sammála þér. Stéttafélög voru á sínum tíma frábærar baráttuhreyfingar. Í dag byggja stéttafélög ekki á almennri upplýsingu, virkni og samstöðu, heldur á miðstýringu nokkurra manna sem sjá um að hugsa og framkvæma fyrir jarmandi hjörðina.

  Posted by: Eva | 11.07.2009 | 15:04:17

  ——————————————-

  svona hegðun fer gríðarlega í taugarnar á mér líka, og ég þoli ekki fólk sem heldur að það eigi „rétt“ á því að „taka sér veikindafrí“ í hverjum mánuði, óháð heilsufari. vinn því miður með nákvæmlega svona kellingarbeyglu, sem lætur regluleg „veikindi“ sín bitna á öðrum án þess að blikna (við verðum jú að bjarga því sem bjargað verður þegar hún mætir ekki). hún spilar algerlega á það að „taka sér“ eins mikið og hún kemst upp með. og þökk sé stéttarfélögunum – það er ekki hægt að reka vanhæft fólk.

  Posted by: baun | 11.07.2009 | 16:26:14

  ——————————————-

  Frelsi er jafn vandmeðfarið og miðstýring.

  Ég kynntist þeirri hlið Danmerkur einna best eftir að hafa flutt þaðan eftir áralanga búsetu.

Lokað er á athugasemdir.