Aðdragandi

Í gær fór ég allt í einu að hugsa um hvernig það væri að kyssa þig.
Sem er óvenjulegt, því yfirleitt lít ég á það sem rosalega alvarlegan hlut að kyssa. Miklu alvarlegri en að skiptast á líkamsvessum. Og hvað mig og þig varðar þá held ég að það yrði ekki, tja beinlínis alvarlegt, eða þannig séð… já, svo jafnvel þótt við …já…, sem væri alls ekki viðeigandi og stendur ekki til, þá myndum við nú varla ganga svo langt að kyssast. Held ég.

En já, ég hugsaði semsagt um það, hvernig það væri og hugsaði með mér að það yrði mjúkur varakoss og lokaður í fyrstu. Langur, hægur koss, svo hægur að maður greindi varla augnablikið þegar tvær tungur snertast og hugsunin verður bómullarkennd og maður er ekki lengur manneskja að kyssa aðra manneskju, heldur er maður einn koss sem tvær mannverur hanga utan í, eins og af tilviljun.

Og skrýtið að vita, að skynja að þig langar að kyssa mig en kannt ekki við að gefa mér undir fótinn. Enda væri það ekki viðeigandi, og ég yfirlýstur aðdáandi hagkvæmnishjónabanda, frábitin girndarráði með öllu og þú svona eins og þú ert. Það bara væri ekki praktískt af okkur að kyssast. Og náttúrulega ekki viðeigandi heldur.

En einhvernveginn, faðmar mig samt ögn innilegar í hvert sinn sem við hittumst. Ögn lengur í einu. Ögn þéttar. Stundum tvisvar. Horfir eilítið lengur í augu mín í hvert sinn og símaröddin verður pínuponkulítið mýkri og sætari með hverjum degi. Og kveðjukossinn sem þú smelltir sem snöggvast á vanga minn fyrir tíu dögum, hann lenti ofur rólega á vörum mínum í dag.

Og ég, sem hef kallað þig bróður og kyssi ekki börn mín, foreldra eða systkini á munninn, einhvernveginn fannst mér það ekki eins óviðeigandi og maður hefði haldið.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Aðdragandi

  1. —————————————-

    Alltaf ertu jafn flott kona. Ég er að spá í að kíkja í nornabúðina og athuga hvort þú eigir ekki eitthvað til sem lætur þig falla fyrir mér 🙂

    Posted by: hafþór skúlason | 18.01.2009 | 19:46:51

    —————————————-

    Ég er hrædd um að þú verðir að hafa eitthvað sjálfur til þess að svo megi verða 🙂

    Posted by: Eva | 18.01.2009 | 21:13:44

    —————————————-

    Ertu að segja að maður þurfi líka að vera góður í rúminu???

    Posted by: hafþór skúlason | 19.01.2009 | 19:20:46

    —————————————-

    Ég sagði það reyndar ekki, en það er samt ansi góð hugmynd hjá þér.

    Posted by: Eva | 20.01.2009 | 1:45:29

    —————————————-

    Sé til hvað ég get galdrað fram 🙂

    Posted by: Hafþór Skúlason | 21.01.2009 | 0:36:33

Lokað er á athugasemdir.