Enn einn fyrirlestur um hamingjuna

Hamingjan byggist á 4 undirstöðum: veraldlegu öryggi (ekki ofgnótt), góðri heilsu (ekki þar með sagt að maður þurfi að vera afreksmaður í íþróttum eða efni í fyrirsætu), tilfinningalegu öryggi (ekki rómantískri ást) og tækifærum til að sinna reglulega einhverju sem maður hefur áhuga á og gefur manni egóbúst.

Sjálfsagt er fátítt að fólk sé alltaf ánægt en sá sem hefur þetta allt þarf sjaldan að upplifa daga sem eru bara ömurlegir. Hamingjan kostar þá litla fyrirhöfn sem hlakka til að vakna á morgnana.

Ef eitthvað af þessu vantar þarf flest fólk virkilega að leggja sig fram til að vera ánægt, það kemur ekki af sjálfu sér. Einn þáttur getur ekki bætt annan upp. Fimmtán jeppar koma ekki í staðinn fyrir góða heilsu og skemmtilegasta starf í heimi dregur ekkert úr þörf mannsins fyrir ást og fjölskyldutengsl.

Í augnablikinu hef ég þetta allt. Í fyrsta sinn síðan ég var of ung til að skilja orð eins og egóbúst og veraldlegt öryggi, hef ég haft þetta allt í meira en sex mánuði samfleytt. Veit að það er ekkert gefið að neitt af þessu sé varanlegt en hef ekki áhyggjur. Hafi maður náð því einu sinni getur maður örugglega náð því aftur.

Málið er að ég er farin að teygja þarfapýramídann út í stað þess að fikra mig upp. Ég sé ekki það sem er fyrir ofan. Það eina sem mér dettur í hug að mig vanti er meira af því sama. Mig langar í verðbréf, flottan rass og sterk lungu, vil skrifa meira. Mig vantar ekki sambýling en ég vil að Elías haldi áfram að afneita því að fyrr eða síðar verði löngun hans til að fjölga mannkyninu sterkari en löngun hans til að vera hjá mér.

Best er að deila með því að afrita slóðina