Góðra manna ráð

Það er alveg saman hvort reksturinn gengur vel eða illa, alltaf er fólk jafn boðið og búið að gefa mér góð ráð. Bæði nánustu vinir og bláókunnugir viðskiptavinir eru svoleiðis með það á hreinu hvað þarf til að gera Nornabúðina að heimsveldi að ég skil bara ekkert í því að þetta ágæta fólk skuli ekki vera löngu búið að stofna fjölþjóðlega verslunarsamsteypu sjálft, í stað þess að færa mér leyndarmál góðs verslunarreksturs á silfurfati. Ég gæti skilið það ef ég væri þekkt fyrir ósjálfstæði og bjargarleysi, hefði ekkert hugmyndaflug, bæri mig illa eða hefði enga sem ég gæti leitað til. Ekkert af þessu á við en sat er ólíklegasta fólk alltaf boðið og búið að sjá um að hugsa fyrir mig.

Reyndar er tvennt sem allt þetta fólk, sem veit upp á hár hvernig á að reka búðina mína, á sameiginlegt.
a) það á engra hagsmuna að gæta, þarf hvorki að leggja fram vinnu né peninga til að framkvæma allar þessar frábæru hugmyndir sínar.
b) það hefur aldrei komið nálægt fyrirtækjarekstri sjálft.

Reyndar þekki ég einn mann sem hefur staðið í reksti sjálfur sem hefur hvað eftir annað boðið fram aðstoð sína við hugmyndavinnu og markaðssetningu. Sá hefur sett hvert einasta fyrirtæki sem hann hefur rekið á hausinn og komið fjölda manns í fjárhagsvandræði svo hann veit auðvitað heilmikið um það hvernig á ekki að gera þetta.

Ég þekki enga stórbokka en ég þekki nokkra sem hafa staðið í smárekstri. Af einhverjum dularfullum ástæðum hefur það fólk aldrei gefið mér ráðleggingar nema þegar ég bið um þær. Já, merkilegt nokk, ég á það reyndar til að biðja um upplýsingar og góð ráð og spyrja fólk álits áður en ég tek ákvörðun. Reyndar geri ég það alltaf áður en ég tek mikilvægar ákvarðanir en ég er náttúrulega svo hrokafull að spyrja aðeins fólk sem er vel stætt hvernig eigi að fara með peninga og fólk sem á vel upp alin börn hvernig best sé að taka á uppeldismálum. Að sama skapi spyr ég eingöngu þá sem hafa sjálfir rekið fyrirtæki með all góðum árangri, álits á því hvernig ég eigi að reka búðina.

Svo undarlegt sem það nú er, þá er töluverður munur á ráðgjöf þeirra sem eru sjálfir vanir rekstri og þeirra sem hafa þessa náðargáfu og þurfa ekki að æfa sig til að átta sig á muninum á góðri hugmynd og slæmri. Þeir sem eru vanir rekstri hafa venjulega spurt vingjarnlega hvernig gangi, sagt að mér sé hjartanlega velkomið að leita til þeirra ef ég vilji og látið þar við sitja þar til ég hef samband sjálf. Þegar ég hef samband hefur það svo komið með ráðleggingar sem virðast miklu fremur útheimta þekkingu og reynslu en hugmyndaauðgi. Afi Bjarni hefur t.d. aldrei haft skoðun á því hvort ég eigi frekar að leggja áherslu á wicca-galdur eða afrískan en hann hefur hinsvegar útskýrt fyrir mér nokkrar reglur sem tengjast markaðsfræði, bent mér á fólk og fyrirtæki sem ég get leitað til og lánað mér lesefni. Fólk sem er sjálft í verslunarrekstri hefur gefið mér praktískar upplýsingar varðandi markaðsmál og sölumennsku. Það veit talar líka meira um það hvernig ég eigi að fara að hlutunum heldur hvaða ákvarðanir ég ætti að taka. Það hefur t.d. ekki mjög sterkar skoðanir á því hvaða vörur sé best að bjóða til sölu, en getur oft sagt mér hvar sé hagstæðast að kaupa það sem ég vil taka inn. Svo hefur það, í öllum tilvikum látið mig um að ákveða hvað ég geri við þessar ráðleggingar.

Hér er ókeypis ráð handa öllum sem eru að byrja í rekstri eða hafa áhuga á að fara út í rekstur:

Þeir sem raunverulega geta og hafa áhuga á að hjálpa ykkur munu segja eitthvað sem felur í sér skilaboðin ég skal hjálpa þér. T.d. Hafðu samband ef þú þarft að láta prenta eitthvað. Ég get lánað þér lesefni um gerð viðskiptaáætlana eða á ég að tala við Badda blaðamann fyrir þig?

Þeir sem ekki geta hjálpað segja eitthvað sem felur í sér skilaboðin ég skal segja þér hvað þú átt að gera en þú situr uppi með ábyrgðina.

Best er að deila með því að afrita slóðina