Það er erfitt að ríða í heilbrynju

Einu sinni furðaði Keli sig á því hvað ég ætti miklu auðveldara með að treysta ókunnugum en ástvinum mínum. Ég sagði honum að það væri nú ekkert skrýtið. Þeir einu sem hefðu farið illa með mig væri fólk sem ég þekkti og treysti. Þótt staðhæfingin beri óneitanlega keim af kaldhæðni er sannleikskjarni í henni fólginn.

Um leið og maður treystir einhverjum, gefur maður honum ákveðið vald. Að treysta einhverjum merkir að maður gefur honum vald til að særa sig, svíkja eða bregðast á annan hátt og reiknar með að hann bregðist ekki. Svo skjátlast manni yfirleitt og því fylgir botnlaus sársauki. Maður vill ekki lenda í því aftur. Hvað þá aftur og aftur og aftur. Þannig að maður hættir að reikna með því að fólk standi undir því trausti sem maður sýnir því. Verður skeptískur. Kaldhæðinn. Jájá líka bitur, það þykir bara ekki töff að ræða það.

Það er skelfileg tilfinning að hafa gefið einhverjum vald til að særa sig en eiga bágt með að trúa að hann muni ekki nota það. Eins og að búa á jarðskjálftasvæði. Og ekki er skárra að elska einhvern sem reiknar alveg eins með því að maður stingi hann í bakið. Það er erfiðleikum bundið að elskast í heilbrynju. Hvað þá ef maður lika með sverð í annarri hendi og skjöld í hinni. Næsta ómögulegt ef viðfang ástleitni manns neitar að koma út úr skriðdrekanum í þokkabót.

Einu sinni hélt ég að heiðarleiki væri lausnin á öllum vandræðagangi í samskiptum fólks. Að ef einhver kæmi heiðarlega fram við mann þá hlyti maður að treysta honum. Sýndu mér vopn þín og verjur og ég skal kasta af mér brynjunni. En það er ekki alveg svona einfalt. Stundum segir hinn aðilinn bara ‘þú fyrst’ og hvað gerir maður þá? Heiðarleiki útheimtir nefnilega líka ákveðið traust. Ef ég felli brynjuna fyrst, hvernig get ég þá vitað að þú stingir mig ekki? Það er ekki við því að búast að sá sem reiknar með því að allt sem hann segi kunni að verða notað gegn honum, segi yfirhöfuð neitt sem skiptir máli.

Hugrekki. Það er kannski lykillinn. Hugrekkið er móðir dyggðanna segir Árni. Hugrekki er í eðli sínu viljinn til að stíga út úr komfortsóninu. Ekki að þora, heldur að láta vaða þegar maður þorir ekki. Og þá fer maður að þora.

Þori ég að treysta þér? Fokk nei, hvers vegna ætti ég að gera það? Þú gætir meitt mig. Ætla ég að bíta í mig hugrekki til að treysta þér samt? Ég veit ekki hvort mig langar það beinlínis en er eitthvað annað í boði? Get ég komið heiðarlega fram við þig ef ég treysti þér ekki? Og hvaða gagn væri að þínum heiðarleika ef ég treysti ekki á hann? Og ef ég kem ekki heiðarlega fram við þig, hversvegna ættir þú þá að treysta mér? Er hægt að byggja samband á einhverju öðru en trausti og heiðarleika? Ást? Ekki ef ástin er ekki annað en það að kjósa návist einhvers. Svoleiðis ást gengur upp milli foreldra og barna eða í hverju því sambandi þar sem hlutverk annars aðilans er að treysta og hins að vernda en samband sem byggist á ástinni einni saman gengur ekki upp á milli jafningja.

Það er tiltölulega auðvelt að treysta einhverjum sem veit ekkert annað en það sem maður segir honum. Öðru máli gegnir um þá sem sjá í gegnum mann, vita hvað stingur og hvað ekki. Við erum farin að þekkjast of vel til að treysta hvort öðru. Það er ekki neikvætt í sjálfu sér, bara hluti af ferlinu. Eins og þegar barn fer að hafa vit á því að hræðast og beinir ótta sínum að allskyns hlutum sem eru ekkert hættulegir. Það er ekki slæmt að óttast en maður þarf að takast á við það svo það verði ekki að vandamáli.

Þegar ég var lítil var ég hrædd við rykló og freyðibað. Hvorttveggja læddist og gat breytt um lögun. Maður vissi ekki við hverju var að búast. Nú er ég bara hrædd við það sem er raunverulega hættulegt. T.d. heimsvaldastefnu og alkóhólisma og hættuna á því að einhver sem skiptir mig máli bregðist mér. Sem betur fer eru ekki margir sem skipta mig svo miklu máli að ég þurfi að vita hvers er að vænta af þeim. Það yrði þokkalega geðbólguvaldandi ástand.

——————————————–

Flottur pistill.

Posted by: Hulda Hákonardóttir | 6.03.2008 | 11:15:14

Best er að deila með því að afrita slóðina