Lofthræðsla

Ég hef aldrei séð þyrlu í návígi áður. Hvað þá stjórnbúnaðinn. Þetta eru varla færri en 60 takkar og mælar. Ég þorna upp í kokinu bara af því að horfa á þá. Trúi ekki því sem ég veit, að þessir hrærivélarspaðar geti lyft svona stóru tæki upp í háloftin. Eðlisfræðin er mun ótrúverðugri en galdur.

-Fyrirgefðu en hvernig fer lofthræddur maður að því að fljúga svona tæki án þess að fá hjartaáfall?
-Ég hef aldrei verið hræddur í flugi, bara við að fara upp í stiga og svoleiðis.
-Þannig að þú ert bara hræddur í fjögurra metra hæð en ekki í 1000 feta hæð?
-Það er náttúrulega ekkert að óttast þegar maður situr inni flugvél eða þyrlu, maður stjórnar bara tækinu.

Maður stjórnar bara tækinu. Bara! Gætir þess bara rétt si svona að þessir 60 takkar eða hvað þeir annars eru margir séu allir rétt stilltir og treystir því að þetta grilljón tonna flykki haldi áfram að gefa skít í þyngdaraflið og hrapi ekki með manni og mús ef honum verður það á að hnerra. Ég er að vísu óvenju hrædd við takka, lærði t.d. ekki á fjarstýringuna á dvd spilaranum fyrr en núna í haust og svitaði í lófunum við það en fjandinn hafi það ef þetta er rökrétt.

Það er kannski skrýtið en ég er svolítið fegin að vera búin að fá það á hreint á hvaða sviði hann er bilaður. Fólk er ekki fólk nema það sé svolítið galið og þetta er allavega klikkun sem ég ræð við. Held ég.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Lofthræðsla

  1. —————————————-

    Sammála honum með flughræðsluna, ég er aldrei hrædd í flugi (gæti vel huxað mér að prufa t.d. fallhlífarstökk og svifflug) … það er tengingin við jörðina sem getur gert út af við mann… huxa að það sé einhversskonar vantraust á sjálfan sig, þ.e. maður treystir sér ekki til að henda sér ekki niður ef staðið er í stiga eða á húsþaki…

    Annað… er hann í júníformi þegar hann er að fljúga? Eða júlíformi? 🙂

    Posted by: Siggadís | 30.10.2007 | 20:15:27

Lokað er á athugasemdir.