Út yfir gröf og dauða

-Geturðu talað við dáið fólk? spurði stúlkan áhugasöm.
-Ég nenni nú ekki einu sinni að tala við lifandi fólk. Af hverju ætti ég að vilja tala við þá sem eru dánir? sagði ég.
-Bara til að gá hvað þeir segja, sagði hún.

Það er þetta sem ég skil ekki. Ég skil alveg syrgjendur sem reyna að ná sambandi við látna ástvini af því þeir eiga erfitt með að sætta sig við fráfallið. Ég skil hinsvegar ekki fólk sem nennir að standa í því að reyna að koma sér upp skyggnigáfu eða mætir á miðilsfundi bara af forvitni. Myndi sama fólk banka upp á hjá ókunnugum nágrönnum bara til að gá hvað þeir segja? Og hvað ættu látnir svosem að segja svona merkilegt? Sagði blessað fólkið kannski eitthvað athyglisvert á meðan það lifði? Eitthvað merkilegra en það sem hægt er að lesa á hverri einustu bloggsíðu landins? Af hverju ætti það þá frekar að segja eitthvað af viti þegar það er dautt? Ef marka má það sem miðlar hafa eftir látnum liggur reyndar beinna við að álykta að dauðinn sé forheimskandi. Flestir vilja aðallega ræða einhverja gamla skartgripi eða stofuskápa og ráðleggja svo eftirlifendum að hugsa vel um heilsuna eða eitthvað álíka. Ég veit allavega að ef ég væri dauð og vildi koma einhverjum skilaboðum áleiðis, myndi ég ekki gera það í gegnum miðil eða andaglas. Ég myndi bara blogga.

Ég verð samt að viðurkenna, þótt ég hafi lítinn áhuga á samskiptum við dauða, að ég gæti vel hugsað mér að heyra í sprelllifandi huldumanni sem virðist álíta að bloggið mitt sé einhver fjandans miðilsfundur. Hættu nú þessum draugagangi yndið mitt því ég veit alveg að þú ert þarna og þessi feluleikur þjónar engum tilgangi. Ég veit að þú ert sár en þú ert ekkert einn um það. Ég nenni hvorki að reyna að koma til þín skilaboðum eftir þessari leið né ganga á eftir þér en mig langar að heyra í þér og það mun ekkert breytast á næstunni. Hafðu bara samband þegar þú ert tilbúinn.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Út yfir gröf og dauða

  1. —————————————-

    Markmið fólks er auðvitað að fá sönnun fyrir því að það sé líf eftir dauðann, ekki að fá einhverja djúpa visku. Ég er hins vegar sammála því að þetta dauða fólk er með eindæmum leiðinlegt.

    Posted by: Þorkell | 30.10.2007 | 6:40:58

Lokað er á athugasemdir.