Ekki bíó

Fólk í Hollywoodmyndum getur grátið fallega. Líka stjórnmálamenn sem þurfa að biðjast afsökunar. Tár blikandi á hvarmi. Fallega, nánast tignarlega. Fínlegar viprur kringum munnvikin vekja þessa viðkvæmnislegu samúð með öllu sem grætur, kannski hlýju, huggunarhvöt eða verndarþrá en ekki tilfinningu um vanmátt og ráðleysi. Grátandinn fellur að öxl huggarans í tilfinningalegri uppgjöf og sefast.

Raunveruleikinn er öðruvísi. Raunveruleikinn er kvein sem á rætur sínar undir þindinni, ofsi, hor og grettur. Ég hef oft séð fullorðið fólk gráta en man ekki eftir neinum sem hefur þegið faðmlag fyrr en mestu geðshræringunni linnir. Raunverulegt fólk snýr sér undan, hniprar sig saman, setur kryppu á bakið og ber fyrir sig handleggi, líkt og til að mynda skel utan um grátkastið. Alvörufólk reynir að fela á sér andlitið þegar það grætur. Raunverulegt fólk grætur andlitsfarðann framan úr sér og verður rautt og þrútið. Svipurinn lýsir ekki feginleik vegna útrásar bældra tilfinninga heldur skömmustu vegna óhemjugangsins.

Raunverulegt fólk verður heldur ekki að hetjum þegar það sér aðra gráta. Það er auðvelt að hugga börn þegar þau detta eða verða hrædd en fullorðið fólk grætur af ástæðum sem maður getur ekki kippt í liðinn með því einu að vera til staðar. Alvörufólk getur orðið ráðvillt og hrætt eða í skársta falli vandræðalegt þegar aðrir gráta og suma langar mest að hlaupa burt. Og jafnvel þótt huggarinn sé sallarólegur er hann ekki endilega með breiða öxl og hann segir ekki nákvæmlega réttu orðin á nákvæmlega réttu augnabliki. Raunverulegur huggari reynir í ráðaleysi að giska á hvað fer fram í höfði þess sem grætur. Hann tautar eitthvað um að allt lagist, strýkur kannski herðar eða klappar á bak og finnur sárlega til vanmáttar síns, fyllist höfnunarkennd þegar vinarbragð hans vekur engin viðbrögð eða jafnvel neikvæð viðbrögð.

Sannleikurinn er sá að í raunveruleikanum er grátur ekki merki um heilbrigði heldur veikleika og í raunveruleikanum er ekkert rómantískt við tilraunir þess sem hefur orðið fyrir tilfinningalegum áföllum til að hegða sér eins og heilbrigð manneskja og mistakast það. Það er enginn bjargvættur sem gerir allt auðvelt, enginn klettur í hafi. Kraftaverkið er í besta falli einhver sem áttar sig á því að mannskepnan er í eðli sínu asnaleg og gerir ekki kröfu um annað. Og reyndar dugar slíkt kraftaverk alveg þótt það væri líklega ekki tilkomumikið á hvíta tjaldinu. Á endanum hættir maður að gráta, einkum ef maður hefur ekki góða ástæðu til þess, jafnvel þótt enginn hafi sagt nein töfraorð, og tekur til við eitthvað uppbyggilegra.

-Vá, sagði hann.
-Mmmm. Ég gæti vanist þessu, sagði ég. Svona þegar ég er hætt að klína hori í rúmfötin, bætti ég við í huganum en var þegar búin að tuða nóg um að þetta yrði ekki alltaf þannig, svo ég sleppti því.
-Já, veistu, ég held að ég gæti það bara líka.

-Langar þig nokkuð að fara?
-Nei. Eiginlega ekki.
-Þú fengir heldur ekkert að fara. Ég ætla að hafa þig hér í alla nótt, sagði hann og vafði sig utan um mig, eins og hann ætlaði aldrei að sleppa af mér takinu.
-Skrýtið. Þótt þetta hafi ekki verið eins og ég hafði hugsað mér, líður mér samt mjög vel.
-Nú hvað hafðirðu hugsað þér?
-Ég ætlaði allavega ekki að fara að grenja. (Fokk í helviti, er ég nú að taka það upp aftur. Af hverju leyfi ég honum ekki gleyma því?)
-Það var nú bara af því að þetta skiptir þig svo miklu máli.
-Það verður náttúrulega bara að vera í lagi héðan af en ég hafði nú samt ekki hugsað mér þetta svona. Ég verð ekki falleg þegar ég græt.
-Þú ert alltaf falleg.
Það er lygi sem ég get lifað við, hugsaði ég en ákvað að vekja ekki athygli hans á því að það væri lygi. Stundum hentar sjálfsblekking annarra mér ágætlega og það var auðvitað hugsanlegt að hann tryði þessari vitleysu sjálfur. Óþarfi að eyðileggja það. Auk þess hef ég líklega verið að fiska eftir viðurkenningu fyrst ég lét í ljósi efasemdir um fegurð mína og það er óþolandi þegar fólk þiggur ekki það sem það sjálft hefur beðið um.

-Ég hafði heldur ekki hugsað mér að byrja á blæðingum í miðjum klíðum.
-Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá er það nú ekki það sem mér finnst standa upp úr.
-Og þótt ég hefði séð hvorttveggja fyrir ætti ég samt ekki að vera svo hallærisleg að biðjast afsökunar á því, sagði ég og áttaði mig um leið á því að ég var farin að biðjast afsökunar á því að biðjast afsökunar á sjálfri mér.

-Kosturinn er sá að þetta getur bara orðið betra, sagði ég öllu borubrattari, velti mér við og settist ofan á hann.
Hann lá kyrr og horfði á mig með þessu íbyggna brosi sem gefur til kynna að hann sé að velta því fyrir sér hversu viðeigandi sé að orða hugsanir sínar. Svo dró hann mig til sín, teygði sig í rofann á náttlampanum og sagði:
-Þú vaknar alltaf snemma á morgnana er það ekki?
Og þótt ljósið væri slökkt leyndi röddin engu af því sem ég hefði annars lesið úr augum hans.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ekki bíó

  1. ————————————————

    grátur með manneskju sem manni þykir vænt um getur verið falleg upplifun og maður ætti ekki skammast sín fyrir að vera mannlegur og breyskur. og skítt með klíndan maskara og rautt nef.

    ég grét með manni sem strauk mér blíðlega um hárið og sagði ekki neitt. og það var gott.

    Posted by: baun | 17.10.2007 | 14:14:41

    ————————————————

    Þú skrifar svo óskaplega fallega.

    Posted by: Kyngimognud | 17.10.2007 | 14:23:29

    ————————————————

    Þetta er með því fallegra sem ég hef lesið.

    Posted by: anna | 17.10.2007 | 15:33:59

    ————————————————

    Takk.

    Posted by: Eva | 17.10.2007 | 18:23:53

Lokað er á athugasemdir.