Sannleikann

-Koníak? spurði Pegasus og þótt koníak hljómi eins og eitthvað virkilega rétt í bland við arineld og klassíska tónlist, verð ég að játa á mig slíkt menningarleysi að þykja koníak í skársta falli innbyrðanlegt sem fylling í konfektmola. Auk þess var ég á bíl og ætlaði ekki að gista.

-Ef þú ert að reyna að fylla mig, get ég sagt þér að það er miklu betra að tantra mig þegar ég er edrú, svaraði ég í véfréttartón. Hann þakkaði upplýsingarnar, hafði á orði að þær gætu komið sér vel upp á seinni tíma og minntist ekki einu orði á áfengi það sem eftir var kvöldsins. Ég fékk hinsvegar kaffi.

Notaleg nærvera, líkt og sálin sé vafin í bómullarlagð en álagahendur nálgast Akkilesarhælinn. Finn Birtuna brölta undir hörundinu. Þarf að rjúfa andartakið til að afstýra slysi.
-Sannleikann eða kontór? segi ég, sposk. Flýgur í hug að ef hann segi kontór ætli ég kannski að segja „viltu koma í sleik?“ eins og ég gerði árangurslaust fyrir 27 árum, bara af því það væri skondið en er samt ekki viss um hvort ég láti vaða ef til þess kemur. Koss er stórmál. Stærra nú en þá. Það reynir heldur ekki á það því hann velur sannleikann og mér tekst að knýja fram játningu á því að síðustu daga hafi hvarflað að honum hugsanir sem ekki geti talist bróðurlegar. Ég vel líka sannleikann. Hann hugsar sig lengi um áður en hann ber sína spurningu fram og ég er næstum viss um að hann er að rifja upp einhverja vefbókarfærslu sem hefur vafist fyrir honum.
-Ertu… hvernig á maður að orða það… kinký?

Ég hugleiði möguleikann á að fylla hann af einhverju bulli, bara til að tékka á því hversu mikið þurfi til að ganga fram af honum. Flestir karlmenn eru nefnilega a.m.k. í orði kveðnu, lygilega umburðarlyndir þegar pervasjónir kvenna eru annars vegar. Ef út í það er farið hef ég kynnst karlmönnum sem þætti það bara sætt ef ég mætti á vinnustaðinn þeirra í hádeginu, íklædd vaðstígvélum og gasgrímu einum fata og heimtaði harðkjarna hýðingu, þótt þeir hinir sömu fái magaverki og kvíðakast ef skelfiorðið skuldbinding liggur í loftinu. Ég ákveð samt að virða leikreglurnar. Þegar allt kemur til alls var það ég sem hóf leikinn og auk þess held ég að ég eigi eftir að fá annað tækifæri til að gera hann orðlausan.

-Ætli það fari ekki eftir því hvað þér finnst kinký. Mér finnst t.d. karlmaður sem vill sleikja eyrun á mér miklu skrýtnari en karl sem vill ganga í netsokkum og hælaháum skóm. Fólk sem er ekki dálítið skrýtið er ekki fólk. Hann kímir. Hann kímir mikið. Mér finnst það sætt.
-Þú getur verið róleg, ég hef enga þörf fyrir að sleikja eyru. Reyndar hef ég enga þörf fyrir netsokka heldur.
-Ég held ekki að mínar pervasjónir gangi neitt fram af þér. Allir hafa einhverjar fantasíur þótt sumir séu of teprulegir til að viðurkenna það en í grunninn er ég alger vanilla,
segi ég og eys svosem eins og tveimur munnsopum úr gnægtabrunni perverskra játninga minna. Ég hef náttúrulega bara lofað að segja sannleikann. Ekki allan sannleikann. Segir maður annars nokkurntíma allan sannleikann?

Gæði stefnumóts má marka af því hvenær eftirrétturinn kemst á dagskrá. Við gleymdum ostinum og vínberjunum.
Lífið er gott.