Hvar er homminn?

Undarleg árátta hjá mannskepnunni að þurfa einlægt að standa í einhverjum uppgjörum við fortíðina. Ég kem norður, einn dag, aðeins einn dag og atvik sem ég er löngu búin að afgreiða hellast yfir mig og vekja áleitnar spurningar. Þetta gerðist líka þegar við hittumst fyrir fimm árum.

Mér finnst dálítið óþægilegt að fá staðfestingu á því hvað við erum ofboðslega fyrirsjáanleg. Enginn í hópnum hefur komið neitt verulega á óvart. Óvenju hátt hlutfall hefur haldið sama maka mjög lengi og er það vel. Ég hefði reiknað með ívið fleiri skilnuðum. Tónlistarmennirnir hafa kannski náð heldur lengra en ég átti von á og ég hefði ekki spáð því þegar ég var á 17. ári að Valla myndi setjast að í útlöndum. Að öðru leyti eru flestir á þeim stað sem maður bjóst við. Bóndinn varð bóndi, hjúkkan hjúkka og flugmaðurinn flugmaður. Þjóðfræðingurinn hefði í flippaðasta falli orðið félagsfræðingur og ég hefði kannski frekar giskað á að kennarinn yrði þroskaþjálfi. Eyþór hefði aldrei orðið neitt annað en Eyþór, sama hverju hann hefði tekið upp á. Ég talaði um að verða lögfræðingur, sá fyrir mér eitthvað í líkingu við Alan Shore. Ég hef aldrei orðið svo flott en ég hef varið töluverðum tíma í að rífa kjaft og kemur það víst engum á óvart.

Það kemur mér á óvart hve fátt kemur á óvart. Ég býst við að hver um sig lifi sína eigin sápuóperu bak við tjöldin en á yfirborðinu er flest eins og við mátti búast. Það eina sem kemur mér virkilega á óvart er að samkynhneigð virðist ekki þrífast í þessum bekk. Allavega hefur enginn „komið út úr skápnum“. Ég man að þegar ég var í MA töluðum við um að samkvæmt tölfræðinni mætti reikna með að í bekknum væri eitt upprennandi ljóðskáld, einn heittrúaður, einn herstöðvarandstæðingur, einn alkóhólisti, og einn hommi. Ég held að við höfum aldrei reiknað með lesbíum sem raunverulegu fyrirbæri.

Ég tók að mér hlutverk ljóðskáldsins, trúarnöttarans (í dag er ég trúleysingi en maður verður að prófa allt einu sinni) og ég býst við að pólitísk afstaða mín nái yfir hugmyndir okkar um herstöðvaandstæðinga. A.m.k. einn hefur farið í gegnum áfengismeðferð. En hvar er homminn í hópnum?

Ekki svo að skilja að mér finnist bráðnauðsynlegt að uppfylla allar kröfur tölfræðinnar eða að ég hafi einhvern sérstakan áhuga á kynhneigð fyrrum bekkjarfélga minna. Ég er bara svona að velta því fyrir mér hvort fólk sé virkilega svo fast mótað um 16 ára aldurinn að ekkert komi raunverulega á óvart eftir það.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Hvar er homminn?

  1. ———————————————-

    Ég er eiginlega feginn að þú varðst ekki lögfræðingur þá værir þú ekki sú sem þú ert í dag ,eða hvað? Kannski værir þú alveg eins en ég held ekki.

    Ég held ég hafi aldrei hitt skemmtilegan alvöru lögfræðing.

    En Alan Shore er góður!! Denny Crane er enn betri : )

    Over & out,, not guilty.

    Posted by: Pegasus | 2.10.2007 | 23:49:10

Lokað er á athugasemdir.