Strokur

Dönskukennarinn þekkir mig ekki. Ég hefði heldur ekki þekkt hann nema af því að ég átti von á honum hér en ég má til með að pína hann aðeins.
-Ég er Skellibjallan, segi ég en það viðurnefni notaði hann alltaf um mig og stöku sinnum um nokkrar aðrar. Hann kveikir ekki.

-Ég hélt upp á þig en þú ert nú samt eini kennarinn sem hefur kvartað yfir því að ég skilaði of mörgum verkefnum. Hann leitar á harða diskinum en finnur aðeins óljósan grun. Rámar þó í að ég hafi haft skoðanir á öllu og stöðuga þörf fyrir að þenja mig. Ég býst við að það láti nærri lagi.

Tveimur tímum síðar hefur hann áttað sig til fulls.
-Þú varst dálítið mikið ein en þú varst samt skemmtileg. Mér þótti vænt um þig, segir hann og ég trúi honum því hann var góður við mig. Þegar ég sat einhversstaðar ein og fékk mig ekki til að blandast hópnum kom hann alltaf til mín og spjallaði aðeins við mig, ekki um félagslega stöðu mína eða einhverja bömmera heldur bara daginn og veginn. Og þegar veröldin hrundi yfir mig og mér leið svo hroðalega að ég skreið upp í rúm strax eftir kvöldmat í meira en tvær vikur, kom hann og settist á rúmstokkinn hjá mér og strauk á mér hárið. Hann vissi ekkert hvað var að og reyndi ekki að toga það upp úr mér. Þetta voru heldur engar þaulsetur, bara örfáar mínútur af notalegheitum.

Ég held að í dag gæti karlkennari ekki setið einn á rúmstokk 14 ára telpu og strokið á henni hárið án þess að hætta mannorði sínu. Er ekki merkilegt að á sama tíma og við kveinum hástöfum um þöggun kvenna, finnist okkur eðlilegt að berja niður alla tjáningu karlmannsins á ástúð?

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Strokur

  1. —————————

    Falleg orð og falleg hugsun.
    Takk fyrir síðast. Ég man þig vel, skellibjalla, og þakka vinskap þinn og hlýhug.
    Dk.

    Posted by: Dk. | 30.09.2007 | 23:33:15

Lokað er á athugasemdir.