-Ég veit alveg hver lausnin er, ég þarf bara að læra að lesa hugsanir, sagði ég.
-Sjálfsagt væri það praktískt en þú þarft líka næringu og svefn og umhyggju og það vill svo skemmtilega til að það er allt nokkuð raunhæft, sagði hann.
Stundum getur maður ekkert gert fyrir þá sem manni þykir vænt um nema elda handa þeim mat. Kjöt hljómar ekki eins og merkileg sáluhjálp í okkar offitusamfélagi en maður skyldi ekki vanmeta þá fæðu sem er elduð og borin fram af ástúð. Fátt er þreyttri sál jafn hollt og góð máltíð nema ef vera skyldi góður og hollur heimilismatur sem einhver annar hefur eldað. Eftir tvær vikur af örbylgjupizzum, Sjoppmundarsamlokum, Tommaborgurum og núðlusúpum, virkar nautakjöt og grænmeti eins og kæruleysissprauta. Súkkulaði með hnetukremi, ásamt faðmlagi í eftirrétt, átta tíma svefn og maður er tilbúinn í næstu lotu.
Nóttin var martraðalaus. Ég held að sjái fyrir endann á þessu stríði.
————————–
Mikið er ég sammála þér með matinn…
Posted by: Jóda | 16.03.2007 | 18:30:05