Ef einhver segði mér allan sannleikann um sjálfan sig í netspjalli þætti mér hann annaðhvort óvenju óspennandi eða afspyrnu heimskur. Sennilega hvorttveggja. Ég reikna ekki með að fá rétta mynd af manni í gegnum msn. Ef það væri hægt gæti maður allt eins stofnað til internethjónabands. Ég ætlast ekki til að í lífi manns á fertugsaldri sé allt slétt og fellt, er ekki einusinni viss um að það væri eftirsóknarverður karakter en ég ætlast hins vegar til þess, þegar einhver vill hitta mig, að þær upplýsingar sem hann gefur mér áður standist.
„Einstæði faðirinn“ reyndist eiga barn í útlöndum, sem hann hittir á eins til tveggja ára fresti. Mér hálfgramdist þar sem ég var búin að taka mjög skýrt fram að ég væri að leita að manni sem ætti börn sem hann væri í góðu sambandi við. En, ég er umburðarlynd kona og þar sem ég var ekki búin að útskýra í smáatriðum hversvegna það er mikilvægt, sá ég ekki ástæðu til að snupra hann fyrir þessa hagræðingu á sannleikanum. Ég ákvað að fyrirgefa honum að sóa tíma mínum og það var ekkert mjög erfitt. Það er alltaf auðveldara að fyrirgefa þeim sem eru myndarlegir, klárir og hafa frábæran húmor líka. Satt að segja hefði þetta getað verið miklu verra. Hann hefði getað verið þrautleiðinlegur og forljótur stalker. Þetta var bara ágætt hádegisstefnumót við huggulegasta mann og ég hef oft sóað tíma mínum á verri hátt. Ég sat því kyrr og þáði kaffið og beygluna.
Þegar fólk fer að tala saman koma gæðin í ljós. Hann er greinilega alveg laus við minnimáttarkennd og langt frá því að vera hnýsinn um líf og karakter þeirra kvenna sem hann hittir. Ekki skorti skemmtilegheitin og það fór þannig séð vel á með okkur alveg þar til hann nefndi svona eins og í framhjáhlaupi að ég virtist „taka þetta frekar alvarlega“. Eftir það fór bara vel á með honum, ekki mér. Ég þekki nefnilega týpuna. Kannski hefði verið virðulegast að þakka vinsamlegast fyrir kaffið og drífa sig í vinnuna en af kaldlyndi mínu ákvað ég að nota tækifærið til að skemmta mér dálítið fyrst ég var að þvælast þetta á annað borð.
-Já, ég tek þetta mjög alvarlega eins og ég var búin að segja þér, sagði ég og blakaði augnhárunum. Mig langar í maka og það má ekki vera neinn slordóni svo ég ætla að hitta eins marga og ég mögulega get. Í versta falli er þetta tímasóun en kannski finn ég frábæran mann. Ef ekki, þá finn ég kannski einhvern sem ég get sofið hjá.
Við þetta svar kom blik í auga hvalrekans og hann svaraði svo sem við mátti búast að þetta væri nú svona svipað hjá honum. Ég reisti brjóstin og fitlaði við hárið á mér.
-Þú ert þá að leita að maka en ekki bara bólfélaga, sagði ég og brosti undirleit.
-Tja, hvað skal segja. Ég hef engan áhuga á að sofa hjá úti um allar tryssur, laug hann. Jú ætli maður vilji ekki einhverntíma fara í sambúð. Allt í rólegheitunum samt en ég er ekkert að leita að konu bara til að eiga bólfélaga. Kannski eitthvað svona mitt á milli.
Sjarmörinn vill semsé konu sem er „eitthvað mitt á milli“ maka og bólfélaga. Afkóðað útleggst það: „Konu sem ég get komið til alltaf þegar mér hentar, sofið hjá og gert allskonar skemmtilegt með en sem gerir samt engar kröfur til mín og skilur það bara þegar ég má ekki vera að því að sinna henni.“ Gamla sagan.
Einhverntíma fyrir löngu hefði ég reynt að ljúga því að sjálfri mér að hann væri í tilvistarkreppu eða í sárum eftir einhvera tíkina og þyrfti bara svolítinn tíma til að átta sig. Einhverntíma fyrir ekkert svo rosalega löngu hefði ég brosað stirðlega, sagt honum hreint út að hann væri greinilega fáviti en samt fallegur fáviti og boðið honum stöðu lífræns kynlífsleikfangs. En ég er eiginlega búin að fá alveg nóg af svona bulli.
-Þér líst kannski ekkert á mig? spurði ég í véfréttartón, ók mér feimnislega og hélt munnvikunum eins nálægt eyrunum og ég mögulega gat.
-Jú, váá! Mér líst sko alveg á þig, svaraði hann og belgdi bróstkassann.
Ég flissaði kvenlega og sagðist þurfa að drífa mig í vinnuna. Hann spurði hvort við ættum ekki að hittast aftur og ég sagðist vera til í það. Endilega!
Á þessari stundu situr hann væntanlega á veitingastað við Suðurlandsbrautina og bíður eftir mér. Ég er ekki mætt. Ég fann mér annað þarfara að dunda við (að blogga sjálfri mér til skemmtunar) og úps! haldiði að ég hafi ekki gleymt símanum mínum úti í bíl. Æ,æ. Ég var svona að hugsa um að skrifa honum skeyti á einkamal.is „Þeir sem sóa tíma mínum eða mæta á deit á fölskum forsendum geta búist við því sama af mér“ en ég ákvað að gera það ekki. Blokkeraði hann bara, orðlaust. Mér þykir eiginlega dálítilð vænt um hann og það er svo hollt að þurfa stundum að velta því fyrir sér hvað fólk er eiginlega að pæla. Vil ekki taka frá honum möguleikann á því að þroska réttlætiskennd sína. Ekki veitir af.
Ég skrifaði ekki um þennan hádegisfund fyrr því það var alveg hugsanlegt að hann fletti mér upp á google. Ég reiknaði reyndar ekki með því að hrifning hans risti nógu djúpt til þess. Hann tók því sem fullnægjandi svari þegar ég sagðist eiga tvo unglingsstráka og vinna í gjafavörubúð og sá gífurlegi áhugi til viðbótar við limbó-milli-bólfélaga-og-maka-heilkennið kemur algjörlega upp um týpuna. Ég beið samt með færsluna og hélt honum uppi á snakki á netinu í smástund á hverjum degi í millitíðinni.
Kannski finnst einhverjum það lítil synd af bráðhuggulegum manni að hitta konu sem er í yfirlýstri makaleit, bara til að tékka á möguleikanum á góðum drætti. Sjálf er ég búin að fá mig fullsadda af þessháttar kónum. Það er ekkert voðalega grimmdarlegt að senda fávita í fýluferð en það heitir víst „að setja sig niður á sama plan“ og þykir ekki virðulegt. Í augnablikinu er ég semsagt gjörsamlega laus við virðingu en fokkitt, skítt með það, ég skemmti mér prýðilega á þessu lága plani.
——————————————————
Skemmti mér konunglega yfir förum þínum og óförumg Gott að vita af fleirum sem baxa við raunir einhleypra kvenna í Reykjavík. Gangi þér vel. Kv.e.
Posted by: Elín | 1.02.2007 | 13:22:51
——————————————————
Þú ert skepna Moby Dick …
Posted by: Hugz | 1.02.2007 | 13:31:25
——————————————————
Ég er ekki alveg viss um ágæti þessara pælinga. Það er þess hluta að með ákveðnum heiðarleika geti svona „á milli“ samband ekki verið ókei. En eðlilega verður þú að sækjast eftir því sem þú vilt.
Þeir sem svara því kalli, sem örugglega er skýrt og auðskilið þar sem vettvangurinn býður sannarlega upp á það (sem virkar reyndar á fáa á Einkamálum), ættu svo auðvitað bara að vera þeir sem kallað er eftir.
Reyndar spilar heiðarleiki gagnvart sjálfum sér og sjálfsþekking þar inn í en fýluferðarmaðurinn virtist alveg vita hvað hann vildi.
Eníveis… langur formáli sem var svo kannski bara óþarfi en þetta fékk mig aðeins til að hugsa. Og það er gott. Small merkilega inn í önnur málefni sem ég var að fara yfir í huganum.
Posted by: Kalli | 1.02.2007 | 17:49:12
——————————————————
heh 😀
Posted by: hildigunnur | 1.02.2007 | 17:49:13
——————————————————
Úff, þetta kom kolrangt út hjá mér. Sem sagt, til að þetta sé skýrar, þá á ég við að „á milli“ samböndin geti virkað. Reyndar held ég að það sé sjaldgæft og auðvitað þurfa báðir aðilar að vera á sömu nótum þá.
Posted by: Kalli | 1.02.2007 | 17:51:55
——————————————————
Sjittur maður!!! Þú ert tík!!! Vertu stolt!
Posted by: Barbie sjálf | 1.02.2007 | 20:23:38
——————————————————
Kalli minn, kærustusambönd virka ágætlega á meðan fólk er að kynnast og til þess eru þau. En þegar fólk er búið að þekkjast í nokkra mánuði, veit það alveg hvort það vill láta reyna á sambúð eða ekki. Og þá hefst oft ferli sem ég get ekki flokkað sem neitt annað en kúgun. Annar aðilinn vill sambúð, hinn vill hana ekki en í stað þess að segja það hreint út heldur hann/hún kærustunni/kærastanum í tilfinningalegri gíslingu með því að láta hann/hana halda að það sé bara tímaspursmál hvenær þetta hálfkák verði að alvöru sambandi.
Posted by: Eva | 1.02.2007 | 20:44:35