Galdrabíllinn bilaði

Ég held að minn næst þarfasti þjónn sé að hefna sín fyrir vanræksluna. Þegar hann bilaði lofaði ég honum að senda hann í allsherjar yfirhalningu ef hann héldi út þar til hann kæmist á spítalann og það mun ég að sjálfsögðu standa við en dæmið verður svo dýrt að ég þarf líklega að leita til Mammons. Ég virðist vera í náðinni hjá honum svo það reddast. Eins gott samt að ég sé betri við Lærlinginn en bílinn, annars fer nú Mammon minn að verða þreyttur á mér.

-Hann bilaði í gærmorgun en nú lítur út fyrir að hann sé gróinn sára sinna. Ég ákvað nú samt að koma með hann til öryggis, sagði ég.
Bílalæknirinn aftók með öllu að bíllinn hefði náð sér af flensunni af eigin rammleik. Staðhæfði að frostið hefði gert bilunina fyrirfinnanlegri, sem væri kannski eins gott þar sem greyið væri bæði í manndrápsástandi og sjálfsmorðshugleiðingum. Reyndar væri það ótrúverðug hundaheppni að ég hefði komið honum á verkstæði hjálparlaust, oftast þyrfti krana í svona tilfelli.
-Hlýtur að vera algjör galdrabíll, sagði hann, án þess að hafa hugmynd um fjölkynngi mína.

Ég brosti. Ætla rétt að vona að kreditkortið mitt sé jafn göldrótt og bíllinn.

Og nú er víst best að ég hætti þessu dagbókarrunki og snúi mér að því sleikja rassinn á Mammoni. Góðar stundir